7.9.2007 | 23:14
Er löggan ekki að standa sig?
Undanfarna daga hef ég hugsað til löggunnar, kannski meira en góðu hófi gegnir. Lögreglumenn eru margir fjallmyndarlegir, en ekki þó svo að maður hugsi til þeirra oft á dag.
Ég held að skömmu fyrir skólabyrjun hafi ég lesið eða heyrt að fyrstu vikur skólaársins myndu lögreglumenn verða á ferðinni nærri skólunum, til þess að gæta þess að allt fari nú fram samkvæmt lögum og reglum. Nú hefur skólinn starfað nærri þrjár vikur og ég hef séð eina löggu. Það var reyndar inni í skólanum, ég veit ekki hvert erindið var.
En úti á götunum sem liggja næst skólanum okkar og svo nærliggjandi plönum geysar akstursíþróttakeppni af verstu sort, algerlega án afskipta laganna varða. Um hábjartan daginn, þegar skólinn er fullur af krökkum fer þarna fram spyrnukeppni og sýningar, þar er reykspólað með viðeigandi hljóðum og brunalykt og reykjarmökkinn leggur yfir skólalóðina. Hraðakstur er bara sjálfsagður bónus á milli atriða. Allt er þetta auðvitað miklu betur gert og áhrifameira vegna þess fjölda áhorfenda sem er í gluggum eða lóð skólans. Skiptir ekki máli þó áhorfendur séu að meiri hluta undir tólf ára aldri, ökuþórarnir eru líklega að einhverju leiti enn á svipuðu þroskastigi.
Allt fer þetta fram án þess að nokkur geri athugasemd, helst kannski að mömmur og pabbar kveinki sér, þau verða að standa straum af dekkjabræðslunni.
Fyrir utan þetta er svo spólið og fretið um nætur. Um allan bæ er þetta stundað, að því er virðist óátalið, ekki bara stutt og lítið, heldur tímunum saman.
Ég bara get ekki orða bundist: Hvað í ósköpunum er löggan á Selfossi að gera alla daga og nætur? Það er ekki nóg að rjúka til og hirða nokkra gæja og skamma þá, hviss, bang, búmm - búið! Það verður að vera á stöðugri vakt, vera á ferðinni, láta sjá sig, svo allir viti að það er starfandi lögregla í bænum.
Eitt enn sem ég hef reyndar hugsað lengi. Stundum er talað um að virðing fyrir lögreglunni fari minnkandi. Ég er alveg viss um að það varð fyrst áberandi eftir að fötunum þeirra var breytt. Mér finnst bara ekkert virðulegt við húfupottlokin sem þeir bera núna, og reyndar, allur klæðnaðurinn gæti eins verið á - bara enhverjum - kalli sem les af fyrir hitaveituna, eða áhrifalausum eftirlitsmanni frá heilbrigðiseftirlitinu. Þetta finnst mér alla vega.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Heyr heyr!
Josiha, 8.9.2007 kl. 00:19
Þetta með virðinguna, mér finnst nú varla merkjanlega borin virðing fyrir nokkrum sköpuðum hlut nema þá helst köllum sem eru úttroðnir af peningum.Ég býst við að það séu einhverjar konur í þeim hóp það fer bara minna fyrir þeim enda trúlega mun færri. Má ég svo benda þér vinsamlegast á Helga mín að - að einhverju leyti er með Y en á næsta leiti er með i. Þetta eru reyndar smámunir - og þó. Kveðja,
Gunný (IP-tala skráð) 8.9.2007 kl. 09:19
Takk Gunný, ég var búin að skrifa hitt en fór svo að hugsa, sem aldrei skyldi verið hafa. Að þessu leyti finnst mér gott að hafa frændur og frænkur á næsta leiti. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 8.9.2007 kl. 09:30
Ætli að þetta sé ekki tímana tákn þetta með virðinguna og virðingarleysið. Kannski var þetta bara líka of mikið í hina áttina þegar við vorum litlar. Ég man að ég var hálf hrædd við löggur, það er að segja virðingin var svo mikil þegar ég var lítil að það var eins og þeir væru ofurmannlegir.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 8.9.2007 kl. 11:25
Það hryngdi lögga í mig í gærkvöldi og ég varð ekkert hrædd!
mýrarljósið (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 21:27
Þetta var ekki mín lögga. Ég vænti þess að þú hafir tekið þessa löggu tali sem þú sást í skólanum um daginn?
mýrarljósið (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 21:29
Jú égheilsaði þeirri löggu, en ég veit líka að "hún" á ekki sök á þessu, þetta er skipulagsatriði.kv
Helga R. Einarsdóttir, 10.9.2007 kl. 08:35
Komdu sæl Helga mér ofbauð þetta blogg þitt sem ég las í Dagskránni. Ef þú ætlar að fjalla um þetta mál málefnalega þá skaltu kynna þér ýmis smáatriði áður en þú skrifar og birtir svona bull. Ég veit ekki hvort þú þekkir eitthvað til í löggunni en það geri ég.
Þó svo að lögreglustöðin sé staðsett á Selfossi þá sinnir löggan eftirliti við alla skóla í Árnessýslu en ekki bara við Vallaskóla á Selfossi. Ég sem vegfarandi og foreldri hef séð lögreglu á vakt nú í haust við Vallaskóla og þá oftar en einu sinni. Ég aftur á móti sá enga gangbrautaverði eða starfsmenn skólans taka á móti börnunum. Kannski eigum við bara að fá lögguna í það líka? Ég spyr líka er eðlilegt að hámarkshraðinn við Vallaskóla sé 50 km?
Þú Helga sem starfsmaður Vallaskóla hlýtur að vita það að löggan er með fræðslu fyrir börnin okkar á haustin í skólunum í sýslunni og það mjög sennilega skýringin á því að þú sást löggu í skólanum þínum.
Þú veist það sjálf að þessir ágætu menn sem spóla hér um allan bæ gera það ekki fyrir framan lögreglustöðina og því ekki hægt að ætlast til að löggan sé allsstaðar. Og ef þú ekur um Selfossbæ þá sérðu oft löggubíl vera að stöðva sportbíla bæjarins.
Svar við því hvað í ósköpunum löggan á Selfossi (Árnessýslu) er að gera alla daga og nætur þá segi ég bara skoðaðu landakortið manneskja og hættu þessu bulli. Selfoss er ekki miðpunktur alheimsins og það býr fólk t.d. á Flúðum líka.
Varðandi fatnað löggunar þá held ég að hann sé mun þægilegri nú í dag heldur en hér áður fyrr og satt er það hjá þér að sá gamli var nú virðulegri. Virðingaleysi er orðið mikið í dag og þá ekki bara fyrir löggum og það ættir þú að finna fyrir í starfi þínu.
Með kveðju.
íbúi í Árnessýslu (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 20:08
Takk fyrir athugasemd og ábendingar kæri íbúi. Ég efast ekki um að þú hefur rétt fyrir þér í mörgu. En aðeins eitt - ég veit ekki betur en hraðatakmörk á götum næst skólanum hafi nýlaga verið samþykkt 30 km. en ekki tekist að koma upp viðeigandi merkingum enn.Og varðandi hávaðaspól um nætur þá fer það fram miðja vegu á milli mín og lögreglustöðvarinnar og mér er oft ekki svefnsamt.
Helga R. Einarsdóttir, 13.9.2007 kl. 20:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.