Grenjandi á flótta undan beljunum

Nú er rétt að hætta þessum þeytingi um alla sveit og færa sig nær upphafinu.

Frá Garði var farið upp Hvammsbrekkuna upp á Hvammshlað, sunnan við hlaðið var Kiðagilið og þar meðfram Högnastaðaásnum lá gatan fram að Gröf. Klapparhylurinn í ánni á vinstri hönd og svo Týrukofi hægra megin í blágresisbrekkunni neðan við Högnastaði. Það er mjög líklegt að í Högnastaðaásnum séu staðir sem einu sinni áttu nöfn, ég veit þar af Ólafskletti, en man ekki nákvæmlega hver hann er af þeim klettum sem eru  þar. Ég á það á korti sem ég finn ekki í bili. Þó veit ég að hann er á þeirri leið sem við fórum þegar við á milli jóla og nýárs bárum upp á ás hverja ferðina af annarri af brennuefni. Dag eftir dag, ferð eftir ferð, létum ekki deigan síga.

Á gamlársdag kom svo í ljós að hægt var að komast á traktor frá Högnastöðum alveg að brennustað og þá tóku fullorðir þátt í aðdráttum.  Næsta ár var það svo gleymt og við byrjuðum aftur að burðast upp, á annan í jólum,með eitt dekk eða fjórar spýtur í hverri ferð. 

Ólafskletturinn gæti verið sá sem við skriðum uppá þegar hvammsbeljurnar eltu okkur fjögur eða fimm og ætluðu að drepa okkur, eða það héldum við. Stóð svo hersingin á klettinum, grenjandi svo heyrðist til bæja - og Snati með okkur, sem líklega hefur verið fyrirhugað fórnarlamb kúnna. Venjulega sýndu þær okkur ekki slíkan áhuga. 

Norðan við bæinn í Hvammi lá gata inn með ásnum. Þar á miðri leið var klettur sem við lékum okkur mikið í. Það var þar oft drullubú á hverri syllu, en kletturinn var nafnlaus. Þar fyrir innan var svo skriðan sem steindeplarnir bjuggu í á sumrin, áttu þar hreiðrin sín og vörðu þau með hvellum hljóðum. Þar fyrir neðan var brunnurinn, tunna sem safnaði vatni. Upp úr honum bjargaði ég einu sinni lambi og blés í það lífi, þó ég vissi ekkert þá hvað blástursaðferð var.

Þarna fyrir innan var svo Hveraheiðin og austan við hana hvammarnir.  Upp af þeim var svo kappreiðavöllurinn sem notaður var til æfinga fyrir kappreiðarnar á Sandlæk. Þarna á heiðinni, næst ásnum var gerðið, allvænt afgirt tún og gömul fjárhústóft innan girðingarinnar. Þangað hefur verið farið meðfram ásnum til gegninga frá Gröf - í Hvammi voru ekki kindur fyrr en eftir 1950. Enda var þessi tóft eldgömul og eingöngu notuð sem hreiðurstæði smáfugla á sumrum.

Ofan við gerðið lá svo Ljónastígurinn vestur yfir ásinn. 

Áður fyrr voru réttirnar í Túnsbergslandi og þá var framsveitarféð rekið þaðan meðfram Litlu-Laxá og um Kvíadal sumt, en annað beygði af leið á  móts við nautagirðinguna, norðan Hveraheiðar og handan ár, og fór svo um Ljónastíg vestur yfir ásinn. Þá var komið niður nokkru fyrir sunnan Bryðjuholtsmúla. 

Ekki man ég eftir neinum örnefnum tengdum draugum eða álfum, nema Draugahvernum. Líklega hafa engar þesskonar verur þrifist í Grafarhverfinu.

Í Gröf var þúfnaklasi í túninu vestan við bæinn sem var kallaður Lögrétta, hefur líklega heitið það frá fornu fari. Í Gröf var þingstaður í fornöld.  Þarna var svo sléttað og Sunnuhlíð byggð yfir. Þar var líka farið upp brekkuna, á milli Lögréttunnar og tjarnarinnar upp á Hof, þar sem fjárhúsið var. Emil í gröf átti aldrei margar kindur, en þær gáfu örugglega meira af sér en stærri hjarðir á öðrum bæjum.  Og fallegar voru þær. Grafarhverinn var svo austur við ána undir bakkanum á móts við Reykjarbakka.     Í honum sáust hverafuglar. Grafarhverfið var eingöngu okkar megin árinnar, Grafarbakkabæirnir voru ekki þar með.

Örnefni verða ekki öll til á sama tíma og þau koma til af ýmsu. Tobbugarður er nafn á gömlum gulrótagarði norðan Hverahólmans og sílalækurinn þar fyrir austan. Nefið er líka ákveðinn staður sem enginn þekkir þó víst nema við systkinin. 

Kannski finn ég kortið einhverntíman og þá get ég bætt úr því sem hér vantar. Þó minnir mig að þar séu ekki öll þau nöfn sem hér hafa verið nefnd.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu...

Hahaha það hafa þá fleiri en ég grenjað á Ásnum...

Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 27.11.2007 kl. 23:26

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Eins og unglingarnir í dag segja ,"viltu ræða það eitthvað frekar"?

Helga R. Einarsdóttir, 29.11.2007 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 197622

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband