Á skeiðspretti heim í hlað

Nú held ég af stað niður sveitina og fer þá leið sem við fórum gjarnan heim frá því að reka á fjall.  Þegar rekið var á fjall var rekið í einni lotu einn dag og næstu nótt án þess að sofa. Komið var á leiðarenda snemma morguns, misjafnlega þó eftir því hvað langt var farið.  Við vorum á heimleið síðdegis á öðrum degi, enn ekkert farin að sofa.  Svo var komið við á bæjum, ekki bara einum, heldur mörgum.  

Fyrst  er komið að Haukholtum. Þar bjuggu þegar ég man fyrst Ásta og Steini, foreldrar Oddleifs og Lofts. Þarna var líka til heimilis Jón, bróðir Ástu, en hann var yfirleitt í vinnumennsku á öðrum bæjum, til dæmis oft í Hvammi. Hann var einstaklega barngóður og fengum við að njóta þess. Hann var líka leikari af Guðs náð. Hann varð svo húsvörður í Félagsheimilinu á Flúðum  og var þar í mörg ár. 

Ég man að við komum að Haukholtum og drukkum þar kaffi seint um kvöld og einu sinni man ég líka að ég var aldeilis ánægð með mig þegar mér tókst að skeiðleggja Silfurtopp á heimreiðinni þar að bæ. Ekki spillti fyrir að  fjöldi manns stóð á hlaðinu og fylgdist með sprettinum.

Hvítárdalur var litil jörð, með litlum húsum, góðum hjónum og mörgum börnum. Dagbjartur og Margrét voru indæl og börnin þeirra líka. Dísa Jón, Gréta, Sigga og Bjössi voru á svipuðum aldri og við systkinin og pabbi og Dagbjartur voru vel kunnugir. Þeir höfðu verið saman í Hreppakórnum, sem þá var karlakór og svo grunar mig núna að þeir hafi verið sammála í pólitík.  Ég kom þó aldrei að Hvítárdal á þessum árum.

Í Skipholti var tvíbýli. Á öðrum bænum bjó Stefán Guðmundsson, en á hinum Jón og Sigrún. Ég er viss um að ég kom í bæinn hjá Stefáni þegar ég var lítil - líklega mjög lítil. Ég man bara að ég var þar inni í gömlu húsi og að borðdúkurinn var eitthvað eftirtektarverður - einhver blúnda. Kona Stefáns hafði verið Guðrún systir Helga í Hvammi, en hún var látin löngu áður en ég fæddist.

Á hinn bæinn kom ég ekki fyrr en ég kom um hánótt í kaffi hjá Rúnu og Guðmundi Kristmundssyni, eftir að þau byggðu nýtt hús. Auðvitað á leið heim úr rekstri. 

Sömuleiðis kom ég margoft að Kotlaugum sömu erinda. Þar bjuggu Vala - Jónsdóttir frá Skipholti og Siggi, sonur Kristmundar á Kaldbak. Synir þeirra Kristmundur og Sigurjón voru smástrákar á þessum tíma. Þetta var, og er alveg einstaklega elskuleg fjölskylda, ekkert nema þægilegheitin og gestrisnin alla tíð. Þar fórum við helst ekki hjá garði án þess að líta inn - hvenær sem var sólarhringsins. Á öllum þessum uppsveitabæjum var ekkert of gott fyrir rekstrarfólkið og sjálfsagt alla aðra sem komu þar við.

Jón bjó í Skollagróf, sem við oftast létum nægja að kalla Gróf. Hann var þar einn lengi framanf og ég þekkti hann bara í sjón. hann var þekktur fyrir hestamennsku, kveðskap og pólitískan áhuga. Hann átti á tímabili eitt frægasta hestakyn sunnanlands. Jón var kunnugur pabba fyrir pólitíkina - grunar mig.

Svo fékk hann sér ráðskonu og með henni tvíbura sem hún átti og þau eignuðust svo saman þrjú börn. Ég hef aldrei komið að Gróf. Bærinn stendur dálítið úr leið eigi maður þangað ekki erindi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af þessum bæjum sem þú telur upp hér er einn sem hefur verið mér mjög svo ofarlega í huga síðustu árin. Það er Hvítárdalur. Magga gamla í Hvítárdal var fenginn til að "passa " mig og Örn bróðir einhverntíman þegar að ég var líklega um 6-8 ára á meðan að mamma og pabbi fóru til einhvers útlandsins. Eftir það fylgdist Magga vel með mér og jafnvel eftir að hún dó hefur hún fylgst með mér þar sem að hún hefur komið í þau skipti þegar að ég hef farið til miðlis mér til skemmtunar. Hún meir að segja sagði til um kynni okkar Vilbergs þegar ég fór til miðils fyrir 2 árum síðan og lýsti honum alveg ásamt því að hún tiltók hans nám og lýsti íbúðinni sem við svo keyptum svo saman og þetta var áður en við kynntumst. Mér verður mjög oft hugsað til hennar og man eftir plast dúk, djúsglasi og hundakexi í eldhúsinu í Hvítárdal hjá Möggu "gömlu"

Erla Björg (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 21:46

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Hún var einstaklega góð kona. Og ekki slæmt að hafa hana nærri sér í nútíð og framtíð.  Á að ferðast um helgina?

Helga R. Einarsdóttir, 26.10.2007 kl. 22:09

3 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Mikið þykir mér gaman að lesa þetta. Sennilega skilja engir betur sveitastelpur en sveitastelpur. Skilur yfirhöfuð einhver sveitastelpur?

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 27.10.2007 kl. 03:43

4 identicon

Er verið að impra á því að við kíkjum eins og ég var búin að skrifa hér fyrir einhverju síðan.. Jú við stefum á Selfoss um helgina. Ég hringi áður í ykkur

Erla Björg, Vilberg og Emil (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 10:10

5 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Rétt hjá þér frænka

Helga R. Einarsdóttir, 27.10.2007 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband