Að hitta sveitungana á hrútasýningu

Á Berghyl bjuggu Jóna og Eiríkur. Hann var Jónsson og frá Þverspyrnu.  Ég var ekki kunnug þarna og börnin voru öll yngri en ég, Rúna, Svanlaug, Áslaug og Jón.     Þar var eitt snyrtilegasta býli sveitarinnar, ég man eftir að heyra talað um það. Bæjarstæðið er einstaklega fallegt og svo voru húsbændur til fyrirmyndar í snyrtilegri umgengni.

Ég held að ég hafi bara einu sinni komið að Berghyl og þá á hrútasýningu í fjárhúsinu. Slíkar samkomur voru ekki verri en aðrar til að hitta sveitungana. Ekki átti ég þar þó mikið erindi við menn, svona tíu til tólf ára gömul, en fékk að fara þetta með Erni bróður mínum og félaga hans, á Ferguson traktornum hans pabba. Það var "skúffa" aftaná honum sem hægt var að sitja eða standa í. 

Túnsbergshjónin hétu Sigríður og Þorgeir. Eiríkur sonur þeirra var heima og Sigurgeir líka, en  önnur systkini voru að mestu farin að heiman. Þó man ég vel eftir að Sigga ætti þar heima. Að Túnsbergi komum við oft og þar fengum við lánaða hesta þegar allt þraut í Hvammi. Það var ekki lengi verið að rölta þangað inneftir og stundum var komið við uppí ásnum, þar sem gimsteinarnir voru í grjótinu. Það voru nú víst bara örlitlar silfurbergsagnir, en slíkt var ekki að finna annarsstaðar í okkar umhverfi.                       Í Túnsbergslandi, sunnan við bæin, voru réttirnar þegar ég man fyrst og þar datt ég af baki í fyrsta sinn svo marktækt væri. Ég átti eftir að detta oft af baki.

Svo voru byggðar nýjar réttir í Hrunavellinum og þær gömlu hafa jafnast við jörðu fyrir löngu.

Í Reykjadal bjuggu Þóra og Hörður og líka hann Guðmundur, bróðir Harðar. Þar voru líka til heimilis gömlu hjónin, Pálína og Einar, en ég man eiginlega bara eftir Pálínu.  Hún var fínleg og falleg gömul kona.  Á þeim tíma sem við komum oftst að Reykjadal var Úlfar eini krakkinn þar. Við fórum fyrst þangað með mömmu, sem gekk þá og bar okkur eða dró á eftir sér. En svo fórum við sjálf, ríðandi á sunnudögum í heimsókn.

Á meðan við stönsuðum vorum við oft í kappreiðum, frá bragganum sem stóð úti við veg, og heim að bæ.  Þetta var bærilega löng og bein braut, en við vorum stundum skömmuð fyrir að leyfa hestunum ekki að hvíla sig. Þetta var á árum Jarps og Jarpar - kannski með folald í eftirdragi. Nú vildi ég mikið til vinna að sjá þessar kappreiðar.

Að Þórarinsstöðum kom ég aldrei og hef ekki komið þar enn. Ögmundur var bóndi þar og Jóa systir hans húsmóðir. Hjá þeim ólst upp bróðurdóttir(held ég megi segja) Steinunn og hún var með mér í skólanum. Það var nú allt sem ég hafði af því heimili að segja. 

Ekki minnist ég þess heldur að hafa komið að Laugum. Þar bjuggu bræðurnir Einar og Maggi og síðar líka Guðrún, kona Einars. Þar átti líka heima Marel Jónsson, en hann varð ráðsmaður þarna eftir að bræðurnir misstu föður sinn. Eyþór, sem bjó á Kaldbak og Ingimundur voru líka bræður þeirra.  Laugabræður voru góðir söngmenn og vinsælir öðlingar. Ég þekkti þá af að sitja á kirkjubekknum í Hruna og horfa og hlusta á kirkjukórinn.

Á Reykjabóli bjuggu Magnús Einarsson frá Reykjadal og konan hans hét Sigrún. Hún var systir Marels á Laugum og þau voru frá Tungufelli. Sigrún og Magnús áttu tvíbura, Hlöðver og Sverri. Þeir voru tveimur árum eldri en ég og ég vissi hverjir þeir voru svona frá skólanum og af samkomum, en þekkti þarna annars ekkert.  Það var held ég búið þarna einhverjum garðyrkjubúskap, en alltaf frekar smátt. Þegar strákarnir stálpuðust hurfu þau öll úr sveitinni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband