13.11.2007 | 21:01
Þá var dansað á Álfaskeiði
Síðasta helgi júlímánaðar var árum saman "helgin þegar skemmtunin var haldin á Álfaskeiði".
En nú eru mörg ár síðan. Ég man að ég var þar ólétt í bláum kjól árið 1965. Sat með öllu hinu fólkinu á þúfnakollunum í brekkunni og hlustaði á séra Sveinbjörn halda ræðuna. Því auðvitað byrjuðu allar Álfaskeiðsskemmtanir á messu. Presturinn og kórinn stóðu á sviðinu sem var tjaldað yfir með hvítu tjaldi. Misjafnlega hvítu þó eftir því sem árin liðu.
Stóra tjaldið ungmennafélagsins, Álfaskeiðstjaldið, var svo utar á flötinni og þar seldi kvenfélagið kaffi. Svo hefðbundið var þetta allt saman að heima í Garði hét ein tertan því merka nafni Álfaskeiðsterta. Ég komst að því fyrir tveimur árum að hjá Íslendingum í Kanada er hún bökuð á stórhátíðum og heitir Vínarterta. Eins mikið ættjarðarlostæti og pönnukökur og kleinur.
Við áttum ekki bíl heima fyrr en ég var komin nærri fermingu og þess vegna var mikið gengið á mínu heimili. Ég man eftir að við fórum gangandi fram fjall á Álfaskeið. Strákarnir auðvitað bornir meira og minna, þeir voru miklu minni en við Örn. Ég man líka að við fórum þessa sömu leið á Ferguson traktornum hans pabba og þótti lúxus, það fylgdi honum skúffa aftaná sem hægt var að standa í eða sitja. Skemmtilegast var að sitja aftaní henni og draga lappirnar. Traktorinn var svo skilinn eftir fyrir neðan brekkuna hjá hestagirðingunni.
Mamma fór að syngja í kórnum eða bera fram kaffið í tjaldinu, pabbi leit eftir strákunum í brekkunni og reykti Camel. Það þurfti ekkert að líta eftir okkur Erni, við flæktumst þarna um flöt og brekkur eins og aðrir stálpaðir krakkar. Það var ekki hægt að týnast á Álfaskeiði.
Ég fór reyndar oftast ríðandi á Álfaskeið. Fram fjall með öðru fólki, bæði krökkum og fullorðnum. Hrossin voru svo geymd í girðingunni vestan við Skinnhúfuklettinn, en stundum gripið í eitt og eitt til að fara sýningarferð um flötina.
Fólkið úr nærsveitunum kom margt ríðandi, Reykjamenn af Skeiðunum fjölmennir á góðum hestum. Það var alltaf svo margt fólk á Reykjum. Eystrihreppsmenn komu líka, en færri úr Tungunum. Áður en Iðubrúin var byggð var það auðvitað eðlilegt, ekki verið að ferðast á bát með fullt af fólki til þess eins að skemmta sér dagstund, og fæstir áttu bíla til að keyra alla leið upp á Brúarhlöð. Það hefði verið nærri dagleið.
Það var selt inn á þessa skemmtun og dagskráin var vönduð. Fyrst var alltaf messan og svo hélt einhver ræðu. Flúðakórinn söng í mínu minni, en áður var til karlakór Hrunamanna,(mynd) sem örugglega hefur sungið þarna. Svo var alltaf keypt skemmtiatriði úr Reykjavík. Söngvari eða kona með undirleikara, Baldur og Konni og fleira í þeim dúr.
Ég meira að segja man árið sem Ómar Ragnarsson skemmti( sem var nú víst oftar en einu sinni) og það var svo mikið rok að nærri lá að sviðið fyki burt með öllu saman. Þá hékk Ómar í þverslánni og taldi sig þar með halda sviðinu á jörðinn, en undirleikarinn Haukur spilaði sallarólegur undir. Allir gestirnir sátu í brekkunni á móti sviðinu, auðvitað í sparifötunum eins og sjálfsagt var.
Mín fyrsta reynsla við pylsusölu var á Álfaskeiði. Ungmennafélagið ákvað að reyna þessa merku nýung og reisti lítið tjald fram með brekkunni og þar voru hitaðar pylsur og seldar í brauði með tómatsósu. Umdeild samkeppni við kvenfélagskaffið.
Brekkan fyrir innan flötina var á þessum árum skógræktarreitur ungmennafélagsins. Árlega var farið þangað á vorkvöldi til að planta trjám og á þessum hátíðar sunnudegi fóru margir að gá hvort plönturnar þeirra hefðu lifað eða dáið. Flestar lifðu þær, því skylirði þarna voru með ágætum og nú eru mörg ár síðan farið var að sækja jólatrén á Álfaskeið. Jólatrén sem kvenfélagið notar á barnaskemmtuninni í félagsheimilinu.
Þegar leið að mjöltum fór fólkið að tínast heim og þá fórum við krakkarnir líka. En fullorðna fólkið kom aftur um kvöldið og þá var dansað í tjaldinu. það var meira að segja svo merkilegt að þarna á mjaltatímanum kom hljómsveitin oft heim að Garði og pabbi og mamma fóru svo með þeim. Pabbi var nefnilega úr Reykjavík og þekkti þessa stráka, hafði kannski verið með einhverjum þeirra í KFUM. Einn hét Skafti Ólafsson og þeir voru á drossíu!
Svo varð ég auðvitað á endanum stór , og það kom að því að ég fékk að fara á ballið í tjaldinu. Og það var dansað á Álfaskeiði langt fram á nótt. Samt var mánudagur á morgun!
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Auðvitað er myndin af hinum eldri Karlakór Hreppamanna, enda þekki ég þarna karla úr báðum sveitum.
Helga R. Einarsdóttir, 13.11.2007 kl. 21:47
Vá, þetta hefur verið skemmtileg skemmtun, hehe. Allt svo gaman í "gamla daga" !
Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 21:51
Sæl Helga, rak augun í fyrirsögnina. Ég ólst upp í Hrunamannahreppnum til ca 20 ára aldurs, á bænum Þverspyrnu. Man að ég fór einu sinni á svona álfaskeiðsskemmtun, líklega í kring um 1970 en síðan lagðist þetta af. Gaman að lesa pistlana þína um hreppafólkið. Man eftir flestum.
Þorsteinn Sverrisson, 13.11.2007 kl. 21:52
Takk fyrir síðast Ninna og vertu nú dugleg að læra.
Og Þorsteinn, ég veit vel hver þú ert og myndi líklega þekkja þig í sjón. Gaman að vita af þér í heimsókn og vertu velkominn aftur hvenær sem er. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 13.11.2007 kl. 22:35
kvitt
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 13.11.2007 kl. 23:31
Álfaskeiðsskemmtanir líða ekki úr minni frekar en réttardagur og skemmtun 17. júní á Flúðum. Þetta þrennt stóð upp úr hjá ungu Hreppafólki í þá daga. Ekki eins sjálfgefið að komast á íþróttamót í Þjórsártúni eða kappreiðarnar á Sandlækjarholti. Álfaskeiðsböllin voru þó liðin undir lok áður en ég hafði möguleika. Þau voru komin í hús í Félagsheimilinu fyrst þegar ég fór. Man ekki hvort ég veitti þér fyrst athygli þar eða á 17. júní-balli, en Ómar okkar Ragnarsson sá ég fyrst á Álfaskeiði og gleymi ekki þegar hvirfilvindurinn kom og hann hékk í tjaldslánni. (Sérkennilegt; við Ómar vorum að rifja upp þetta atvik fyrir nokkrum dögum).
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 13:24
Má til með að segja smá sögu af Álfaskeiði. Ég var hjálpa til í Ungmennafélagstjaldinu þar sem ýmislegt góðgæti var til sölu. Að tjaldinu kom gömul kona í peysufötum (ég man hver hún var) og bað mjög ákveðin um eina "Sínalcahól og eina Maltextrakt". Við krakkarnir þurftum ekki meira til. Blessuð gamla konan kunni ekki að nefna þessa drykki réttum nöfnum, við lögðumst í grasið inni í tjaldinu og veltumst um af hlátri yfir "heimsku" þeirrar gömlu. Ég held hún hafi þó ekki séð þetta, en nú hálf skammast ég mín fyrir viðbrögðin.
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 14:20
Gaman að lesa þetta.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 14.11.2007 kl. 16:41
Þú ert góður Snorri - minnið þitt er eins og í dýrinu sem er ólíkast gullfiskunum - ég vildi að ég vissi hvaða dýr það er.
Annars langar mig að senda þér samúðarkveðju vegna hans frænda þíns. Það voru fallegar kveðjur til hans í Mogganum - eins og hann átti líka margfalt skilið. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 14.11.2007 kl. 18:52
Gunný - ef þú ert að lesa hér - "hresk@mi.is" - endilega sendu mér orð. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 14.11.2007 kl. 18:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.