7.10.2007 | 09:36
Hvers vegna geta hænur ekki flogið?
Högnastaðabærinn stóð fremst á Högnastaðaásnum, háreist hús, kjallari hæð og ris. Eldhúsið var í kjallaranum og þar man ég eftir mér við langt borð, voxdúklagt með mjólkurglas og kleinur fyrir framan mig. Engin var sú sendiferð að ekki væru manni boðnar góðgjörðir og fimm ára stelpa í eggjakaupaleiðangri afþakkaði ekki slíkt boð. Eggin voru keypt á Högnastöðum af því að þar voru á þessum tíma einu hænurnar í hverfinu.
Eitt sinn skiluðum við Örn okkur ekki úr eggjakaupaferð og þegar eftir var leitað vorum við löngu farin frá Högnastöðum. Var nú hafin leit og þótti næsta víst að angarnir litlu, fjögurra og fimm ára hefðu lent í villu. Þegar leitin stóð sem hæst heyrði Kristbjörg á Högnastöðum einhvern hávaða í hænsnakofanum og datt í hug að minkur væri þar á ferð. Þegar hún kom inn fann hún "vesalings týndu" börnin sem voru önnum kafin við að kenna hænunum hennar að fljúga. Tóku hverja af annarri fóru með þær á einhvern stall eða kassa og létu svo detta. Einhver vængjatök voru þá tekin sem þótti gott. Þetta voru einu fuglarnir sem við höfðum séð sem ekki fengu tækifæri til að fljúga.
Hjónin á Högnastöðum hétu Kristbjörg Sveinbjörnsdóttir og Guðmundur Guðmundsson. Dætur áttu þau fjórar, Ástu, Sigrúnu, Ingibjörgu og Halldóru, sem var yngst og jafnaldra mín. Þess vegna var mörgum sunnudögum eytt á þessum bæ. Aðeins man ég eftir Ingibjörgu gömlu, sem var móðir Guðmundar. Hún sat og prjónaði á rúminu sínu í enda stofunnar uppi. Svo var þarna gömul kona sem var kölluð Tobba, Þorbjörg hét hún víst og var vinnukona, sem ég efa þó að hafi fengið meiri laun en fæði og húsnæði. Ég man að hún sat ekki til borðs með heimilisfólkinu heldur sat hún ein við endann á eldhúsbekknum. Hún bar þvottinn niður að hverahólmanum, þvoði þar og bar til baka - blautan, jafnt sumar sem vetur.
Þarna voru af augljósum orsökum engar kaupakonur á sumrin. Það var búið með kýr og kindur, auk hænsnanna og svo áttu Högnastaðir gulrótagarð og gróðurhús uppi við hverahólmann og hitarétt þar.
Ég man eftir hundi á Högnastöðum, sem í okkar munni hét Kópi. Kópur er nú líklegra að hafi verið hans rétta nafn, hann var gráyrjóttur, töluvert loðinn og ekki vinsæll meðal barna.
Við litum dálítið upp til Högnastaðasystra, þær voru líka flestar eldri en við og mikið rosalega var hún Inga orðin fín kona þegar búið var að ferma hana. Í háhæluðum skóm og allt. Dóra átti hjól áður en okkur dreymdi um slík tæki og hún leyfði okkur að njóta góðs af því. Á hennar hjóli lærði ég á meðan hún reytti gulrótagarðinn með systrum sínum.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nú veit ég af hverju gulrótagarðurinn við hverahólma var kallaður Tobbugarður
.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 7.10.2007 kl. 11:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.