24.10.2007 | 20:51
Skrímslið í Austurkróknum
Nú liggur leiðin upp í Austurkrók. Þá var farið um hlaðið í Hruna og svo lá vegurinn til norðurs inn á milli ásanna.
Fyrst var komið að Þverspyrnu. Þar bjuggu Guðlaug og Jón og börnin sem enn voru heima við hétu Ásta, Gunna, Rúna, Sigurjón og Valgeir. Sennilega Stefán líka og Sigga með annan fótinn. Annars voru þessar systur í vinnumennsku víða í sveitinni og ég man eftir þeim bæði í Hvammi og Gröf. Foreldrar mínir höfðu, kannski þess vegna, kynnst þessari fjölskyldu og við komum stundum að Þverspyrnu. Þar voru góðar viðtökur. Við fórum líka gjarnan í berjamó í Austurkrókinn.
Á milli Þverspyrnu og Hörgsholts þurfti að fara af baki til að opna hlið (ég fór þetta oftast ríðandi) og frá þessu hliði sást nokkuð stórt vatn framar í lægðinni. Í þessu vatni sáum við krakkarnir oftar en einu sinni skrímsli. Aldrei þorðum við að nálgast vatnið til að kanna þetta betur, en við fórum þarna varla um án þess að sjá þetta ferlíki. Yfirleitt sáum við á því tvö höfuð og svo hlykkjaðist búkurinn þar fyrir aftan og mátti ekki miklu muna að það næði enda á milli í vatninu. Einhverjum árum seinna sáum við svo að þetta var álftapar sem synti eftir vatninu með röstina á eftir sér. Þau hafa líklega haft sumardvöl á þessu vatni allan sinn búskap.
Þegar ég kom fyrst að Hörgsholti var Bjarni þar líklega orðinn einn. Konan hans - Jóhanna - hafði verið sykursjúk og lést í mínu minni, en ég man ekki eftir að hafa séð hana. Það sem ég man af fyrstu komu minni á þennan bæ var að Eiríkur á Grafarbakka skoðaði myndir á vegg og spurði svo Bjarna "hvers vegna var hún Jóhanna svona feit"? Ég hef víst skammast mín voðalega fyrir þessa forvitni og því man ég þetta alltaf.
Ekki man ég hvort við komum í þetta sinn gangandi eða ríðandi, en við lögðum á þessum árum sveitina að fótum okkar eða "hófum", í bókstaflegri merkingu. Fórum oft svona sex eða átta saman, ótrúlegustu vegalengdir og víluðum ekki fyrir okkur að koma á bæi og þiggja veitingar, þó við þekktum þar ekki nokkurn mann nema af afspurn. Jóhanna og Bjarni áttu einn son og man ég vel eftir honum. Bjarni var skáld og fræðimaður, miklu fremur en bóndi. Hann gaf út Hreppamanninn sem var lítið innansveitartímarit, með kveðskap eftir hann og svo ýmsu öðru efni.
Á Kaldbak bjuggu Eyþór og Guðborg þegar ég fyrst man að hafa komið þar, en ég man líka eftir að hafa heyrt um Kristmund á Kaldbak og öll hans börn voru alltaf kennd við bæinn. Kannski kom ég til þeirra einhverntíman fyrir mitt minni?
Aðeins man ég eftir að hafa komið þarna inn, en lítið þó. En örugglega fór ég þar oftar um, því ég man eftir að hafa komið að Kluftum á meðan Gestur og Lína bjuggu þar með börni þrjú, Jónínu, Garðar og Billa. Gestur var bróðir Kristmundar á Kaldbak.
Ég kom líka að Kluftum eftir að þau voru farin og allt komið í eyði. Það var vinsæll útreiðartúr á sunnudögum að fara upp Austurkrók, að Kluftum og síðan yfir mýrar og fen vestur að Litlu Laxá. Síðan niður með henni austan við Berghylsfjall, framhjá eyðibýlinu Hildarseli, sem var þá reyndar löngu horfið, nema hvað mótaði fyrir svolitlum tóftum. Þarna var svo komið niður að Berghyl. Ég fór þetta síðast með börnin mín sem ég hafði gefið að borða í Flúðaskóla veturinn 1963-4. Ég lofaði þeim svona ferð einhvertíman um veturinn, kannski yfir grjónagrautnum á laugardegi, og mér tókst að standa við það.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (27.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.