26.10.2007 | 09:04
Kaffi og koníak
Á leiðinni frá Laugum að Fossi, fyrir innan "Gildurhagann", sem er falleg reiðleið, var bærinn Jata. Þar bjó maður sem hét Guðjón Jónsson einyrkjabúskap. Hann var bróðir Magnúsar í Bryðjuholti og Jóns í Gróf. Guðjón var held ég aðallega hrossabóndi og braskari. Hann fór um sveitir með slatta af hrossum sem hann seldi, til þess svo að kaupa önnur. Af honum var hann Skjóni minn keyptur þegar ég fékk hann, en Skjóni var upphaflega frá Skálholti.
Að Jötu kom ég ekki fyrr en Guðjón var farinn þaðan og allt komið í eyði. Ég man að okkur fannst skrýtið að það kom vatn úr krana sem við skrúfuðum frá þarna við auðan bæinn. það var eins og lífsmark þar sem ekkert var annað kvikt. Við fórum þessa leið oft þegar við komum frá að fylgja rekstri. Þá fóru krakkar kannski með upp að Fossi, eða þegar best lét áleiðis inn á Tungufellsdal. Seinna keypti einhver sértrúarsöfnuður jörðina, Jötusystkin, kölluðu þau sig, og byggðu þar nokkur sumarhús.
Á Fossi bjuggu systkinin Rúna og Bjarni. Þar kom ég lengi vel á hverju vori og þáði kaffi, eða mjólk og með því. Það var þegar við rákum á fjall á vorin og áðum þar við túngarðinn. Þá var alltaf sendur krakki að sækja okkur og við fórum heim í tvennu lagi. Einhver varð að líta eftir rekstrinum. Á "Skerslunum", sem eru í hæðunum vestan við Foss, fórum við oft í berjamó. Þá fékk pabbi hvammséppann lánaðan, tróð þar inn konu, fjórum krökkum og nokkrum berjafötum og svo tíndu þau heilan dag. Við vorum líklega mest í því að tína uppí okkur.
Gvendur í Hlíð var þar búandi einhver ár eftir að ég fór að hafa samfélagsvitund. Eitthvað minnir mig að verið væri að hjálpa uppá búskapinn hjá honum, sem var þó víst ekki stór í sniðum. Guðmundur var lærður úrsmiður og líklega ekki mikið fyrir búskapinn frakar en bróðir hans Bjarni í Hörgsholti. Ég kom oft við í Hlíð eftir að þar var komið í eyði. Þarna var torfbær með timburstöfnum og með árunum féll það allt saman og samlagaðist fósturjörðinni.
Fjallrekstrum var alltaf áð þar sem heita "Hlíðartorfur". Það er fyrir neðan og norðan bæinn í Hlíð, niðri við ármót Fossár og Dalsár. Þar týndi ég einu sinni svipunni minni silfurbúnu, sem ég erfði eftir hann afa minn Hreiðar. Fólk frá næsta rekstri fann hana en botnaði ekki í áletuninni H.G. Svo var hún geymd í Ásatúni næsta ár, en þá barst klaufaskapurinn minn einhversstaðar í tal og ég fékk hana aftur.
Í Tungufelli fengum við gjarnan kaffi í leiðinn heim frá rekstri og karlarnir sjálfsagt útí það. Þar bjuggu þá Jónína og Jón, Árna og Óla man ég líka eftir, og svo var þar Einar fáum árum eldri en ég. Þarna var ég eigninlega ekkert kunnug og kom þar ekki fyrir utan þetta. En veitingarnar voru þá rausnarlegar og mikið lagt uppúr því að við notuðum þær vel. Þegar ég man best eftir vorum við í gamla bænum, sem var með burstabæjarlagi, við langt voxdúklagt borð í lágreistri stofu, með glugga á gafli.
Á Jaðri bjuggu, fyrst þegar ég man, Guðni og Kristín og synir þeirra Davíð og Bergur. Þar ólust líka upp tvær skólasystur mínar, Lilja og Björg, dótturdætur gömlu hjónanna. Svo tók Bergur við búi ásamt konunni sinni Jónínu Kristmundsdóttur frá Kaldbak. Hún er ein af þeim sveitungum sem ég man betur en aðra, þó ég væri þarna ekki nákunnug. Hún var sérstaklega hlýleg kona, með falleg brún augu. Hún dó á besta aldri úr krabbameini. Á Jaðri komum við líka stundum við á leið heim úr rekstri, og þar var mér í fyrsta sinn boðið kaffi og koníak eins og fullorðin væri. Alltaf mun ég meta það við hann Berg. Eigi varð undan þessu vikist, og mikið rosalega hitnaði mér af því.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Enn og aftur Helga. Bestu þakkir fyrir skemmtilegt blogg og hlý orð um mitt fólk. Svona upprifjun um staðhætti og fólkið í sveitinni okkar færir mig svo sannarlega aftur í tímann og notarlegt að láta hugan reika frá daglega amstrinu aftur til æskuáranna, til þess tíma þegar hver einstaklingur skipti máli og bragur á hverjum bæ var einstakur.
Svona til gamans. Í minni fjölskyldu er haldið til haga mannlýsingu um Gvend í Hlíð. Ég mun hafa sagt um karlinn að hann væri skrítinn, með stelpuhár, í ljótum fötum og með kaðal utan um sig. Sjálfur man ég ekki eftir að hafa sagt þetta um hann, en man því betur eftir heimsóknum til hans að Hlíð þar sem við krakkarnir á Jaðri fengum góðar móttökur. Gvendur var ekki mannblendinn en barngóður. Hann átti alltaf til nokkrar ávaxtadósir vafðar í strigadruslu og þegar við komum var opnuð ein slík.
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 26.10.2007 kl. 11:05
Takk Snorri - frábært að fá svona innskot. Nú er ég auðvitað stödd á þeim slóðum sem þú þekkir miklu betur en ég. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 26.10.2007 kl. 11:34
Maður fær sting við tilhugsunina um hve margir bæir eru farnir í eyði svo eftir standa tóftir einar. Maður fyllist alltaf einhverjum fortíðartrega þegar staldrað er við á slíkum stað og hlustar ósjálfrátt eftir því hvort ekki heyrist einhver ómur af því heimlislífi sem þar var einu sinni lifað. Kom í Óskot núna í sumar í fyrsta sinn eftir að þar urðu aðeins tóftir eftir. Annar tveggja bæja sem hafa gengið í jörð í minni sveit í mínu minni. Fyllist enn angurværð þegar ég minnist þeirrar heimsóknar. Á myndinni – ef mér lukkast að læsa hana inn í athugasemd, sér heim að tóftum Óskost. Kræklan fyrir miðri mynd er dæmigerð fyrir niðurlægingu kotsins.
Kv. í bæinn
Sigurður Hreiðar, 26.10.2007 kl. 14:45
OMG!!OMG!!
þetta var þó ekki svipan sem Grindvíkingarnir "fengu lánaða" í partýinu hjá mér
...vissi ekki að hún hefði verið svona stórmerkileg
.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 26.10.2007 kl. 15:18
Líklega festast myndir ekki í ath.semdum. En þú bara skrifar um Ósakot á þína síðu og birtir myndina þar.
Helga R. Einarsdóttir, 26.10.2007 kl. 15:19
Æ - Óskot
Helga R. Einarsdóttir, 26.10.2007 kl. 15:20
Hvaða Grindvíkingar? Sögu takk
Helga R. Einarsdóttir, 26.10.2007 kl. 15:21
Æ þú manst það kannski ekki, en einn sunnudaginn þegar ég var "lítil" komu þrír Grindvíkingar sem höfðu droppað við kvöldinu áður í leit að samkvæmi. Ekki fengu þeir inngöngu, en gripu svipuna góðu með sér. Þeir voru að skila svipunni sem þeir höfðu tekið ófrjálsri hendi af forstofuveggnum. Þú varðst eitthvað svo skrítin og sár...skil núna afhverju
.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 26.10.2007 kl. 15:33
Þá er ekki von ég muni eftir þessu - ég hef alltaf kappkostað að gleyma því leiðinlega
Helga R. Einarsdóttir, 26.10.2007 kl. 16:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.