Sjö stelpur og Tomsens magasín

Olgeir og Svana bjuggu í Hellisholtum og áttu soninn Garðar. Hann var jafnaldri minn og fermingarbróðir, sá eini, en við stelpurnar vorum sjö.  Þarna var hefðbundinn búskapur með kýr og kindur, en þar að auki var Olgeir ýtumaður og mikið í vinnu um alla sveit. Svoleiðis voru bændur oft í gamla daga, þeir kunnu allt mögulegt og unnu við það meðfram búskapnum.  Gæti verið að konurnar hafi stundum séð um búið að mestu?

Svana í Hellisholtum var frá Dalbæ, systir Palla og Madda, og svo voru Gunna í Galtafelli og Sigga í Bryðjuholti systur þeirra. Við systkinin komum stundum að Hellisholtum til að leika okkur við Garðar, en ég man þar held ég ekkert sérstakt.

Á Grafarbakka í vesturbænum bjuggu Þóra Loftsdóttir og Tómas Þórðarson, hann var bróðir Guðmundar, afans á Högnastöðum. Sigga dóttir þeirra hjóna var þar líka i heimili og bjó með foreldrunum. Svo giftist hún Magnúsi og þau tóku við búskapnum.          Það voru vinnumenn þarna á sumrin. Sá eftirminnilegasti  var Daddi úr Grindavík. Seinna varð hann Dagbjartur Einarsson útgerðarmaður. Hann var alveg rosalegur gæi og ég efast að nokkurn sveitastrák hafi dreymt um að feta í sporin hans.     Sem betur fer var ég bara krakki þegar hann var upp á sitt besta,( ég var seinþroska) svo ég slapp við allar hjartasorgir hans vegna.

Á grafarbakkahlaðinu var brúsapallur og þangað fluttum við mjólkina frá Hvammi. Mjólkurbílstjórinn hét Brynki Vald og hann borðaði í vesturbænum. Stundum sat í með honum kona sem hét Bella og var frá bæ í Flóanum sem hét  Kjartansstaðir.             Hún hafði með sér tvo smástráka sem hétu Siggi og Búmmi. Þau biðu í trjágarðinum austur á Stöðli á meðan Brynki sótti mjólkina og borðaði.  Sjálfsagt með nesti.

Sigurður Tómasson byggði sér hús á Hverabakka og átti Svövu systur prestsins fyrir konu, þau eignuðust svo dæturnar Önnu, Þóru og Sjöfn. Ég var oft fengin til að passa þær systur þegar ég stálpaðist og Anna var líklega fyrsta barnið sem ég sá nærri nýfætt.

Siggi bjó til að byrja með í samvinnu við foreldrana og Siggu með kýrnar. Þar í hlöðunni var allt morandi af villiköttum og kettlingum sem við vorum iðin við að veiða og fara með heim. Mikið reyndum vð að fá leyfi til að hafa einn eða tvo hjá okkur, en vorum alltaf send með þá til baka.  Lengi fram eftir árum var algerlega kattalaust okkar megin  árinnar.

Á Laxárbakka byggði Sveinn Tómasson og bjó þar í nokkur ár með Sigrúnu konu sinni. Þau áttu tvo syni, Bjarna og Júlla og svo áttu þau dóttur, en ég man ekki hvort hún var fædd þegar þau fluttu úr sveitinni niður á Selfoss. 

Eftir að Sigrún og Svenni fóru, notaði Siggi á Hverabakka húsið fyrir verslun í einhvern tíma. Það var fyrsta búðin í sveitinni fyrir utan tyggjó og tóbakssöluna í kjallaranum hjá Bjarna Halldórs á Gilsbakka.. 

Þessi búð var ýmist kölluð Siggabúð eða Tomsens magasín, Þarna fékkst sitt af hverju og ég man að við Örn fengum þar fyrstu jólagjöfina sem við gáfum foreldrunum og keyptum á eigin spýtur. Það var veðurhús, með karli og kerlingu, sem komu og fóru út og inn eftir veðri. Hún var úti í góðu, en hann ef veðrið var vont.  Það einkenndi kaupmennsku Sigga hvað sumar vörurnar geymdust ótrúlega illa. Þegar við komum þar, sem var oft, var alltaf eitthvað sem lá undir skemmdum og varð að éta eða drekka strax. Lakkrís man ég, og sérstaklega maltöl, það var alveg vonlaust að geyma það stundinni lengur, - sagði kaupmaðurinn. Og við trúðum honum auðvitað og hjálpuðum til við að eyða því strax.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman, gaman.  Þetta er upplýsandi og rifjar ýmislegt upp.  Persónur verða ljóslifandi og vekja upp minningar um aðra og ýmislegt úr okkar góðu sveit. Ég mun svo sannarlega fylgjast með.      

Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband