16.10.2007 | 20:40
Og svo var þar Miðfellshverfið
Miðfell - áberandi fjall í miðri sveit. Við töluðum alltaf um Miðfellsfjall, en líklega er það mesta bull, frekar er þetta fell en fjall, myndu þeir segja sem hafa alist upp við alvöru fjöll. En við sem ólumst upp í minni sveit þekktum ekki til stærri fjalla. Skipholtsfjallið hét jú fjall og svo var Hlíðarfjall í Eystri hreppnum og Hestfjall á Skeiðunum. En fellin okkar og ásarnir voru alveg jafn merkileg, falleg og brött- fannst okkur þá.
Við fórum oft upp á Miðfellið. Annaðhvort bara til að fara í fjallgöngu á sunnudegi, eða til að veiða. Aldrei var spurt hvort krakkar mættu veiða á þessum tíma. Ef við nenntum að dröslast með prikin með okkur, stundum bara skaft með girnisspotta og öngli á enda, þá dýfðum við í þær sprænur og tjarnir sem á vegi okkar urðu - og veiddum ótrúlega oft einhverja titti.
Ef við gengum fram á suðurbrún Miðfellsins sáum við niður í Miðfellshverfið. Þyrpingu fjögurra bæja, með útihúsum og mörgu fólki á ferli.
Í Götu bjó Stebbi með Gústu og fjórum börnum, sem hétu Katrín, Sigríður, Jón og Sigurdór. Þangað kom ég aldrei og þekkti krakkana ekkert fyrr en við urðum stærri. Þau voru öll svolítið yngri en ég.
Gunnlaugur og Margrét bjuggu í Miðfelli með mörgum sonum. Þeir hétu Skúli, Emil, Magnús, Karl og Sigurður. Þeir voru allir eldri en ég og flestir um það bil að hefja eigin búskap á þessum árum. Þeir voru íþróttamenn og vel þekktir fyrir það víða um Suðurlandið. Skarphéðinsmótin við Þjórsártún voru fjölmenn á þessum árum og þar gerðu þeir það gott. Og komust svo örugglega á landsmótin þegar þau voru haldin.
Þóra og Þórður bjuggu í hinum bænu í Miðfelli. Þau voru systkini. Þar byggði svo líka hann Blómkvist sem náði í hana Gerðu sem var vinnukona hjá okkur. Ég fór með mömmu í heimsókn þangað þegar Gerða var nýbúin að eignast stúlkubarnið Maju. Þá var líklega verið að byggja Blomma hús, en þau bjuggu á meðan í gamla bænum hjá Þóru og Dodda. Við fórum gangandi frameftir, vestan við Miðfellið í þetta sinn. Það var stysta leið frá okkur.
Hjónin í Dalbæ hétu Margrét og Páll og þau áttu uppkomin börn þegar ég fór að þekkja þar til. Þau hétu Brynjólfur Geir (Bryngeir) Svava, Guðmundur og Jóhann. Jói var að vísu ekki svo mikið eldri en ég svo ég kynntist honum dálítið. Ég man best eftir honum í lauginni, hann var frábær sundmaður og alltaf með þegar farið var að senda okkur á sundmótin til að keppa. Svo var líka dæmalaust gaman að dansa við hann.
Ég kynntist Bryngeiri reyndar fyrst af öllum í Dalbæ. Það var á 17. júní skemmtun í gamla salnum hjá skólanum. Kannski var ég svona fimm eða sex ára. Sennilega var þröngt í húsinu og hiti - það leið yfir mig og ég lagðist eins og blautur poki á gólfið - í rauðröndóttum kjól. Bryngeir tók mig þá upp og bar mig út á hlað , þar enduheimti ég rænuna svo fljótlega. Síðan var Bryngeir alltaf einn af mínum uppáhalds.
Það var blindur maður í dalbæ, sem var kallaður Maddi, hann var trúi ég bróðir Palla. Svo voru þar líka tveir piltar á minum aldri, Birgir og Grétar. Birgir fékk happdrættisvinning, í D.A.S. held ég, sem kom sér ákaflega vel fyrir unglingsstúlkur sveitarinnar. Vinningurinn var "Fíat - lús", sem var óspart notuð til ökuferða um allar sveitir. Við áttum ekki annarra kosta völ á þeim tíma, en það komust bara fjórir fyrir - með bílstjóra.
Miðfellshverfið var öll sumur fullt af kaupakonum og mönnum, sem settu svip á sveitina. Og allir voru mættir í Fúðalaugina á miðvikudags og föstudagskvöldum. Það voru "laugarkvöldin" og ótrúlegt fjör í boltaleik á milli stráka og stelpna. Þar voru ALLIR.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 16.10.2007 kl. 22:08
Klikka ekki á kvöldsögunni, Kveðja
Guðbjörg Elín (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 23:24
Hvað varstu að gera öll þessi ár?
Hæfileikar þínir á ritvellinum hafa verið stórlega vannýttir. Hlýlegur og þéttur stíll -- og óskeikul réttritun.
Meira namm, takk.
Kveðja í bæinn
P.S. ef þessi athugasemd kemur tvisvar er það kerfinu/tölvunni að kenna. Í fyrra skiptið hvarf hún eitthvað út í bláinn -- eða ég veit ekki hvert.
Sigurður Hreiðar, 17.10.2007 kl. 11:06
S.H. - eðlilega gladdi þessi athugasemd mig. Mér hefur lærst í gegnum árin að þú hafir vit til að gefa svoddan yfirlýsingar.
Álíka varð ég glöð þegar konan sagðist hafa lesið fjörutíu ára sögu Karlakórs Selfoss frá upphafi til enda, bara af því ég hafði skrifað hana. Sú kona hafði aldrei áður sýnt áhuga á söng, eða körlum í kór, svo ég mátti vel við una.
Heldurðu kannski ég hefði fengið vinnu á Vikunni hér um árið?kv.
Helga R. Einarsdóttir, 17.10.2007 kl. 16:22
Jamm -- og ekki loku fyrir það skotið enn. -- Á ég að nefna þig við Gurrí?
Sigurður Hreiðar, 17.10.2007 kl. 17:47
Mæli með því að Siggi Hreiðar nýti alla spotta sem hann getur kippt í til að koma Helgu á ritvöllinn..ekki spurning.
Erla Björg, Vilberg og Emil (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 18:13
Þetta hef ég nú nefnt við þig, þú átt að skrifa bók. Takk fyrir skemmtunina, kveðjur.K.K.
Kata mágkona (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 19:19
Ég held ekki "mæ frænd", ég hef nóg að gera . Konan væri vís til að reyna að ráða mig fyrir einkabílstjóra, en væri litlu bættari með það nema hún léti sér nægja að rúnta um strjálbýlar sveitir og götur smáþorpa. Í höfuðstaðnum ek ég ekki bíl.
Og Erla Björg og Vilberg - viljiði hætta strax að leggja nafnið hans Emils litla við hégóma, hann á það ekki skilið - suss.
Helga R. Einarsdóttir, 17.10.2007 kl. 20:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.