Fjórir krakkar á fjórum árum

Garður var sá bær sem síðast hafði verið byggður í Grafarhverfinu.  Við bakka Litlu Laxár nærri hverahólmanum.   Þar bjuggu Einar Hallgríms og Sigurbjörg Hreiðarsdóttir, foreldrar mínir, með okkur systkinin fjögur fædd á fjórum árum, Helgu Ragnheiði, Örn, Hallgrím og Björn Hreiðar. Svo bættist Eiður í hópinn þegar ég var tíu ára. Við fengum hann fyrst að láni en skiluðum honum svo ekkert aftur. 

Hjá okkur voru kaupakonur á sumrin, en oftast bara ein í einu. Húsrýmið bauð ekki upp á meira og sennilega fjárhagurinn ekki heldur til að byrja með. Gerða var einu sinni hjá okkur í heilt ár, hún var þýsk, en svo fór hún fram að Miðfelli og giftist honum Blomma. Á þeim tíma sváfum við öll í kojum inni hjá mömmu og pabba, það voru bara tvö svefnherbegi.  Svo var ein lítil stofa, eldhús, gangur, klósett búr og geymsla.             Allt var þetta ósköp lítið og það var ekki bað. Okkur var dýft í bala þangað til við gátum farið í laugina, sem var við húsvegginn og mátti kalla góð hlunnindi.

Hjá okkur var eingöngu garðyrkjubúskapur, nema hvað hænum var úthlutað endanum á vinnuskúrnum þegar hann kom til. En þær urðu að minkafóðri með árunum, þrátt fyrir árangursríkar veiðiferðir okkar systkina. Nokkrar kindur fengum við að hafa hjá Jóa í Hvammi, þann tíma sem hann stundaði fjárbúskap, og hest fékk ég í fermingargjöf.    En allt var þetta samyrkjubúskapur okkar og hvammsmanna og kannski til komið af þeim ólæknandi áhuga sem ég hafði á skepnum.

Fyrst eftir að foreldrar mínir hófu búskap fór pabbi stundum á haustin í einhverja vinnu "af bæ" eins og sagt var. Ég man til dæmis að  hann vann við lagningu símans um sveitina, með vinnuflokknum hans "Óla sím", sem var frá Eyrarbakka.

Bílfært var yfir ána hjá Garði og upp Hverabrekkuna að Grafarbakka, en einnig var vegur austur eyri og þar yfir ána upp í Kvíadalinn. Það var hin opinbera leið að Hvammi og Garði, en svo ef áin varð ófær var engum fært til okkar eða frá.

Reyndar var ekki mikið við bílveg að gera, við áttum ekki bíl fyrr en um 1956-8, en eitthvað fyrr komu jeppar að Gröf og Högnastöum, þangað var fært yfir ána frá Grund. En Helgi í Hvammi átti fyrsta jeppann í hverfinu, gott ef ekki sveitinni allri og hvern jóladagsmorgunn kom hann í heimsókn og spurði hvort við ætluðum í kirkju? Auðvitað vissi hann vel að við ætluðum þangað, mamma var í kórnum, en svona bauð hann okkur far með sér í jeppanum. Helgi var sjálfur organistinn í Hruna.

Rútubílarnir komu austan af eyri, en Sigujón bílstjóri sem sá um áætlunarferðirnar til Reykjavíkur gisti alltaf í Hvammi. Svo kom "Guli Halli" og hann var á miklu flottari rútu - gulri. Grafarhverfisferðirnar hafa sennilega komið til af þessari gistingu bílstjóranna, en þær ferðir urðu þó nokkrar.  Þá var öllum íbúum hverfisins troðið í rúturnar - í sunnudagafötunum skiljanlega - það var alltaf farið á sunnudegi og þá voru allir í sunnudagafötum. Tekið var með nesti til dagsins og svo ekið af stað.  Ég man eftir ferð að Gullfossi og Geysi og í annað sinn var farið á Þingvöll - það þótti mikil langferð. Einu sinni fórum við í Fljótshlíðina og svo líka í Þjórsárdal og víðar um Eystri hreppinn..... bara smá eftir - úr þessu hverfi. En sveitin er milklu stærri. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Ég var líka böðuð í bala á gólifnu þegar ég var lítil og pabbi keypti bara bíl til að fara með dót í Langagerði. Bróðir  mömmu átti bilinn með pabba. Þeir byggðu báðir þar og bílinn var svo fronfárlegur að hann var með sveif á framan til að segja hann í gang. Hann var bara notaður í stuttan tíma og pabbi átti svo ekki bíl fyrr en 1966

Jórunn Sigurbergsdóttir , 14.10.2007 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband