26.11.2007 | 21:35
Það sem einu sinni hét og heitir enn, þó fáir muni eftir því, í Grafarhverfi hinu forna
Ég ætla að skrifa hér, líklega í tvennu lagi, það sem ég kann eða man um örnefni í Grafarhverfinu. Ekki dettur mér í hug að ég viti allt sem skyldi og gaman væri ef fleiri leggðu mér lið til að bæta um betur. Ég skrifa þetta í þátíð, en allt er það þó í fullu gildi enn í dag.
Það sem næst okkur var, og hét eitthvað, voru Litla- Laxá og Hverahólminn. Það var vað á ánni fyrir framan bæinn í Garði, en það hét ekki neitt. Klapparhylurinn var það eina í ánni nærri okkur sem hét eitthvað. Svo var reyndar annar hylur í ánni, miklu neðar, í Grafar landi, vestan við Torfdalinn. Sá hét Breiðtrog og við hann var byggt klakhús.
Í Hverahólmanum var bara einn hver sem átti nafn, það var Vaðmálahverinn, allir aðrir voru bara hverir og hétu ekki neitt. Einn þeirra var þó farinn á mínum tíma. Honum hafði draugur frá Reykjadal stolið fyrir mörg hundruð árum. Þar efra var enga volgru að finna og hann því sendur í ránsferð fram í sveit. Fyrst hafði hann þó víst verið vakinn upp úr kirkjugarðinum í Reykjadal. En þessi hver sem hann tók, var heitur að halda á og draugsi glopraði honum niður eftir skamman spöl í Hveramýrinni framanvið Hveraheiðina og heitir þar síðan Draugahver.
Austan við Hverahólmann, hét "austur á eyri" og önnur eyri var svo framan við ána og þá var farið "fram á eyri". Og ef maður ekki fór upp hverabrekkuna að Grafarbakka lá leiðin fram með bakkanum og fram í Hof. Þar var braggi sem ég aldrei vissi hvað geymdi, og svo hrútar, líklega tveir, en á þessum árum voru hrútar ýmist dauðir eða lifandi og dældu vatni væru þeir dauðir. Þessir voru dauðir.
Ef farið var upp Hverabrekkuna að Grafarbakka var þar á brekkubrún til hægri hænsnakofi austurbæinga og þar fyrir framan svo gróðurhús, eða húsarústir sem Gróður h/f. hafði átt. Þaðan lá svo gatan um hlaðið á Grafarbakkabænum, Þar var brúsapallurinn sem mjólkurbrúsarnir voru settir á í daglegum ferðum frá Hvammi.
Svo var farið áfram austur bakkann, sem var brattur niður að ánni. Eiríkur hrapaði þar einu sinni niður á traktornum, sem fór í klessu á klöppinni við ána, en Eiríkur laskaðist bara lítillega. Þá varð hlé á upptöku í kartöflugarðinum okkar á eyrinni. Þarna lá svo vegurinn framhjá Helgakofa, þar sem neglt var fyrir alla gluuga, og svo var komið á Stöðulinn.
Á Stöðlinum var rétt, áður fyrr notuð til að mjólka kvíaærnar, eins og gert var í "gamla daga". Kvíaærnar voru rollur sem lömbin voru tekin frá og þær svo mjólkaðar kvöld og morgunn, eins og grafarbakkabeljurnar á síðustu árum.
Á mínum tíma voru þessar réttir notaðar í tengslum við ærhúsið sem var þar norðanvið, á bakkabrún, nýlega byggt og myndarlegt. Í réttinni var rúið og markað á vorin og annað stússað við kindur þess tíma. Hinumegin við veginn til móts við réttina var trjágarður, sem einhver framsýnn bóndi hafði plantað. Á þessum tíma voru þar myndarlegustu tré. Þarna fyrir austan kom svo afleggjarinn út á þjóðveginn, sem lá upp með Hryggjarholtinu og á svo ofaní Kvíadalinn, sem Kvíadalslækurinn rennur um. Svo upp brekkuna og upp á Mela. Þar voru malargryfjur og mátti þar sjá grafarbakkabræður "delera" á sunnudögum.
Á Melunum áttu pabbi og Siggi á Hverabakka rófugarð og kartöflukofa. Stæði maður þar í kofadyrum blöstu Selholtin við, þar sem Eiríkur, upprisinn úr traktorsslysinu á nú sín fjárhús. Meðfram ánni, frá Kvíadal að Áslæk voru mýrarhvammar sem hétu Krókar --
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 197622
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ. Ég var hér
Josiha, 26.11.2007 kl. 22:00
Takk fyrir fróðleikinn... þarna var vitneskja mín innan við 40%.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 26.11.2007 kl. 22:01
Ég var hér líka.
En nú ætla ég að drattast í lærdóminn...
Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 22:22
Hvers vegna þykir mér svona gaman að lesa þetta, Helga Ragnheiður? Er það vegna þess að mig rámar í þessi nöfn og suma af þessum stöðum? Eða vegna hlýlegrar meðferðar þinnar á veslings draugnum sem var sendur að stela hver en réð ekki við að koma honum alla leið? Ég sé draugsa litla fyrir mér, umkomulausan og vinalausan, standa volandi yfir hvernum sem hann missti…
Kv. í bæinn
Sigurður Hreiðar, 27.11.2007 kl. 08:19
Það er ekki undarlegt að hveravatnið sé þér hugleikið, enda upp alin við að koma böndum á það og nýta öllum til hagsbóta . Okkur hefur farið mikið fram frá því draugsi glopraði niður hvernum, en við eigum þó vafalítið margt ólært. Einhversstaðar las ég að þetta væru fyrstu skráðu heimildir um hitaveituframkvæmdir í Hrunamannhreppi.
Helga, veist þú hvort svæðið, mýrin austan við Hryggjarholtið, þar sem "Laufskálar" eru að byggja sumarhús, heitir eitthvað?
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 08:44
Gott að geta bætt um betur Guðbjörg.
Og Siggi Hreiðar - nú ertu búinn að koma inn hjá mér þvílikri samúð með þessum vesalings draug, að ég er vís til að fara upp að Reykjadal til að leita að þúfum sem gætu verið gömul leiði og lesa eitthvað fallegt þar yfir. Heldurðu annars að hann hafi komist þangað aftur? Ég er viss um að hann hefur verið að gaufast þarna á miðjum vetri, það saknar enginn heita vatnsins á miðju sumri. Og örugglega hefur hann verið illa klæddur og skólaus, í frosti og myrkri í nóvemberlok
Snorri - ég veit það ekki en get vel komist að. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 27.11.2007 kl. 19:47
Þetta með nafn á svæðinu er svo sem ekkert stórmál fyrir mig og kannski heitir það ekki neitt, en ekki væri verra fyrir þá sem þarna kaupa sér hús að vita hvar húsið stendur og leiðinlegt ef eittvert gamalt nafn hverfur.
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 15:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.