10.10.2007 | 20:41
Þá var spilaður fótbolti fram í myrkur
Á sumrin, þegar fjölmennast var í hverfinu var oft kallað saman til fótbolta, krakkar voru látnir hlaupa á milli bæja og segja "það er bolti í kvöld". þeir sem höfðu verið í Garðyrkjuskólanum á Reykjum þekktu vel til þessarar íþróttar og höfðu jafnvel tekið þátt í alvöru keppni þar. Á þessum boltakvöldum var hvorki spurt um kyn eða aldur, allir voru með sem það vildu og aðrir fylgdust með af áhuga. Þar sem fjölmenni var oft á bæjunum voru lítil takmörk á því hversu margir voru í hverju liði, og lengd leiksins réðist oftast af rökrinu sem færðist yfir þegar leið á kvöldið.
Innarlega á Hveraheiðinni er langur melur, sem sveitungarnir notuðu sem æfingavöll fyrir kappreiðarnar, sem hestamannafélagið Smári hélt hvert sumar í landi Sandlækjar í Eystri hreppnum. Fátt gat komið í veg fyrir að við krakkarnir færum inn á heiði ef við vissum þar af æfingu, þau voru ekki á hverju strái mannamótin, svo hvert eitt var dýrmætt. Svo notuðum við völlinn stundum til einkakappreiða þegar við fórum á hestbak. Það sást ekki þangað að heiman.
Það kom stundum fyrir að Litla Laxá flæddi svo í vorleysingum að húsið heima í Garði varð umflotið og engum fært út. Oftast komst þó pabbi það sem þurfti í klofháum. En við vorum stundum inni heila daga og horfðum á jakana fljóta í kringum húsið. Sandhrúgur og klakahrannir voru svo langt upp á tún þegar sjatnaði í. Það væri gaman að vita hvernig fjölmiðlar nútímans myndu bregðast við álíka viðburði. Ég tala nú ekki um fargið sem viðlaga og bjargráðasjóðir landsins þyrftu að bera gerðist þetta í nútíðinni. Okkur fannst þetta ekkert nema spennandi.
Það bar nokkuð upp á sama tíma, að brúin var byggð yfir ána hjá Gröf og vegur lagður um allt hverfið, og börnin á bæjunum voru komin til þess þroska að vilja kanna heiminn fyrir utan. Síðan hefur byggingum fjölgað og fólkinu með, svo fátt er nú þarna með líku móti og áður . En áin er þarna enn og ásinn líka. Eyrin, mýrin, Hveraheiðin og hvammarnir þar fyrir innan. Gerðið og Ljónastígurinn . Þó að þúfurnar sýnist nú smærri og lækirnir litlir er margt með líku móti og einu sinni var. Grafarhverfið verður alltaf fyrir ofan ána.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Get bara ekki farið að sofa fyrr en ég hef lesið bloggið ,Þetta er ótrúlegga skemmtilegt Kveðja
Guðbjörg Elín (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 22:14
Einhver er nú ritræpan. Ég les þetta allt þó að ég kvitti ekki allstaðar.
GK, 10.10.2007 kl. 23:45
Sæl Helga!
Langar til að kvitta fyrir mig og þakka fyrir bráðskemmtilega og fróðlega pistla. Sérstaklega gaman að lesa frásagnir úr Hreppnum, þekki þar til og þykir vænt um hann. Hafðu það gott!
Kristín Gunnarsdóttir Einarssonar úr Stekkholtinu, búsett í Óðinsvéum.
Kristín (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 08:34
Ég er sammála fyrsta ræðumanni. Ég verð að lesa síðuna hennar frænku minnar einu sinni á dag í það minnsta.
P.s það verður skírn hjá Emil 10.nov kl 14 í Hrunakirkju. Þætti gaman ef þið gætuð komið hjónakorninn þann dag þó að það væri nú ekki nema bara í kaffið á eftir heima hjá mömmu og pabba ef að þið eruð upptekin við annað fyrripartinn. Ég á nú eftir að hringja í ykkur eða kíkja við og bjóða ykkur formlega....
Erla Björg, Vilberg og Emil (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 11:47
Ég hef ómælt gaman af þessum pistlum Helga!
Rúnarsdóttir, 11.10.2007 kl. 13:18
Takk fyrir falleg orð og uppörvandi athugasemdir.
Sérstaklega Kristín - mikið er gaman að fá kveðju frá þér. Þú hefðir nú líka getað sagt að ég hafi verið hjá þér í sundtímum. Vonandi líður þér og þínum vel í Danaveldi. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 11.10.2007 kl. 18:04
Takk. Allt gott úr haustblíðnni í Odense. Af skrifunum að dæma þá hefur verið jafn mikill kraftur í þér í æsku eins og í sundtímunum hjá mér. Það var mikið gott að hafa þig. En þá varstu ekki í 9. bekk.
Kveðja, Kristín
Kristín (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 18:48
Nei í níunda bekk á maður að vera búinn að læra að synda. Samt fer ég enn í sund.
Helga R. Einarsdóttir, 11.10.2007 kl. 20:37
Það hefur verið gott mannlíf þarna á þessum árum.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 14.10.2007 kl. 19:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.