25.11.2007 | 22:12
Þar sem háir hólar -
- fylltu Öxnadalinn hálfan, fæddust forfeður og mæður okkar, sem í gær komum saman til að skoða hvert annað. Ríflega tvöhundruð voru mætt í miðdagskaffi, hóflega dagskrá og myndasýningu. Afkomendur systkina Jónasar. Þau voru tvö sem áttu börn og á þessum örstutta spotta af eilífðinni sem liðinn er síðan, höfum við fjölgað okkur svo, að ekki myndi jarðnæði fyrir helminginn þó Eyjafjörður allur væri undir lagður.
Það er skrýtið að koma í svona hóp. Að vísu vorum við þarna um þrjátíu af mínum nánustu ættingjum, sem höfum komið saman hvert fimmta ár, við þekkjum hvert annað.
En svo var þarna fólk sem ég hitti jafnvel daglega, eða hef þekkt í mörg ár, en ekki haft hugmynd um að væru frændur mínir. Það var gaman. Og skemmtilegast reyndar að ég varð ekki fyrir vonbrigðum með neinn!
Ein var þarna sérstaklega skemmtilegt dæmi: Við hittumst fyrst fyrir tæpum tíu árum, í skóla. Urðum strax með einhverju móti tengdar og hefur það haldið síðan. Af öllum þeim fjölda sem var með okkur af öðru fólki, er enginn sem ég náði eins góðu sambandi við, það var eins og við værum gamlar sálir sem fengu það sjaldgæfa hlutverk að fara saman í gegnum eitt líf enn. Í gær settumst við í salinn á sama tíma, önnur tveimur bekkjum framan við hina.
Í lok dagskrárinnar kom fram hjá dagskrárstjóra, að hann hafði verið að velta fyrir sér, og kannski skoðað aðeins, helstu kosti og galla þess fólks sem fyllir þennan flokk. Afkomendur Rannveigar og Hallgríms, gamla aðstoðarprestsins hans Jóns á Bægisá.
Kostirnir sýndust vera þeir: Að það er gefið fyrir bækur, að það er öðrum gott, og að það loðir ekki við það fé. Vissulega góðir kostir sem ýmislegt má lesa útúr. Gallarnir hins vegar voru: Þeir sömu og kostirnir.
Ég er ekki frá því að þarna sé nokkuð rétt til getið og þekki ég einkennin hjá mörgum minna ættingja. Og eitt er víst að enginn var í veislunni í gær af þeim mönnum sem eru frægastir á Íslandi í dag. Þar voru hvorki braskarar eða fjárglæframenn.
En enginn var þar heldur fullur, og enginn datt í tröppunum sem voru þó nokkuð margar í salnum. Enda er ég alveg viss, svona þegar ég hugsa út í það, að ef þeir hefðu verið búnir að finna "AAið" upp þegar hann Jónas var uppá sitt besta, þá hefði kannski allt farið á annan veg, og við værum miklu fleiri í fjölskyldunni.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það sýndi nú ein kona gamla Jónasartakta í gær og datt...spölkorn frá tröppunum í fyrirlestrarsalnum. Það klappaði enginn fyrir henni þannig að hún stóð upp sprelllifandi.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 25.11.2007 kl. 22:31
Ég var hér.
Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 23:14
Örugglega skemmtilegt. Kveðja frá Oddense.
Kristín Gunnars. (IP-tala skráð) 26.11.2007 kl. 10:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.