28.6.2007 | 21:17
Sírenuvæl oft á dag
Hvernig stendur á þessu? Á síðasta ári - ég fullyrði það og er ekki ein um þá skoðun. Á síðasta ári hefur sírenunotkun sjúkra og lögreglubíla hér á Selfossi aukist svo að það er bara hreint ekkert eðlilegt. Lögregla og sjúkraflutningar hafa alltaf verið hér í bænum - slökkviliðið líka svo engin breyting á staðsetningu orsakar þetta.
Áður heyrði maður kannski í sírenu svona einu sinni í viku, ég segi nú bara svona til samanburðar, og þegar það gerðist var næsta víst að fljótlega fréttist af slysi, dauðsfalli eða eldsvoða. Nú líður ekki sá dagur að ekki bresti á með magnað sírenuvæl, yfirleitt oftar en einu sinni á degi hverjum. En sem betur fer fylgja sjaldnast tíðindi af stórslysi. En þetta er óþægilegt, maður tengir þessi hljóð við slæm slys og manni bregður.
Ég hef heyrt því fleygt að það hafi orðið áberandi breyting þegar sjúkraflutningarnir færðust frá lögreglu til einhverra annarra, sem ég kann ekki að nefna. Einhverjir töffarar séu komnir í þá flutninga sem kunni ekki með hljóðmerkin að fara. Ég veit það ekki, mér finnst þetta líka koma frá löggubílunum.
Ég ætla að segja eina dæmisögu sem ég þó veit ekki hvernig byrjaði eða heldur hvaða endi hafði, en þetta atvik leit undarlega út í mínum augum og örugglega annarra sem urðu vitni að því. Einn laugardag í vor lögðum við hjónin af stað í sveitina eftir hádegið kát og glöð á okkar fjallabíl. Við vorum komin skammt austur fyrir mjólkurbú og umferðin var bara svona í meðallagi, tveir eða þrír bílar á undan með löngu bili á milli og enginn á verulegri ferð. Það kom bíll á eftir okkur á töluverðri ferð og fór framúr, löggubíll. Allt í lagi með það, hann gat verið að flýta sér meira en við. Þegar hann var kominn framúr næsta bíl setti hann ljós og sírenu á og hvarf svo á örskotsstund öllum sem á undan voru. Örugglega bílslys einhversstaðar datt okkur í hug, og héldum áfram á sama hraða. Þegar við komum að vegamótunum að Þingborg hafði kauði lagt bílnum þar í heimkeyrslunni, sat hinn rólegasti, einn í bílnum, og talaði í símann. Það var ekkert annað um að vera á flóaveginum svo langt sem víð sáum?
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.8.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 197631
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ökuníðingur?...maður spyr sig
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 29.6.2007 kl. 00:22
Hef tekið eftir þessu í rvk líka. Þó er auðvitað sírenuhljóð þar á hverjum degi. En maður sér oft löggubíla o.fl. svona sírenubíla skella sírenunni á til að komast framúr og fara yfir á rauðu og svona, taka svo sírenuna og ljósin af og keyra hinir rólegustu.
Ninna (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 02:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.