Aldrei dansaði ég i Hruna

Eftir að ég komst á þann aldur að hægt var að treysta mér til að sitja kyrr heila guðsþjónustu, var ekki messað svo í Hruna að ég væri þar ekki viðstödd.  Á þriðja bekk að framan, vinstra megin, sat ég ásamt bræðrum mínum eftir því sem þeir urðu "messufærir".  Prestsfrúin sat fyrir framan okkur með börnin sín og svo organistinn Helgi fremst við orgelið. 

Mamma var í kórnum og valdi okkur sjálfsagt sæti þar sem hún átti auðvelt með að ná augnsambandi færi eitthvað úrskeiðis.  Ég gaf henni ekki mikið færi á því sambandi, kunni utanað allar myndirnar á veggjunum og stjörnurnar í loftinu. Gylltar stjörnur í bláum ferhyrningum, taldi þær í hverri messu og finnst nú skömm  að muna ekki hvað þær eru margar. Gæti mig rámað í níu þversum og svo eitthvað fleiri langsum? Innan við tvöhundruð held ég þær séu. 

Presturinn í Hruna  hét Sveinbjörn Sveinbjörnsson og var ættaður undan fjöllunum. Hann bjó einn til að byrja með en kvæntist svo henni Ölmu Ásbjarnardóttur. Ekki man ég eftir öðru íbúðarhúsi í Hruna en því sem nú stendur, en það var byggt 1950.

Alma var ekkja og átti fyrir tvö börn, Magga og Dísu, fyrri maðurinn hennar hafði verið flugmaður og farist í flugslysi. Svo eignuðust þau Sveinbjörn tvo syni, Bjössa og Palla.

Í Hruna var gamall maður(kannski var hann ekkert gamall) sem hét Guðjón, hann annaðist búskapinn með prestinum, sem var töluvert gefinn fyrir skepnur.           Guðjón átti bleikan hest sem hét þá eðlilega Bleikur.  Þessi hestur var áreiðanlega það dýrmætasta sem Guðjón átti og ég man hvað ég fann mikið til mín þegar ég fékk hann einhverntíman lánaðan, það fengu ekki allir, eða datt kannski ekki í hug að spyrja?   Einu sinni rákum við á fjall með Guðjóni, þá var farið inn með Hrunaásunum og svo Berghylsfjalli austanverðu. Allt aðra leið en var venjulega farin. 

Fyrir ofan bæinn og kirkjuna er klettur sem heitir "Hrunakarlinn", hann er  eins og stórskorinn haus út úr klettunum þar uppi. Þarna uppi á brúinni gat maður séð, með góðum vilja, móta fyrir útlínum gömlu kirkjunnar sem einu sinni var þar uppi. Kirkjunnar sem sökk ofan í jörðina þegar dansað var í henni á nýársnótt. Ég hefði gaman af að vita hvað eiginlega gerðist þar, svona sögusögn verður ekki til af engu. 

Þar innaf eru svo Hrunaásarnir og Hrunavöllurinn breiðir úr sér fyrir neðan, allt vestur að Litlu Laxá. Þar vestast voru réttirnar byggðar og standa enn, þó hrörlegar séu.

Einu sinni vorum við fjórir krakkar send að leita að hestunum í Hvammi. Þetta var á átta til tíu ára bilinu.  Við fórum af stað eftir hádegi og leituðum fyrst um allt heimavið, í ásnum og inní hvömmum og svo um allt Túnsbergsland. Engin hross.                       Við vorum oft send svona ýmislegt, við gerðum ekki illt af okkur á meðan. 

                 Til að gera langa sögu stutta vorum við komin rétt fyrir myrkur efst uppá hrunaása og horfðum niður að Þverspyrnu þar sem heimafólk var að taka saman hey. Svo fór að dimma og við sáum ekkert meira í kringum okkur og vissum reyndar ekkert hvaða bær þetta hafði verið. 

Presturinn og Helgi í Hvammi fundu okkur í svartamyrkri þarna uppi í ásunum. Þá var búið að leita mikið og líklega fengu þeir ábendingu frá heyskaparfólkinu um undarlega krakka á skrýtnum stað. Þeir kölluðu okkur til sín, en ekki vissum við nú að við værum týnd.   Þá fengum við kakó og mjólkurkex í eldhúsinu hjá Ölmu áður en Helgi fór svo með okkur heim í jeppanum.

Þegar við fermingarsystkinin gengum til spurninga gerðum við það í bókstaflegum skilningi. Við gengum upp að Hruna. Það var gaman í spurningum hjá séra Sveinbirni. Skemmtilegast þó og eftirminnilegast daginn sem músin hljóp inn í orgelið og við vorum allan tímann að reyna að ná henni.  Það tókst á endanum og við fórum inn í eldhús til Ölmu og fengum eitthvað gott að borða áður en við fórum aftur heim.

Hrunalaug er dálítinn spöl fram með ásunum austan við bæinn. Lítil laug sem áður var notuð til sauðfjárbaða, en á seinni árum eingöngu fyrir fólk. Laugin er af sumum talin heilsulind og ég man eftir að hafa einu sinni heyrt um dreng sem þar var baðaður fárveikur og batnaði af. Kannski rétt, alla vega20060508002810_7 engin ástæða ti að rengja það.

Ég hef oft farið þarna í bað og bara haft gott af. Unglingar í sveitinni hafa löngum komið þarna við og dýft sér í, helst á björtum sumarnóttum. Alveg einstaklega hressandi.

Ein lítil mynd frá Hrunalaug.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband