Rjómabúið við Áslæk

Nú liggur leiðin yfir Kvíadalinn og upp á Mela. Þar var rófugarður og grænmetisgeymsla í jarðhúsi, þetta var samyrkjubúskapur pabba og Sigga Tomm.

Við Áslækinn voru rústirnar af rjómabúinu sem þar var einu sinni.                               Áður en hann Brynki fór að koma á mjólkurbílnum til að sækja mjólkina og flytja hana niður á  Selfoss, var mjólkin flutt hingað frá bæjunum í sveitinni og konur, sem höfðu nafnbótina rjómabústýrur, gerðu það sem fyrir ennþá fleiri árum, var gert á hverjum bæ - "þær komu mjólkinni í mat".       Það var svo langt síðan þessu lauk,  að nú voru veggirnir einir uppistandandi og gluggatóftirnar gláptu glerjalausar niður eftir læknum.

Í Ási bjuggu Steindór og Guðrún. Þangað kom ég aldrei og þekkti þau bara af afspurn.   En hrossin í Ási þekkti ég vel og dáðist að, þar sem þau voru á beit fremst í Hrunavellinum.  Þvílík litadýrð! Skjótt í ótrúlegustu litbrigðum, brúnskjótt og gráskjótt flottast. Hjá okkur var allt brúnt eða rautt. Eiríkur var á þessum tíma einn orðinn heima af börnum hjónanna í Ási og hann tók þar svo við búi.

Ég kom hins vegar stundum að Skyggni, þar sem Kristín frá Ási bjó með manninum sínum honum Stefáni. Hann var oft að heiman og fór þá til sjós, helst í Grindavík held ég. Nokkur vor hjálpaði pabbi Stebba að setja niður kartöflurnar, því við áttum niðursetningarvél. Þá tók hann mig með sér, af því ég var elst af okkur og krakkarnir í Skyggni líka öll yngri. Þau voru Gunna, Denni, Jónína, og Gummi.

Pabbi ók traktornum og ég sat aftan á vélinni við hliðina á Stebba. Ég var heldur uppburðarlítil við hliðina á þessum karli sem ég þekkti svosem ekkert. Það var alltaf kalt og moldin rauk í augu og nef. Stebbi tók í nefið og tóbaksblandaður sultardropinn datt af og til á eftir karöflunum ofaní trektina.

En þessar ferðir borguðu sig alltaf áður en lauk. Þegar búið var, tók Stebbi okkur með heim til sín.  Krakkarnir voru sofnaðir, það var orðið framorðið. Pabbi fékk kaffi og koníak ,en ég Mackintos eins og ég gat í mig troðið. Ég hugsa að þetta hafi verið eini bærinn í sveitinni sem gat boðið uppá svo sjaldgæft gómsæti, en það var að þakka sjómennsku Stebba. Svo ók pabbi heim, góðglaður á traktornum og ég ánægð á brettinu, enginn annar en ég fékk svona fallegt og gott sælgæti. Vonandi fengi ég að fara aftur næsta vor. Það var komin nótt og allir sofnaðir heima.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kvitt. Ég þreytist ekki á að lesa þessar sögur. Þetta eru algjörir gullmolar.

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 00:04

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Alveg sé ég þetta fyrir mér. Finn lyktina af moldinni.

Kveðja í bæinn.

Sigurður Hreiðar, 22.10.2007 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband