Grafarbakki er góður staður

 Grafarbakki - það hlýtur að vera ástæða fyrir því að svona bæjarnafn verður til.  Okkur fannst nafnið aldrei nema eðlilegt, enda horfðum við daglega upp á bakkann neðan frá lægðinni okkar, sem fyrir mörgum árum hafði tilheyrt jörðinni Gröf.

Brattur bakkinn upp frá Litlu Laxá, alveg ofan frá Kvíadal og fram að Torfdal gat ekki heitið neitt annað en Grafarbakki. Systkinin úr vestubænum byggðu sér hús þarna á bakkanum

Á Reykjabakka bjuggu Þóra Tómasdóttir frá Grafarbakka og Jón Einarsson frá Reykjadal.  Nöfn þeirra fyrri heimila sameinast þarna í einu. Þau hjónin eignuðust fyrst hann Tómas Þóri en seinna komu svo Einar, Reynir og Þröstur.

Þarna var allt frekar smátt. Lítið hús, fáar kýr, enda jörðin líklega ekki stór.            Dálítil garðyrkja niðri í Hofum, sem er fremsti hlutinn af eyrinni.   Við braggann í Hofunum voru líka "hrútar". Ekki lifandi hrútar sem jörmuðu, heldur dauðir hrútar úr járni sem dældu vatni upp til bæjanna. Þó þeir ekki jörmuðu gáfu þeir frá sér hljóð - paff - plaff - plaff - sí og æ,  alla daga og nætur, sumar og vetur.  Við fórum gjarnan um Hofin þegar við fórum fram í Flúðahverfi. Á eyrinni höfðu allir grafarbakkabæirnir sín garðlönd og það kom að því að Siggi Tomm sneri sér alveg að garðyrkjunni.

Fremst á eyrinni var sumarbústaður í stórum trjágarði og bræðurnir sem áttu hann ásamt móður sinni Jóhönnu áttu hluta af garðlandinu þarna, og einnig gróðurhús uppi á bakkanum. Þessir bræður hétu Bjarni, Haraldur, Hróbjartur og Grímur Bjarnasynir og voru ættaðir frá Sóleyjarbakka.  Þessi rekstur gekk undir nafninu Gróður h/f og Siggi var þeim til aðstoðar við ræktunina. Bræðurnir bjuggu allir í Reykjavík. En þetta h/f varð ekki langlíft og gróðurhúsið á bakkanum hrundi hægt og hljótt og brakið týndist í hávöxnu grasinu þarna á brekkubrúninni.

Í austurbænum á Grafarbakka bjuggu Kristófer og Kristín og þar var hjá þeim amma - Katrín - mamma Stínu. Það var hún sem gaf hænunum sem voru í kofnum ofan við hverabrekkuna.

Kristófer og Stína áttu tíu börn, sem öll voru á svipuðum aldri og við.                   Dálítið merkilegt, þar sem við vorum helmingi færri. Þau voru Jón, Emil, Eiríkur, Björk, Kjartan,, Gunna, Maja, Hlíf, Gyða, og Hreinn. Í byrjun var reynt að aftra för okkar yfir ána, en þegar fram liðu stundir varð ekki komið í veg fyrir að þessir hópar blönduðust, og þótti gott að yfirleitt tókst að draga rétt í sundur fyrir svefninn.

Í eldhúsinu í austurbænum var hveravatnið notað til eldunar, með einhverju því móti sem ég lærði aldrei almennilega að skilja.  Pottar voru greyptir ofaní eldhúsbekkinn og þar í var kraumandi hver. Kristófer var klár kall og hefur örugglega hannað þessa búbót.

Enn í dag sé ég ekki alveg fyrir mér hvar allir krakkarnir sváfu um nætur, en þau virtust alltaf ágætlega úthvíld. Þau voru látin taka til hendinni svo um munaði, ég man  að eftir Kristófer var haft að það væri nógur tími til að nærast þegar hægðist um við heyskapinn. Það var aldrei stjanað við þau, en þau voru og eru enn,  samhentari en flest systkin sem ég hef kynnst, og vinir vina sinna svo sjaldgæft er. 

Kristófer átti Weapon bíl og tók að sér fólksflutninga á dansleiki og aðra mannfagnaði, það myndu heita sætaferðir á nútíma máli. Þar voru líka vörubílar, traktorar og ýmis önnur tæki sem ekki voru til á öðrum bæjum.

Austast á bakkanum var kofi sem var kallaður Helgakofi. Hann átti Helgi Steinberg, en var þar sjaldnast. Þetta þótti okkur hálfgert draugahús og komum þar helst ekki nærri. Helgi þessi var Þórðarson og bróðir Tómasar í vesturbænum. Hann hafði verið barnsfaðir Tobbu á Högnastöðum, sem svo missti það barn, en varð upp frá þessu til æviloka lítilsigld vinnukona á heimili bróður hans og svo bróðursonar á Högnastöðum. Helgi var líka pabbi Blomma í Miðfelli, en Jón gamli, pabbi Dodda og Þóru, var einn af þessum Þórðarsonum ef ég man rétt. Þetta voru víst ekki einu börnin sem Helgi átti en við þekktum það ekki. Við vildum sem minnst nálgast þennan mann.

Einu sinni vorum við að taka upp kartöflur austur á eyri, beint fyrir neðan grafarbakkann, þar sem brattast er. Þá kom Eiríkur Kristófersson á traktor með kerru fulla af rusli - grænmetisúrgangi - til að sturta þar fram af, ofan í ána.                        Þá var Eiríkur bara tíu til tólf ára strákur.

Hann bakkaði útaf veginum, en í þetta sinn heldur langt svo kerran fór framaf og dró traktorinn á eftir sér niður brekkuna, svona 30 - 40 metra fall. Eiríkur flaug af á leiðinni og hefur það líklega orðið honum til lífs því traktorinn lenti á hvolfi í klessu á klöppinni. Eiríkur í Túnsbergi var í smíðavinnu hjá Kristófer og sá hvað gerðist. Hann var örfljótur að komast til  nafna síns og sá þá  að hann var lifandi, en eitthvað töluvert  brotinn.     Við stóðum stjörf í kartöflugarðinum og Kristófer uppi á bakkanum.                         Ekki minnist ég þess að Eiríkur grenjaði. 

Eiríkur átti eftir að brotna meira en þetta, og einu sinni var það mér að kenna. Ég henti honum ofanaf stabba í hlöðunni svo hann handleggsbrotnaði í lendingunni. En ég ætlaði ekkert að brjóta hann.

Þegar ég man fyrst var sæmilegasta tún fyrir norðan Grafarbakkabæina, í brattanum niður að ánni. Þar var alltaf heyjað, að vísu með orfi og ljá og rakað með hrífum.        En þarna var væna tuggu að hafa þangað til áin hafði étið svo mikið af bakkanum og túninu að ekki tók því lengur að slá það. Það var trjágarður handan við hlaðið á Grafarbakka, þar hafði verið plantað nokkuð mörgum trjám sem þrifust vel. Og austan við bæinn á leiðinn austur í Kvíadalinn var annar garður. Þetta var held ég svolítið sérstakt á þessum árum, að verið væri að setja niður svona "óþarfa", það var meira lagt uppúr "björginni". Ég trúi það hafi verið Katrín og Jón - foreldrar Stínu sem þetta gerðu. Og er þá lokið þætti "bakkabúa".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er alltofmikil lesning!

mýrarljósið (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 21:54

2 Smámynd: Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu...

Jahérna...þú þjáist ekki af minnisleysi sé ég!

Fróðlegt fróðlegt .

Var það ekki Kristófer sem hafði áhyggjur af traktornum eftir fallið mikla?

Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 18.10.2007 kl. 22:56

3 identicon

Skemmtilegt allt saman! Helgi Þórðarson var langafi minn og Blommi ömmubróðir. Bíð spennt eftir framhaldi. Gerða hans Blomma kom stundum heim og héldum við mikið upp á hana systurnar.  Hef lítið heyrt um hann Helga langafa minn   Aðeins þar sem hann kom við niður á Skeiðum. Man ekki hvað þau eru mörg börnin hans, ömmusystkini mín en þau ólust ekki upp saman. Axel ólst upp í Hreppnum, ekki alltaf á sama bænum,  og Kristín amma mín á Hrafnkellsstöðum. Sjálfsagt veist þú miklu meira

Kristín Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 07:45

4 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Já - Kristín- ég átti að muna eftir henni ömmu þinni og Axel man ég að hafa heyrt nefndan, en ekki á hvaða bæ hann helst var. Langafinn hefur átt góða bræður og frændur, að þeir skyldu taka börnin hans og jafnvel barnsmæður að sér. En ég þekkti þetta bara  af sögusögnum, það var eiginlega einni kynslóð á undan mér. 

Góða helgi til þín og þinna. Þú gætir nú flett aðeins til baka í færslunum og fundið netfangið mitt. Ef þú sendir mér þitt með lýsingum á staðháttum og veðurfari þarna í útlandinu er ekki gott að segja nema þú fengir "slúður" úr skólanum til baka. 

Helga R. Einarsdóttir, 19.10.2007 kl. 16:14

5 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Og ljósið mitt, ekki skaltu lesa of mikið í einu. Þetta er hvort sem er bara rugl um gamalt fólk sem þú þekktir aldrei. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 19.10.2007 kl. 16:16

6 identicon

Ég geri það

Kristín (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 19:51

7 Smámynd: GK

Ég les og les.

GK, 20.10.2007 kl. 14:42

8 identicon

Nú er ég búin að laga eitthvað þannig að þú kemst inn á síðuna mína án lykilorðs.

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 15:56

9 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Jú Guðbjörg - ekki vil ég nú segja að hann hafi ekki haft áhyggjur af stráksa, en hann kallaði niður til Eiríkas í Túnsb. og spurði hvort traktorinn væri mikið skemmdur?  Líklega var hann þá búinn að sjá Eirík hreyfa sig.  Og traktorinn var að sjálfsögðu í einni klessu, en ég er viss um að Grafarbakkamenn hafa getað notað megnið af honum í varahluti eða aukabúnað á aðra traktora.

Helga R. Einarsdóttir, 21.10.2007 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband