15.10.2007 | 21:41
Þegar komið er yfir brúna á Stóru Laxá
Nú á ég bara eftir að rölta hring um sveitina og rifja upp það sem mér fannst þar merkilegt á árunum ca.1955 - 60. Þegar komið er yfir brúna á Stóru Laxá verður Hólakot fyrsti viðkomustaður. Hægra megin við veginn, og hefur alltaf verið þannig þó veginum sé marg búið að breyta. Holótta örmjóa malarbrautin sem varð oftast ófær í vorleysingum, hvert hvarfið við annað, (kannski vita ekki allir að hvarf er drulludý á malarvegi um það bil sem klaki er að fara úr jörð á vorin) er nú malbikaður tveggja akreina vegur.
Í Hólakoti bjuggu Ásmundur og Pálína með fimm börnum. Þar þekkti ég ekkert til, nema hvað yngsta dóttirin hún Elínborg var með mér í skóla og yngri sonurinn, Hjalti ferðaðist með okkur á böllin í sveitunum í kring þegar við höfðum aldur til. Íbúðarhúsið sem nú er, var í byggingu á þeim tíma og Hjalti svaf þar á loftinu.
Hin systkinin, eldri, voru Unnur, Guðjón og Halldóra.
Hrepphólahjónin hétu Elísabet og Jón, þau áttu býsnin öll af börnum: Ellu, Sigga, Stebba, Guðjón, Kristján, Gunnar, Sólveigu og Önnu - ég held að þetta sé rétt talið. Kristján og Gunnar voru með mér í skóla og stunduðu síðan skemmtanalífið á sömu slóðum og ég. Sérstaklega áttum við Stjáni gott samstarf á þeim vettvangi. Hann hringdi til mín og bauð far á ball og svo dönsuðum við saman þangað til við komum auga á eitthvað áhugaverðara. Síðan fórum við samferða heim að samkomunni lokinni og skreið þar hver í sitt ból, sem varla þættu tilþrifamikil sögulok núna. Annað hafði ég ekki með Hólamenn að gera og þekkti þar ekkert til. Ég kom líklega einu sinni í gamla bæinn, sem stóð niðri við kirkjuna, en það var ekki fyrr en á fullorðinsárum.
Í Núpstúni bjó Guðmundur, eða Mundi, og konan hans hét Sigríður. Þau áttu tvo syni Jóa og Binna. Jói flutti fljótlega til Reykjavikur og gerðist þar póstmaður, en Binni tók við búi. Hann gifti sig svo henni Ingu Guðmundsdóttur úr Fljótshlíðinni.
Ég kom aldrei að Núpstúni, en ég man vel eftir Munda úr réttunum og víðar. Hann var skemmtilegur karl og það var hann sem reiddi mig fyrir framan sig heim úr réttunum þegar pabbi hafði borið mig þangað á bakinu þriggja ára gamla. Mundi var góður.
Binni fór alltaf á fjall, með tvo hesta rauða, stjörnótta eða blesótta. Hann var húmoristi og bjó til vísur ef á þurfti að halda. Í Núpstúni voru strákar á sumrin, einn þeirra í mörg ár, það var hann Bjarni, sem nú heitir "skó".
Árni bjó í Galtafelli og konan hans hét Guðrún. Þau áttu börn sem hétu Magga, Dísa, Áslaug, Svavar og Hjalti. Svo var þar Magnús, bróðir Árna, hann átti vörubíl og sá líka um kindurnar sem voru í fjárhúsinu út við veg. Og svo var þarna Jóna, systir þeirra, en hún stjórnaði símstöð sveitarinnar sem var þarna á bænum. Mér þykir slæmt að ég man ekki hringinguna að Galtafelli, en heima var það ein löng og tvær stuttar.
Að Galtafelli vorum við systkinin send gangandi nokkrum sinnum á ári. Þangað þurfti að sækja skömmtunarseðlana sem varð að hafa til að fá ýmsar vörur í Kaupfélaginu. Þá var send pöntum með mjólkurbílnum, og ef vantaði kaffi, sykur eða eitthvað annað skömmtunarskylt fylgdi seðill með. Annars kom bara ekkert kaffi með mjólkurbílnum næsta dag. Þangað fórum við líka með minkaskottin þegar okkur hafði tekist að drepa einn eða fleiri minka. Árni var hreppstjórinn og borgaði okkur fyrir skottin, bara nokkuð vel, og við vorum vel virk í veiðunum. Ég ætti víst ekki að lýsa aðferðinni sem við notuðum, umhverfis og náttúrusinnar væru vísir til að kæra okkur. En við höfðum hund sem náði skepnunum, hristi þá ringlaða og svo bara dauðrotuðum við þá, oftast með grjóti eða spýtu. Við vorum ekki nema tíu ára og þá er ekki hægt að fá byssuleyfi.
Þessar ferðir tóku allan daginn, auðvitað vorum við gangandi og máttum svo stoppa aðeins áður en við fórum til baka. Þegar Áslaug gifti sig Magnari og hann fór að búa með svín urðu þetta mestu ævintýraferðir vegna þess að svín voru þá hvergi annarsstaðar til. Og reyndar var Magnar töluvert merkilegur sjálfur af því hann var norskur og eini "útlendingurinn" sem við þekktum.
Systkinin voru öll eldri en við, nema Hjalti, sem var með okkur Erni í skóla og svo á böllunum þegar fram í sótti. Bæði Svavar og Hjalti áttu alltaf rosalega flotta bíla sem ekki spilltu fyrir vinsældum þeirra.
Vestan við íbúðarhúsið var lítið rauðmálað hús sem mig minnir að væri kallað "Einarshús". Þetta hús var tengt Einari Jónssyni myndhöggvara, en hann var frá Galtafelli, sennilega áttu það einhverjir ættingjar hans.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það var örugglega stutt og ein löng í Aratungu og heima var stutt og tvær langar, heldur þú að allir viti um hvað er rætt? Vá hvað maður er orðin gammall mar!!!!
Guðbjörg Elín (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 22:29
Ég hélt þú vissir fyrir hvað þú ert orðin "eldgömul". Manstu þegar við sáum líters kókflöskuna á Þjóðminjasafninu. Og samt drukkum við úr svoleiðis flöskum fyrir örfáum árum! kv. og góða nótt.
Helga R. Einarsdóttir, 15.10.2007 kl. 22:38
Nú er ég búin að lesa og lesa og lesa frá miðvikudagsfærslunni... hefði helst viljað fara með tölvuna í rúimið og leggja hana á hliðina, mjög áhugavert allt saman. Ertu búin að finna útgefanda spyr ég bara?
Binni í Núpstúni já...ég fór heldur aldrei þangað
.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 15.10.2007 kl. 22:42
Mér finst það alltaf jafn slæmt að muna ekki hvernig vísan frá Binna var um að " máninn er fullur og glottir á Geldingafellinu. Gerist oss sjálfum oft hált á því svellinu... Svo man ég ekki meira en í endan kemur lækurinn er blautur það sér maður á honum..synd og skömm að muna þetta ekki og synd að engum hafi dottið í hug að halda upp á vísurnar hans því þar er mikið sem að hreppamenn myndu kunna að meta núna held ég..
Erla Björg, Vilberg og Emil (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 16:47
Komdu sæl HelgaÉg fór núna áðan alveg óvart að lesa færslur þínar hér á blogginu, þó ekki alveg óvart því myndin af þér fékk mig til að rumska og myndin vakti upp minningar hjá mér.Ég átti engan sjéns, enda 5 árum yngri en þú og lét lítið fyrir mér fara úti í horni, en í minningunni varst þú sætasta stelpan á ballinu og ég sé þig fyrir mér svífandi um á dansgólfinu í félagsheimilinu á Flúðum, ég man ekkert með hverjum, kannnski Jóa í Dalbæ, eða tjútturum eins og Svavari í Galtafelli. Þá sé ég þig fyrir mér leika í leikriti á Flúðum og í hlutverki fjallkonunnar 17. júní, en er þó ekki viss um að svo hafa verið í raun, kannski draumsýn. Förum ekki nánar út í það, en nú er ég kominn á þann aldur að mér finnst mikið til koma um minningar og ekki síst þegar ég kannast við nöfn og staðhætti og þú átt lof skilið fyrir þessar færslur og gömlu myndirnar. Þú gerir þetta vel og ég hvet þig til frekari skrifa. Ég hef aldrei átt heima í Hrunamannahreppi en var þar mjög mikið hjá föðurfólki mínu á Jaðri, samtals í 13 sumur.Hringing í miðstöð hjá Jónu í Galtafelli var stutt löng.Hver veit nema ég eigi vísuna eftir Binna í Núpstúni en er ekki með hana í höfðinu. Það hefur reyndar verið bætt við hana og jafnframt verið gert við hana þetta líka fína lag. Það gerði Magnús Víkingur Grímsson.
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 16:37
Obbb - obb - obb, nú líkar mér lífið! Ég kannast við nafnið Snorri og tengi við Jaðar, en ekki er ég viss um að sjá þig fyrir mér. Varstu rauðhærður? En þú ferð nokkuð nærri um það sem ég hafði fyrir stafni á "heimasætuárunum". Ég var reyndar búin að fá orð um hringinguna að Galtafelli og þar hefur þú rétt fyrir þér. Ef þú átt vísur sem þú mátt missa er póstfangið mitt hresk@mi.is , ég safna ótrúlegustu hlutum. Það skiptir engu máli þó þú sért fimm árum yngri, og ekki seinna vænna að við eigum okkar samskipti þó loftkennd séu. Njóttu þess sem á eftir kemur. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 17.10.2007 kl. 17:19
Rétt hjá þér Helga, svolítið rauðbirkinn en ekki mikið, langur og mjór. Hættur að hafa áhyggjur af þessum fimm árum en ætli sé bara ekki fínt að hafa þetta loftkennt. Kann ekki að setja inn mynd, en ef þú átt Mogga frá síðasta laugardegi þá er ein þar og önnur á www. islandshreyfingin.is Mér finnst gaman að vísum en á því miður lítið af þeim og man ennþá minna. Ef ég finn þessa sem ég nefndi mun ég senda hana á póstfangið þitt og í öllu falli gera þér nánari grein fyrir mér. Ég bíð spenntur eftir frekari færslum.
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 18:23
Aha Snorri - ég gróf þig upp úr ruslapokanum í skúrnum. Þar er nefnilega poki með dagblöðum sem fer öðru hvoru upp á hauga. Þú sem sagt frelsaðist frá því að lenda þar í þetta sinn. Ég kannast við svipinn, enda varla von á öðru, sveitungi til 13 ára hlýtur að skilja eitthvað eftir sig þó krakki væri þá.
Helga R. Einarsdóttir, 17.10.2007 kl. 20:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.