7.10.2007 | 20:22
Rotturnar voru jarðsettar með viðhöfn
Hvammur var byggður úr landi Grafar og þar bjuggu á þessum árum Elín, dóttir Guðjóns, og Helgi Kjartansson frá Hruna. Þeirra börn vor Jóhannes, Kjartan og Guðrún. Þar að auki var yfirleitt vinnufólk á heimilinu mest þó yfir sumartímann.
Í Hvammi voru hestar og kýr, seinna komu líka svín og kindur. Svo man ég þegar í bústofninn bættust hænur - aldeilis makalausar hænur. Allar hænur sem við höfðum þekkt til þessa voru venjulegar mislitar eða hvítar hænur, en þessar voru aldeilis allt öðruvísi. Þær voru allar brúnar og þær voru frá útlöndum, alla leið frá Ítalíu. Þetta voru ótrúlegar hænur. Reyndar efast ég um að þær hafi komið alla leið frá Ítalíu en merkilegar voru þær samt. Þetta hænsnakyn hét "Brúnir Ítalir".
Þær voru settar í svartan hænsnakofa sem var sérstaklega byggður fyrir norðan fjós. Það var við hliðina á rottukirkjugarðinum þar sem við jörðuðum haughúsrotturnar. Það voru rotturnar sem við höfðum áður setið og horft á leika sér í haughúsinu. Tímunum saman gátum við setið á þúfum fyrir utan haughúsopið og fylgst með þeim dansa þar inni. En svo fannst fullorðnum þær orðnar of margar og það var eitrað. Þá tókum við að okkur útfararþjónustuna.
Á þessum árum vorum við systkinin börnin í hverfinu, ásamt Áshildi í Gröf og Dóru á Högnastöðum. Í Hvammi voru allir eldri en við, nema börnin sem komu þar til sumardvalar. Mér varð brekkan létt upp að Hvammi og mig grunar að svo lengi sem ég hafði ekki skyldum að gegna heima hafi ég verið oftar þar efra. Í brekkunni fyrir ofan bæinn var stór trjágarður sem Helgi hafði plantað og svo annar minni fyrir norðan fjós. Fyrir ofan bæinn var vindmylla sem framleiddi rafmagn, tröppur voru upp eftir öllum mylluturninum og þyrftum við á því að halda að sýna okkur - fyrir utanaðkomandi krökkum til dæmis, klifruðum við þar gjarnan upp í topp. Litill kofi var uppi í brekkunni, Gunna átti hann og finnst mér ekki ósennilegt að "afi í Gröf" hafi smiðað þetta hús fyrir afastelpuna sína.
Húsið í Hvammi var stórt og með sérstöku sniði. Tvær stórar bustir og tenging á milli. Í kjallaranum var smíðahús Guðjóns, þvottahús, eitt íbúðarherbergi og svo mjólkurhúsið. Á hæðinni var eldhús, búr, borðstofa og tvær stofur, en síðan svefnherbegin fimm uppi á lofti. Í millibyggingunni var geymsla fyrir allt mögulegt og smiðjan bakatil. Þar smíðaði Helgi úr járni, skeifur og þess háttar. Fjósið og hlaðan voru svo í norður risinu, haughúsið undir og óinnréttað loft fyrir ofan. Þar höfðu einu sinni verið hænur en ég kynntist þeim ekki, en loftið var kallað "hænsnaloftið"........
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kvitt...
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 7.10.2007 kl. 22:07
Helga ég fer aftur í tímann þegar ég les þetta. Mikið er alltaf gaman að lesa minningarnar þínar.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 7.10.2007 kl. 23:03
Ég held satt að segja að " líkið" af vindmillunni standi enn fyrir ofan Hvamm. Ég man eftir því að okkur var bannað að klifra í þessu þar sem að þetta var orðið svo gamalt og járn stiginn gæti dottið hvenær sem er. En að sjálfsögðu klifruðum við í þessu þegar að við vorum í feluleik t.d. Ég gerði einu sinni þá vitleysu þegar að aðrir klifruðu upp í milluna að klifra upp í grenitré sem er í trjágarðinum sem Helgi plantaði. En það er lítið mál að klifra upp i grenitré.. vandamálið hefst ekki fyrr en maður þarf að fara niður, því þá snúa greinarnar frekar á móti manni. Leit líklega út eins og nálapúði þegar að niður var komið. Þetta tré var alveg gríðarlega hátt á þessum tíma og er líklega orðið enn hærra núna ég var liklega ekki nema um 8-9 ára.
Ekki getur verið að þessi kofi sem hænurnar voru í hafi seinna fengið það hlutverk að vera búið okkar "nokkrum árum seinna".. með viðeigandi drullumalli og sulli?? Við kölluðum þann kofa grísó.. veit ekki afhverju.
Erla Björg, Vilberg og Emil (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 11:54
Erla Björg - ég held að þú talir um allt annan kofa. Sjáðu til, þarna er heill mannsaldur á milli. Svarti kofinn hrundi fyrir langa löngu svo best ég veit og ég "fatta" ekki þann kofa sem þú talar um. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 8.10.2007 kl. 19:21
Þessi umræddi kofi er fyrir ofan " pökkunar skúrinn hjá Björgu "þ.e milli skúrsins og vegarinns upp fyrir hlöðuna. Já ég geri mér nú alveg grein fyrir því að það er "smá" aldursmunur á okkur svo að þetta getur nú alveg staðist að þessi hænsnakofi sé ekki til.. en ég hef aldrei séð tilgang með þessum kofa sem við kölluðum Grísó. Nema þá helst til að ala upp stóru köngulærnar sem sækja á þessa staði, svo að mér datt þetta í hug.
Erla Björg, Vilberg og Emil (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 21:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.