15.11.2007 | 21:31
Þá var róið yfir Hvítá til að sækja lækni
Fyrstu ár ævi minnar vissi ég lítið um tungnamenn. Uppsveitirnar áttu ýmislegt sameiginlegt, svo sem íþróttamót, kappreiðar, böll og svo komu allir til okkar á Álfaskeið. En á þessum mannamótum var lítið um tungnamenn. Þó voru auðvitað einhverjir þar sem áttu bíla og gátu farið upp á Brúarhlöð til að komast í hreppana, en það var ekki almennt. Vegurinn upp hrepp og yfir á Brúarhlöðum hefur líka mjög trúlega verið ófær stóran hluta ársins.
Eitt var það þó sem við urðum að sækja í Tungurnar, það var læknirinn. Hann var í Laugarási og ef einhver þurfti á lækni að halda, var hann ferjaður yfir Hvítá hjá Iðu. Róið fram og til baka á árabát. Líklega var það oftar sem læknirinn var sóttur, en kom þó fyrir að fólk fór til hans og þá þessa sömu leið.
Mín fyrsta ferð í tungurnar var líklega farin þegar við fórum í grafarhverfisferðalagið að Gullfossi og Geysi. Dagsferð um hásumar og þá var farið um Brúarhlöð.
Næst fór ég um sumar á tombólu á Vatnsleysu. Mamma og pabbi fóru nokkrum sinnum með okkur þangað. Þeim fannst tungnamenn skemmtilegir. Við höfum trúlega fengið hvammséppann lánaðan og það var farið um Brúarhlöð. Tombólan á Vatnsleysu var árleg og með merkari mannamótum þessa tíma. Við fengum að kaupa nokkra miða, það dugði ekkert einn eða tveir af því að alltaf voru einhver núll og einstök heppni að fá vinning. Vinningarnir voru líka góðir. Lömb og jafnvel einstaka folald. Allskonar verkfæri og búsáhöld.
Mamma sagði mér að einu sinni hefðum við Örn átt miða með vinningi og fórum inn til að sækja hann. Borðið var fullt af allskyns dóti og forláta koppur hékk á veggnum. Konurnar fóru að leita og voru nokkuð lengi að því, en þegar ein tók í koppinn til að gá að númeri var okkur öllum lokið og hlupum út. Óbærileg tilhugsun að fá kopp. Ekki áttum við hann þó, og fengum eitthvað annað skemmtilegra. Ég á enn kleinuskál góða sem ég fékk í vinning eitt árið. (mynd) Ég veit um strák frá Jaðri sem fékk lamb og reiddi það heim fyrir framan sig á hestinum.
Ég var þrettán ára þegar Iðubrúin var opnuð og þá opnaðist okkur nýr heimur - heimur nágrannanna fyrir vestan Hvítá, sem við fram til þessa höfðum horft til af Högnastaðaásnum. Ekki kannski með löngunaraugum, við vissum ekkert hvað var þarna fyrir handan. En við horfðum til útfjallanna án þess að vita á þeim nöfnin, Jarlhetturnar þó, og við vissum að þar var Geysir. Kom jafnvel fyrir að við sáum hann gjósa. Við þekktum líka Bræðratungu, af því að þarna af ásnum hafði okkur oft verið sagt af henni Siggu frá Skipholti sem bjó þar með manninum sínum honum Sveini.
Um þetta leyti fékk pabbi éppann okkar og við gátum farið að ferðast. Og þá kom á daginn að pabbi og mamma þekktu fullt af fólki í þessari sveit. Við fórum til Maju og Bjössa í Skálholti og svo þekktu þau fullt af fólki á Vatnsleysu.
Það voru garðyrkjumenn í Laugarási sem pabbi fór oft til og ég var ánægð þegar é fékk að fara með til Hjalta sem var svo vinalegur og góður. Hann átti fullt af börnum, en þau voru öll lítil og ég þekkti þau ekkert. Það var Hjalti sjálfur sem ég var að heimsækja.
Aldrei fór ég í Tungnaréttir. Þær voru nefnilega daginn sem ég var að fara á móti safninu og það var miklu nauðsynlegra. Pabbi og mamma fóru stundum og sögðu að þar væri alltaf verið að syngja. Við vorum að hugsa um okkar rollur austan við Hvítána.
Eitt laugardagskvöld þegar ég var orðin stór vorum við á balli í Félagsheimilinu á Flúðum og þá var ákveðið að fara ríðandi á kappreiðarnar í Tungunum næsta dag. ( í fyrramálið fattiði?) Snemma á sunnudegi fóru svo fjöldamargir hestamenn að tínast saman á leið upp hrepp og að Brúarhlöðum. Skeiðamenn og Gnúpverjar og Hrunamenn ríðandi í stórum hóp. Vel ríðandi með minnst tvo hver. Þegar komið var yfir brúna uppi á Brúarhlöðum man ég að hann Skjóni minn flækti sig í vír og hljóp með mig góðan spöl með dræsuna aftaní sér. Ég datt þó ekki í það sinn og hann sleit þetta af sér.
Kappreiðarnar voru við Hrísholt og þar vorum við svo þar til síðdegis, en þá var haldið heim og nú niður Tungur og yfir Iðubrúna. það var komið myrkur þegar við nálguðumst Laugarás og þá varð einhver fyrirstaða á veginum sem hægði á flotanum.
Þegar ég kom þar að sá ég að þar var pabbi á jeppanum með opið að aftan og þar í var Álfaskeiðskaffimjólkurbrúsinn kvenfélagsins og hann bauð kaffi og útí það öllum sem vildu. Ég skildi það alveg þó ég fengi ekki neitt að hann var að líta eftir henni dóttur sinni. Búinn að hugsa til hennar allan daginn og fékk svo þessa bráðsnjöllu hugmynd. Mér þótti vænt um að sjá hann og var montinn af að eiga þennan pabba sem var svona mikill höfðingi að splæsa kaffi og brennivíni á allan hópinn.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 15.11.2007 kl. 23:34
Góður pabbi!
Kvitt fyrir mig annars.
Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 23:57
Þú gerir það ekki endasleppt Helga. Skemmtilegur stíll og allt verður ljóslifandi, líka fyrir þá sem eru ekki mjög staðkunnugir.
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 09:09
Alltaf gaman af þessum minningum. Hér voru líka tombólur og oft gaman.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 18.11.2007 kl. 12:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.