1.8.2007 | 21:07
Svo var sótt á dýpri mið
Við fórum bara einu sinni í útilegu í Haukholtagili. Næsta ár vorum við 15 ára og fórum víst ekki neitt, en þar næst 16 ára og búnar að vera í Skógaskóla fannst okkur ekki lengur spennandi að fara bara eitthvað til að sofa í tjaldi. Það fréttist að fólk sem vildi sýna sig og sjá aðra færu gjarnan í Þjórsárdalinn um verslunarmannahelgi.
Engan þekktum við þó sem þangað ætlaði, og það var eins og áður, spurningin um heyskapinn og þurrkinn. En síðdegis á laugardegi lagði pabbi af stað með okkur, nú bara tvær og stefnan var tekin á Eystri - hreppinn. Þetta var töluvert ferðalag á þessum árum, vegurinn bara einföld malargata og jeppinn fór ekki í loftköstum. En í Þjórsárdalinn komumst við og fórum þá að líta í kringum okkur eftir tjaldstæði. Eitthvað var af tjöldum við ána fyrir neðan Ásólfsstaði, en ekki hentaði það nógu vel. Þar gat verið eitthvað ókunnugt fólk og jafnvel fyllibyttur frá Selfossi. Við fórum í gegnum hliðið, sennilega landamæri Ásólfsstaða og Skriðufells. Eftir hliðið kom svolítil beygja og þá vorum við komin í hvarf frá öllu og öllum. Þarna í litlu rjóðri komum við okkur svo fyrir og pabbi fór aftur heim.
Ekki fer neinum sögum af því sem við gerðum þarna. Örugglega höfum við fengið okkur að borða og svo bara setið og spjallað. Við kunnum ekki að gera neitt annað í útilegu. Hvernig sem það gerðist þá fundumst við þegar líða tók á kvöldið. Við vorum svo heppnar að það voru strákar úr okkar eigin sveit sem það gerðu. Þeir voru á bíl og buðu okkur nú með á ball í Ásaskóla. Hundaheppni! Ballið var örugglega ágætt og svo var okkur skilað aftur í tjaldið. Strákarnir fóru og við höfðum engar áhyggjur af hvort þeir voru í tjaldi eða fóru heim. En þeir komu aftur daginn eftir og þá fórum við öll í miðdagskaffi hjá henni Dísu á Skriðufelli. Dísa var frúin þar og hún seldi kaffi um svona helgar. Í stofunni sinni dúkaði hún borð og seldi kaffi, krökkum úr Ytri- hreppnum sem létu alveg eins og kjánar. Enda drukku þau ekki kaffi, fengu bara ógerilsneydda mjólk með kleinunum og jólakökunni. Pabbi slapp víst við að sækja okkur, strákarnir sáu um að koma okkur heim. Getur verið að pabbi hafi alltaf uppljóstrað hvar við værum, svo hann þyrfti ekki að tefja sig á að ná í okkur? Á mánudegi var skorið kál og gulrótum pakkað í ómældu magni eins og alla aðra mánudaga í ágúst. Við vorum ekki verslunarmenn.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 197627
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ja hérna...enginn bjór og neonljós?
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 1.8.2007 kl. 23:59
Upprifjanir þínar á verslunarmannahelgum unglingsáranna vekja með manni fortíðarsöknum -- ekki af því að þá hafi allt verið svo gott og gaman heldur af því einmitt að svo margt sem átti að vera svo gott og gaman var það í rauninni alls ekki.
Ég kann vel að meta tregablandnar upprifjanir af þessu tagi og líklega við Íslendingar almennt -- sjáum bara hve margir lesa dánarminningar.
Mbk.
Sigurður Hreiðar, 2.8.2007 kl. 08:59
Ball í Ásaskóla? Það hlýtur nú að hafa verið gott og gaman, trúi ekki öðru! Takk fyrir skemmtilega sögu ...
Rúnarsdóttir, 2.8.2007 kl. 11:00
Gaman af þessu. Þú hefur átt góðan pabba og eitt er víst að hann hefur vitað að það var allt í lagi með þessa stráka.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 2.8.2007 kl. 23:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.