Þar var selt amerískt tyggjó og appelsín frá Agli

Sunnan við skólahúsið var sundlaugin og var hún ein af þeim betri í sýslunni. Þær voru reyndar ekki margar á þessum tíma, og sundmót Skarphéðins, sem voru haldin árlega, voru til skiptis í Hveragerði og á Flúðum. 

Þarna mátti heita  að við værum öllum stundum og þó að íþróttakennslan væri ekki margbrotin í skólanum (skólastjórinn stjórnaði vikulegum tíma með Mullers æfingum) var ekki hægt að segja annað en að við fengjum að njóta geysigóðrar líkamsræktar.  Fæstum þurfti að kenna sundtökin því við lærðum þau löngu áður en við komum í skólann. Við lærðum þau um leið og skítnum var skolað af okkur í lauginni heima.   Aftur á móti var eitt vorið ráðinn alvöru íþróttakennari til að kenna okkur nokkrum stelpum hinar ýmsu sundaðferðir. Síðan vorum við látnar æfa af kappi svo hægt væri að senda okkur til keppni á Skarphéðinsmótum eða öðrum mótum sem til féllu.    Þjálfarinn hét Helga Haraldsdóttir og var á þessum tíma fræg á Íslandi fyrir sundafrek. Það var ungmennafélagið sem stóð fyrir þessu átaki, kostaði þjálfunina og fékk svo í staðinn stigin, sem við unnum eitthvað af á mótum næstu árin. Þetta voru ágæt skipti.

 Gilsbakki stendur enn, á vinstri hönd þegar komið er niður brekkuna að lauginni.         Á Gilsbakka bjó Bjarni Halldórsson. Hann var bróðir hennar Ingibjargar, ömmunnar á Högnastöðum. Bjarni bjó þarna einn og hvaðan sem það kom, þá var hægt að kaupa hjá honum appelsín og amerískt tyggjó. Við krakkarnir áttum nú aldrei peninga til að kaupa neitt, en það kom fyrir að við værum send til Bjarna og mig grunar að hann hafi selt tóbak  svona meðfram tyggjóinu.  Þetta var víst fyrsta sjoppan í sveitinni.  

Bjarni átti fjárhúskofa uppi á bakkanum vestan við Hellisholtalækinn, sem rann þarna eftir lægðinni og gerir enn.  Í þessum kofa hafði hann nokkrar kindur og ein þeirra var hún Botna. Botna var öllum  kindum spakari og frekari. Hún fylgdi Bjarna eins og hundur hvert sem hann fór í grendinni. 

Gilsbakki var svo, og er, sunnan við laugina  ofan við brekkuna. Þar bjó á þessum tíma kona sem hét Halla.  Hún var ekkja og hún átti tvo syni sem hétu Magnús og Haraldur.                      Þeir voru dálítið eldri en ég og ég þekkti til þeirra vegna þess að stundum voru þeir, annar eða báðir, í vinnumennsku í Hvammi, eða í Gröf. Dóttur átti Halla líka, en hún var farin að heiman og ég þekkti hana ekki.

Á mínum skólaárum byggði Hannes Bjarnason frá Selfossi verkstæðishús við Hellisholtalækinn. Hannes var bifvélavirki. Hann innréttaði íbúð í öðrum endanum og bjó þar með henni Dísu frá Galtafelli þangað til hann hafði byggt íbúðarhúsið á Varmalandi. Það byggði hann uppi á túninu, þar sem Varmilækur og Laugaland risu þá líka.        Áður var þetta tún notað sem íþróttavöllur og þar voru haldnar útisamkomur og skemmtanir t.d. á 17. júní. Skógræktarreitur kvenfélagsins var þarna ofan við túnið, en trén þá ekki nema örlitlar hríslur. 

Nú sýnist mér stefna í að ég fari um alla sveit og komi við á hverjum bæ. Ég ætla að nálgast fólkið sem þar bjó eins og ég gerði þegar ég var lítil. Suma sem kunningja, aðra góða vini og einhverja þekkti ég bara ekki neitt.  Suma var alltaf  talað um með gælunöfnum og þannig er það bara. Ég vona bara að minnið fari ekki illa með mig, og vonandi geri ég engum grikk með þessu. Vissast þó að biðja um fyrirgefningu strax, verði mér einhversstaðar á í messunni.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Ég þekki timann en ekki sveitina þína eða fólkið. Gerir ekkert til . þetta tekur mig til baka í tíma. 

Jórunn Sigurbergsdóttir , 14.10.2007 kl. 19:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband