11.12.2007 | 21:08
Þegar jólin voru nærri því eyðilögð - og afmælisveislan líka
Ekki man ég hvort eftirfarandi frásögn hefur fyrr verið birt, en örugglega var hún lesin nokkrum sinnum við ólík tækifæri. Svo langt er nú liðið síðan, að ég læt hana flakka.
Kemur hér fyrri hluti sögunnar:
Sú ferð sem hér er sagt frá mun hafa verið farin árið 1956 eða þar um bil. Ferðalangarnir vorum við Örn bróðir minn.
Á þeim árum var það gert okkur systkinum til skemmtunar, og sjálfsagt ekki síður mömmu til léttis, að leyfa okkur að eyða hluta af jólafríinu hjá ömmu og afa á Hulduhólum. Í þessum ferðum var ekki minnst um vert að farið var með okkur í skoðunarferðir til höfuðborgarinnar, þar sem jólin voru farin að gera boð á undan sér. Jólasveinarnir voru komnir í glugga Rammagerðarinnar, og ef við voru heppin, stóðum við á Austurvelli þegar kveikt var á stóra jólatrénu.
Ekki var þessi orlofsdvöl neitt frábrugðin öðrum, en líklega varð hún lengri en til stóð í upphafi, því ég man að amma var að álasa sjálfri sér fyrir að hafa ekki látið okkur fara deginum fyrr, þegar hún sendi okkur af stað í Selfossrútunni og komið var hið versta veður og færi. Þá fór rútan frá B.S.Í. niðri í miðbæ.
Við vorum svo sem ekkert leið yfir veðrinu, við vorum á heimleið og jólin á næstu grösum, varla meira en 4 - 5 dagar eftir.
Rútan varð að fara Krísuvíkurleiðina, því heiðin var ófær og gat alveg eins orðið það til vors. Svo lengi sem áfram var haldið var allt í lagi. Við þurftum bara að komast á Selfoss nógu tímanlega til að ná mjólkurbílnum áður en hann legði af stað upp í hrepp. En ferðin átti eftir að ganga öðruvísi en ætlað var og eiginlega snúast á versta veg.
Hvort rútan varð of sein til að ná mjólkurbílnum, eða að hann fór ekki af stað vegna ófærðar man ég ekki, en þegar við komum inn á ferðaskrifstofuna á Selfossi, þar sem Bjartur sat og talaði í talstöðina, gaf hann sér tíma til að skjóta því að okkur, eins og ekkert væri sjálfsagðara, að við gætum ekki farið heim fyrr en á morgun. Á morgun!Ég man ekki mörg verri áföll sem ég hef orðið fyrir um dagana, kannski ekkert. Hvað áttum við að gera til morguns? Selfoss var í okkar augum aðeins áningarstaður. Til að skipta um farkost, eða komast á klósett á leiðinni til Reykjavíkur, eða til ömmu og afa á Hulduhólum. Við þekktum hér ekki nokkurn mann og höfðum aldrei orðið vör við að neinn hefði áhuga á að kynnast okkur. Og það var greinilega gefið í skyn að við ættum ekki að setjast að á þessari ferðaskrifstofu.
Bjartur í Selfossradíó var á þessum árum frægastur allra Selfossbúa, að minnsta kosti sá eini sem við þekktum með nafni. Við höfðum ekki svo sjaldan hlustað á hann tala við mjólkurbílstjórana sem voru fasti í sköflum á Húsatófta, eða Sandlækjarholtinu. En það dugði ekkert hér, hann hafði ekki áhuga á að hýsa okkur.
Eftir einhverjar vöflur kom til okkar fólk, sem við vissum jú að voru sveitungar okkar, en við þekktum þau ekki neitt. Hann var lítill og hét Stebbi í Götu, en konan hans hét Gústa og það var vont að skilja hvað hún sagði, samt var hún ekki útlensk.
Þau sögðu okkur að við ættum að koma með þeim í eitthvert hús. Við gátum lítið haft á móti því og létum þau fara með okkur í ókunnugt hús hinumegin við ána.
Ekki þekkti ég fólkið þarna, það voru hjón og gömul kona, ein stelpa minni en ég og og tveir strákar eldri. Strákarnir höfðu að vísu verið í sveit uppi í hrepp og Örn lék sér þá stundum með öðrum þeirra, en þá höfðu þeir mig yfirleitt útundan, svo þessi félagsskapur varð ekki til að gleðja mig. Ég man ekki að neitt markvert gerðist það sem eftir var dagsins. Strákarnir lánuðu okkur rúmin sín, sem voru í smáherbergi uppi á lofti og við fórum líklega snemma að sofa. Fullorðna folkið var niðri að spila. -------
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 197621
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hvorn þeirra skildi Örn hafa leikið við?
...bíð spennt!
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 11.12.2007 kl. 21:19
Meira!! Bíð spenntari en Guðbjörg. Svo skemmtileg örlagasaga.
Kata mágkona (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 22:13
Ég hugsa nú að þetta hafi verið gott fólk og þannig var þetta þá að maður hjálpaði náunganum. Hvað þá sveitungum sínum sem voru bara börn. Bið eftir framhaldi.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 11.12.2007 kl. 22:32
Ég bíð eftir framhaldinu, finnst nú samt ég hafi e-n tímann heyrt þessa sögu...
Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 11.12.2007 kl. 23:09
Bara skemmtilegt. Hlakka til að lesa framhald.
Kristín (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 09:41
Spenntur eins og annað fólk…
Man sosum ekkert eftir þessu. Þegar þið voruð farin voruð þið farin … rámar samt í að hafa farið í bæinn og horft á rafskinnu og jólasveininn með ykkur.
Sigurður Hreiðar, 12.12.2007 kl. 10:28
Man ekki eftir þessu, þetta var árið sem ég fæddist.
mýrarljósið (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.