9.10.2007 | 21:12
Þá var túnið slegið með hestum og sofið í hlöðunni
Næsta þrep á eftir Tanna var Gamli Rauður. Hann var líka vagnhestur og dró sláttuvélina með Tanna. Fyrst þegar ég man var allt slegið með hestasláttuvél, traktor var ekki til í Hvammi fyrr en seinna. Gott ef jeppinn var ekki notaður þar á milli. Galtar voru hlaðnir á túnunum og svo dregnir uppá vagn. Svo var dregið af vagninum inn í hlöðuna. Þá var allt hey laust, grænt þurrt og ilmandi. Mikið óskaplega var gaman að leika sér í hlöðunni. Grafin ofaní ilmandi heyið á meðan rok og rigning buldi á hlöðuþakinu, það var ekki slæmt. Stundum fengum við meira að segja að sofa í hlöðunni. Aumingja krakkarnir í nútímanum sem ekki þekkja heyið öðruvísi en í rúllum. Við fengum alltaf að vera með í heyskapnum, auðvitað ekki til nokkurs gagns, en það var bara svo gaman. Það var alveg ótrúlegt hvað bræðurnir Jói og Kjartan voru þolinmóðir þegar við eltum þá við útiverkin nærri því árið um kring.
Já Gamli Rauður - hann gat átt það til að hraða ferðinni. Ég man að ég fór einu sinni á honum í réttirnar sem voru þá fyrir framan Túnsberg. Þá hafði hann náð upp svo mikilli ferð þegar þangað kom að ég flaug framaf þegar hann staðnæmdist við réttarvegginn.
Réttirnar voru svo fluttar austur yfir ána og í Hrunavöllinn. Gömlu réttirnar voru hlaðnar úr grjóti, mér er sagt að ég færi þangað fyrst tveggja ára gömul á háhesti pabba. Það er dálítill spotti að ganga, inn yfir Hveraheiðina og svo inn með ánni. Nautagirðingin var hinumegin við ána. Eins gott, því þar voru um sumartímann skelfileg bölvandi naut sem gátu kannski sloppið út ef það sá krakka álengdar. Sæðingamennirnir voru ekki fundnir upp fyrr en löngu seinna.
Næsti reiðskjóti var svo Jarpur og mig minnir að hann væri bara þokkalegur reiðhestur. Á svipuðum tíma var svo hægt að fara á bak henni Jörp, en hún var alltaf heldur leiðinleg til reiðar, oftast með folald í eftirdragi og hin versta frenja í skapinu. Sló og beit ef færi gafst. Toppurinn á þessum árum var svo Jóa Rauður, sem enginn fór á bak fyrr en hann taldist sæmilega hestfær.
Síðan tóku við aðrir og er þá Gustur mér efst í huga. Okkur kom alltaf ljómandi vel saman, þó hann væri ekki allra. Þegar ég man fyrst var hundur í Hvammi sem hét Snati, svart og hvítflekkóttur. Hann varð óskaplega gamall og gat undir það síðasta varla komist upp brekkuna ef honum varð það á að staulast niðureftir.
Það var heilmikil garðrækt í Hvammi, bæði í görðunum heimavið og svo kartöflur austur á eyri. Helgi og pabbi voru í upphafi saman með gróðurhúsið sem seinna tilheyrði Garði og eftir það var ekki gróðurhús í Hvammi fyrr en bræðurnir tóku þar við búi.
Að vísu var lítið uppeldisgróðurhús undir fjósveggnum, það fyrsta sem byggt var í hverfinu og þar voru stærstu kóngulær sem ég hafði þá séð. Nú eru þær víða til og heita víst Krosskóngulær. Fyrir framan bæinn voru myndarleg reynitré. Ég taldi mér trú um að þau hefðu verið fluttt frá Hvammi í Dölum, en kannski komu þau bara frá Hruna eða jafnvel voru þau komin alla leið frá Danmörku. En Helgi hafði átt heima í Dölunum í barnæsku og á þessum árum lærði ég að þekkja þá sveit sem fjarlægan sælureit.
Það var póstafgreiðsla í Hvammi og þar hafði rútubílstjórinn aðsetur. Þá var farið til Reykjavíkur á einum degi og komið til baka þann næsta. Vegurinn lá um Kvíadalinn og þar var ekið yfir ána - væri hún fær.
Ég gæti víst endalaust skrifað um þetta óðal æskuáranna, en nú enda ég með myndum. Önnur er ný og sýnir leiðina inn að gömlu réttum. Hveraheiðina með fjárhúsinu sem þar var byggt þegar kindurnar komu, þá fékk ég að eiga nokkrar og taka þátt í búskapnum. Skeiðvöllinn innst á heiðinni, þar hleyptum við stundum gæðingunum - og sást ekki til okkar að heiman. Þarna var nautagirðingin við ána og það sést bæði til gömlu réttanna og nýju. Berghylsfjallið og bærinn á Berghyl, þar sem ég fór tíu ára á hrútasýninguna á nýja Ferguson traktornum hans pabba, með Erni og vini hans , sem nú er húsbóndinn á mínu heimili. merkilegt að ég skyldi fá að fara með - þeir reyndu alltaf að stinga mig af.
Hin myndin er af mér og einni kaupakonunni á hestbaki, gamli bærin í Hvammi er uppi í brekkunni. Seinna brann þetta hús og var þá byggt upp aftur með því móti sem nú er.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Skemmtilegir pistlar þínir, Helga R, með hæfilegum fortíðarsöknuði. Kannski er best að halda sig á þessum nótum. Af ýmsu er að taka. Prófaði í gær að vita á mínu bloggi hvort hægt væri að æsa lýðinn með því að gera lítið úr því sem dagurinn stendur á öndinni yfir. Veiddi aðeins þrjá. Fjórði skildi plottið.
Kveðja í bæinn
Sigurður Hreiðar, 10.10.2007 kl. 09:36
Gaman af þessu Helga mín og ég er viss um að þú ert ljóshærða stelpan á myndinni.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 10.10.2007 kl. 14:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.