7.10.2007 | 10:12
Epli frá Danmörku
Í blágresisbrekkunni austan og neðan við Högnastaðabæinn átti hún Thyra Loftson sumarbústað, sem þar af leiðandi var kallaður Týrubústaður.
Thyra átti þennan bústað ekki ein, maðurinn hennar hét Pálmi Loftsson og þau áttu dóttur sem hét Björg. Týra, eins og við kölluðum hana, var tannlæknir og þar að auki dönsk. Hún gaf okkur gjarnan epli ef við komum þar í sendiferð. Oftast voru þau orðin hundgömul og hálfónýt, en það þótti okkur ekki nema eðlilegt, það er löng leiðin frá Danmörku, og við borðuðum þau með bestu lyst. Þetta voru þó epli og ekki von á öðrum fyrr en á jólunum.
Bústaðurinn var eingöngu notaður á sumrin og þegar árin liðu var minna um hann hirt. Að síðustu kom bara Björg í snöggar helgarferðir með öðrum unglingum, sem mundu svo ekki alltaf eftir að loka á eftir sér þegar heim var haldið. Það leiddi svo til þess að við hverfiskrakkarnir fórum að laumast þarna inn og þótti það hið mesta glæfraspil og launungarmál ef við gátum hvíslast á um það að við hefðum komist inn í Týrukofa í skjóli myrkurs. Ég man ekki eftir að við skemmdum neitt, enda var bústaðurinn þegar hér var komið auður og yfirgefinn, en auðvitað áttum við ekkert að vera að fara þarna inn.
Nú röltum við inn eftir götunni sem liggur utaní ásnum ofan við Klapparhylinn. Eins og allir vita er sá hylur í Litlu Laxá og hefur oft gefið góða veiði.
Þetta er eiginlega bara göngustígur, í mesta lagi fært með hest fyrir vagni. Þarna var ekki farið á bílum, enda lítið um þá í hverfinu. Þetta er leiðin sem hann afi í Gröf gekk á hverjum degi á leið í smíðahúsið sem var í kjallaranum í Hvammi. Hann Guðjón gamli var nefnilega listasmiður.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nú veit ég af hverju kofinn er kallaður Týrukofi...
Þetta er frábært kennsluefni hjá þér
.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 7.10.2007 kl. 11:17
Hér sé Guð.
Katrín Karlsdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 11:43
Ég man eftir Týru af orðspori. Hún var tannlæknir Miðbæjarskólans sem er bið tjörnina og vinkona mín sagði mér frá henni og var hrædd bið tannlæknirinn. Krakkarnir kölluðu hana Týru tönn.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 7.10.2007 kl. 12:52
Góðir skammtar. Langar að bæta sinn sögu af Týru og Pálma sem mér þótti býsna fyndin þegar ég var lítill og rifja stundum upp mér til skemmtunar.
Týra og Pálmi notuðu lengi vel rútuna til að komast í Týrukofa og örugglega allan þann tíma sem Sigurjón var með rútuna. Sigurjón gisti -- líklega oftast? -- í Hvammi og þaðan var upphafsstaður fyrir Grafartorfuna þegar farið var suður.
Einn morgun suðurferðar var eitthvað af fólki komið í rútuna og þar með Týra. Sigurjón kom og fór að rukka fargjaldið en það var skuggsýnt og erfitt að telja krónur og aura. Svo hann lítur í kringum sig í bílnum og segir svo: „Getur ekki einhver lánað mér einhverja helvítis týru?“ Mig minnir að það hafi verið Týra sem dró vasaljós upp úr skjóðu sinni og rétti Sigurjóni. Sem hann kveikti á ljósinu og lýsti á peningana sem hann var með sagði hann, með sínu kankvíslega lagi: „Já, nú hef ég Pálmann í höndunum!“
Ég held að heimildarmaður minn að þessari sögu hafi verið Einar í Garði.
Aðra sögu á ég til að beinum samskiptum mínum og Týru en geymi hana til betri tíma.
Kveðja í bæinn
Sigurður Hreiðar, 7.10.2007 kl. 20:00
Allt rétt um Sigurjón frændi, en í minni sveit töluðum við ekki um "torfu" heldur "hverfi". kv.
Helga R. Einarsdóttir, 7.10.2007 kl. 22:37
Og með þessi beinu samskipti - voru þau kannski of sársaukafull til að þig langi að rifja þau upp? Takk fyrir skemmtilegt innskot. aftur kv.
Helga R. Einarsdóttir, 7.10.2007 kl. 22:39
Nei, þessi beinu samskipti voru ekki sársaukafull, ekki fyrir mig amk. En einu sinni var ég á ferð upp í Ytri hrepp ásamt félaga mínum, á Land Rover sem hann átti. Þetta hefur trúlega verið sumarið 1960 -- skakkar varla meira en ári eða svo.
Ofarlega á Skeiðum drógum við uppi fólksbíl sem fór afar hægt. Ökumaður var greinilega einn í bílnum og taldi sér best borgið á miðjum vegi. Félagi minn leitaði iðulega lags að komast fram úr og gaf kurteisleg hljóðmerki en kom fyrir ekki.
Þegar kom yfir brúna á Stóru Laxá fór minn maður að ókyrrast og hljóðmerkin hættu að vera yfir sig kurteisleg. Þá, allt í einu, er nauðhemlað á fólksbílnum fyrir framan okkur, enn á miðjum vegi, og það svo snöggt að félagi minn Landróverstjórinn mátti beygja snöggt til vinstri (þetta var í vinstri umferð, vel að merkja) og fara allutarlega út í kantinn til að lenda ekki aftan á drossíunni, þannig að opinn gluggi mín meginn varð nokkurn veginn á par við framdyr drossínunnar.
Sem lukust upp af skyndingu og út sté kona nokkuð við aldur og ekki mjög tískuklædd, og greinilegt að henni var mikið niðri fyrir. Hélt snöggan fyrirlestur á dönskuskotinni íslensku um ókurteisa strákabjálfa sem geystust um þjóðvegina eins og þeir ættu þar einir tilverurétt. Í lokin kom hún okkur þó á óvart með því að segja, efnislega, að þessir vegir byðu ekki upp á framúrakstur og ef herskapinu þóknaðist að fara fram úr bíl hennar yrði annar hvor okkar að gera svo vel að setja þar undir stýri og þoka bílnum til hliðar meðan Landróverinn færi fram úr, en vessgú skila drossíunni aftur upp á miðjan veg!
Það varð úr að ég fór í bíl frúarinnar og gerði sem fyrir mig var lagt og skilaði honum aftur vel á miðju og skildist þar við frúna með fögrum orðum og held að við höfum skilið nokkuð sátt.
Ég get með sanni sagt að þetta er merkilegasta framúrtaka sem ég man eftir að hafa átt hlut að á rúmlega hálfrar aldar akstursferli.
En það sem ég skammast mín fyrir að muna ekki með nokkru móti hvaða tegund drossían var. -- Getur þetta hafa verið skódi? Kannski blöðruskódi?
Kveðja í bæinn
Sigurður Hreiðar, 7.10.2007 kl. 23:14
Heyrðu -- og fyrirgefðu þetta með torfuna…
Sigurður Hreiðar, 7.10.2007 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.