Á tónleikum Andrea Bocelli

Ég fór á tónleika í gær, elskuleg tengdadóttir bauð okkur hjónum að hlusta á snillinginn  Andrea Bocelli. Sjálf ætlaði hún að vera heima og halda hrekkjavökupartí.

Það vildi svo heppilega til að dóttirin og þessi eini tengdasonur sem við eigum (og verða vonandi ekki fleiri, þessi er góður) höfðu líka pantað miða og buðu okkur far.

Hann var reyndar að vinna í Reykjavík, en við fundum hann á leiðinni, í húsi við Elliðavatn.  Notalegu og fallegu húsi, sem nú er eins og demantur í eyðimörk innanum tugi steypukumbalda með forljótu kassalagi sem þekja allar hlíðar þarna sunnan við vatnið.

Jæja hann hafði fataskipti í snarheitum og svo héldum við áfram.                              En hann var svangur, fékk engan kvöldmat þarna í hlíðinni, enginn heima til að gefa honum neitt. Stopp á Skalla hjá Nonna, í eina pylsu með öllu. Nonni er gamall skólabróðir minn sem ég haf alltaf vitað af og hann af mér.   Við hjónin komum við hjá honum ef við erum svöng á heimleið úr Babýlon.   Tengdasonurinn ók og ég sat í framsætinu, feðginin afturí á bak við skyggðar rúður.

Ég veit ekki hvort Nonni var sáttur þegar ég heilsaði honum með Hæi! og sagði að nú væri ég búin að yngja upp, hvort honum litist ekki bara vel á minn nýja? Hann varð alla vega frekar svarafár, en ég vona nú svona undir niðri að hann hafi vitað að drengurinn  er maðurinn hennar dóttur minnar. Hann Nonni fer víst nokkuð nærri um það hver er hver og hver á hvern, eftir áratuga þjónustu við vegfarendur austur og austan.

Svo héldum við áfram. Óslitin lest á vesturlandsvegi og stefndi í Mosfellssveit. Við fórum hina leiðina. Um Gullinbrú og svo bakdyramegin um Grafarholtið og komum öllum að óvörum uppað vegg hallarinnar á meðan lestin var en óslitin frá Elliðaánum að áfangastað. Á hraða snigilsins  færðust þeir þó allir að sama marki. Egilshöllinni. 

Tengdó skellti sér útfyrir veg, auðvitað á fjallajeppa, rétt við norðvesturhorn hallarinnar. En það var ekki allt fengið með því. Karlarnir þarna hleypa víst bara inn í húsið um einar dyr, svo við urðum að slást í hóp allra hinna sem voru á sömu leið, og ganga hringinn í kringum þetta ferlíki til að komast inn. Yfir tún og skurði pípulagnir og ruðninga, holur og polla.  Eins og flóttamenn í loftárás streymdi fólkið að, gangandi úr öllum áttum og sameinaðist svo í þéttri fylkingu þegar nálgaðist innganginn.  Þá var komið á rauðan dregil, að vísu úr einhverju nauðaómerkilegu efni, en hann var rauður.

Inni í anddyrinu var allt troðið. Fólk, fólk, fólk, alveg ótrúlega mikið af fólki stóð þar uppá endann og talaði. Það var eins og það hefði ekki séð neinn í langan tíma, það talaði svo mikið.  Og það var flest að drekka eitthvað úr glærum plastglösum, líklega hvítvín, það var svoleiðis lykt. Ekki fórum við nú að grennslast eftir hvar þetta vín væri að hafa, kannski var það einhverstaðar á bakvið fólkið, raðað á bakka í boði hússins.   En við létum það eiga sig.

Sumt fólkið var rosalega flott, konurnar í dragsíðum pelsum svo flottum að manni datt í hug tófa í sólskini á sumardegi. Aðrir voru styttri og settir saman úr einhverjum skinnum sem engin dýr á Íslandi eiga. Þeir voru heldur ekki allir svo flottir og sumt fólkið var bara hreint ekkert flott. Ég hefði sem best getað farið í kanínupelsinum mínum brúna sem ég keypti á markaðnum í London árið sem Kalli og Díana giftu sig. Eitthvað hefði kannski slitnað af honum í þrengslunum, en það hafði enginn tekið eftir því, það voru allir að horfa á fína fólkið. Svo var nú bara hleypt inní salinn, enginn smá salur maður.  Ég veit ekki hvað margir fótboltavellir, en þeir eru nokkrir.

Okkur gekk vel að finna sætin, frekar framarlega, á B svæði. Og bara nokkuð framarlega á því. Bara örfáum sætaröðum fyrir aftan A svæðið, þar sem fínustu pelsarnir fundu sín sæti.      Og ekki bara pelsarnir, þangað komu líka allnokkrir af frægustu mönnunum á Ísalnd í dag. Ekki samt fyrir einhver listræn afrek- heldur bara - - æ - svona menn sem alltaf er verið að tala um í fréttunum.

Sá sem mér fannst merkilegastur af öllum mönnunum sem ég kannaðist við þarna var samt ekki í þessum hóp,hann er bara tónlistarmaður og heitir Gunnar Þórðarson, kannski var hann á B svæði eins og ég, eða bara C.   Löngu áður en tónleikarnir byrjuðu var ég búin að sjá út að þarna var ALLT fólkið. Þetta var samkoma sem algert "möst" var að láta sjá sig á. Gat verið að það tengdist því eitthað að miðaverðið var svívirðilega hátt.

Það átti að byrja klukkan átta, en hún var að verða 8.30 þegar hljómsveitin kom sér fyrir og ljósin voru slökkt. Kannski voru enn einhverjir ennþá úti í myrkrinu að brölta yfir skurðsruðningana kringum þessa stórkostlegu höll.  Bíla varð að skilja eftir hér og þar í næstu hverfum. 

Tónleikarnir voru svo bara ekkert nema snilldin ein. Ég er ekki fróð í þessum efnum, en veit hvenær mér finnst flott og þarna var það verulega svoleiðis. Sinfóníuhljómsveit Tékklands, og þessir frábæru söngvarar, stóðu vel fyrir sínu.

Svo kom hlé og við stóðum upp til að rétta úr okkur á hliðarlínunni. Krakkarnir voru bara fáum sætaröðum frá okkur og við stóðum þarna saman og litum í kringum okkur. En A - fólkið hljóp allt út!  Þetta varð lagt hlé, nærri klukkutími, og þá voru þeir síðustu á útleið varla komnir út úr salnum. Hvað var fólkið að æða?  Var svona mikið eftir af hvítvíni? Var ljósmyndari frá Séð og Heyrt búinn að auglýsa komu sína í bönkum og baðhúsum? Eða var bara allt þetta fólk í spreng á klósettið. Eins gott að þau væru mörg, hér ræðir víst ekki um að fara út fyrir og pissa undir vegg.

Svo var kallað til sæta,  og byrjað aftur, en langa lengi var A- fólkið að tínast í salinn. Glamrandi inn eftir salnum í hælaskóm á legóplastgólfinu.  Það lærist greinilega hvorki í bönkunum eða hjá feldskeranum hvernig á að haga sér á tónleikum.

Seinni hálfleikur gekk ekki síður en fyrri, og þau fengu frábærar undirtektir. Konur hljóðuðu og féllust í faðma, stunur og andköf fóru með kliði um salinn í upphafi sumra laga og í lokin stóðu öll þessi sex þúsund af  misjafnlega fínu fólki og klappaði söngvarana upp hvað eftir annað. Svona framkallar gæsahúð og tár þó maður hafi ekkert vit á söng og hafi aldrei til Ítalíu komið. Ég er fegin að barnavaggan mín var keypt hjá Blindrafélaginu.

Það eru útgönguleiðir merktar á nokkrum stöðum á langhliðum salarins og þar vorum við búin að koma okkur saman um að fara út. Bíllinn var þá bara fáeina metra í burtu.Ekki ætlaði það svo að ganga andskotalaust. Ásamt mörgum öðrum fórum við þessa leið og þar voru opnar dyr, en jafnframt kvenmaður nr. xxxxL, sem reyndi að varna okkur útgöngu. Nokkrum féllust hendur og sneru frá - en ekki honum tengdasyni mínum. Hann hélt áfram út og við eltum, enda voru þarna fjórar opnar dyr og fullt af fólki komið út fyrir. Við heyrðum það síðast til konunnar að hún kallaði í talstöð og bað um hjálp við að reka fólkið aftur inn. 

Leiðin að bílnum var bara nokkuð greið, enginn skurður eða röraflækja. Svo héldum við af stað heim á leið. Auðvitað útilokað að fara sömu leið og allir hinir.     

Við - sveitamennirnir - þekktum leið. Við bara fórum upp í Mosfellssveit. Þegar við fórum hjá Korpúlfsstöðum sáum við fólk á gangi, fullt af því, að leita að bílunum sínum þar á túnunum í kring.  Við hringtorgið undir Úlfarsfellinu hættum við við að fara Hafravatnsleið og snerum í átt til Rvk. Þegar við komum að Grafarholti var enn ekki farið að bera á bílalestinni sem væntanlega var að þokast af stað frá höllinni.             Við komum við í sjoppunni nýju við Norðlingaholt og fengum okkur hressingu.        Þetta er flott sjoppa.

Þar hittum við ungan mann  - frá okkur - líka á austurleið, og hann sagðist hafa verið að læra töfrabrögð. Hann var rosalega hamingjusamur og hafði greinilega lært eitthvað sem hann hafði lengi dreymt um. Guðbjörg benti á mig og spurði hann hvort hann gæti látið mig hverfa? Hann horfði aðeins á mig og hugsaði sig um, en sagði svo nei.  "En ég get sagað hana í sundur", sagði hann svo ánægður.    En við vorum að fara heim, klukkan orðin margt og við máttum ekki vera að því að lenda í einhverju veseni. Svona ef hann gæti ekki límt saman aftur og svoleiðis. 

Það var tunglskisbirta og reykjarmekkirnir stigu upp af heiðinni. Fýluna lagði í vesturátt, það verður ærið verkefni að pússa silfrið í Þorlákshöfn fyrir jólin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Sigurðsson

og er ég fullur af öfund í þinn garð - hefði gjarnan viljað sjá þessa tónleika

Halldór Sigurðsson, 1.11.2007 kl. 21:45

2 Smámynd: Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu...

Takk fyrir gott gærkveld....

Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 1.11.2007 kl. 22:25

3 Smámynd: Josiha

Kúl að fara á tónleika með Andrea Bocelli. Og ekki amalegt að fá boðsmiða á þá!

P.S. Ég mun að öllum líkindum hringja í þig á morgun, þegar við erum á leiðinni út á flugvöll. Þarf að segja þér svolítið skemmtilegt! Forvitin? Hehehe...

Josiha, 1.11.2007 kl. 22:28

4 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Frábær lýsing.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 1.11.2007 kl. 22:45

5 identicon

Vá, frábær frásögn!

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 23:56

6 identicon

Er ekki búin að lesa allt en Nonni á Skalla er alltaf viðræðugóður þegar naður er svangur á leið heim úr Babílon.

Trúi að gaman hafi verið á þessum tónleikum, ætla að lesa meira, sjáumst!

mýrarljósið (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband