31.5.2007 | 20:07
Skólaferðalögin
Nú er ég í 8. bekk og fór í vorferðina í dag. Með hverju árinu sem líður kynnumst við nýjum leiðum, öðrum stöðum og fleiri sögum. Ég hef farið í Þrastaskóg, í Stokkseyrarfjöru, austur að Skógum, í Paradísarhelli, í Seljavallalaug og í Þórsmörk.
En áttundi bekkur fer á Reykjanesið. Við fórum í dag útúr hringtorginu við Hveragerði og um Ölfusið út með hlíðum Heiðarinnar. Við vorum í rútu sem líklega tók alveg 60-70 manns, sem sagt - rútubíl af stærstu gerð. Fyrsti viðkomustaður var við Strandakirkju, það var sól og blíða og nestið var borðað þar. Svo fórum við um slóðir væntanlegs Suðurstrandavegar og sáum reyndar stikur í hrauninu sem sýndu að þar væru framkvæmdir í bígerð.
Leiðin lá svo um Krísuvík og að Kleifarvatni þar sem krakkarnir hlupu að vatninu, leið sem nú er nokkuð lengri en einu sinni var. Þar var farið að kula og draga fyrir sól, líklega þess vegna voru þau nokkuð færri en við áttum von á sem fóru úr skóm og sokkum til að sulla. Eftir að við fórum svo af stað aftur fór rútan að stynja og hiksta í brekkunum og endaði með að hún gafst upp í einni nokkuð brattri.
Bílstjórinn, sem var stúlka, smávaxin og barnaleg svo sumum þótti nóg um, gat þó komið druslunni í gang aftur og upp á brekkubrún. Eftir dálitla stund þegar við vorum komin á veginn sem liggur til Bláfjalla sagðist hún þurfa að stoppa aðeins til að hreinsa gruggkúluna. Hún fór svo út, en kom strax inn aftur og sagðist þurfa smá aðstoð, sem ég var tilbúin að veita. Ekki vissi ég þó áður að ég kynni nokkuð til rútubílaviðgerða. Við fórum afturfyrir bílinn og þar átti ég að hjálpa henni að opna "húddið", sem var á þessum bíl nokkuð stór og þungur hleri aftaná. Okkur tókst þetta og þá blasti gruggkúlan við. Ég fylgdist svo með stúlkunni losa hana úr og hreinsa vandlega. Eiginlega er ég viss um að mér tækist að gera þetta ef á þyrfti að halda, hún lýsti svo vel fyrir mér hvað hún gerði og hvers vegna. Svo bara lokuðum við hleranum aftur og héldum áfram heim yfir Hellisheiði. Nú veit eg hvernig áttunda bekkjar ferðin er.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ekki hefur stúlkunni veitt af að hafa einhvern eins og þig með. Já Kelifarvatn er líka mjög kallt og svo fór að blása ansi mikið síðdegis. Fjör í skólanum þínum alltaf.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 31.5.2007 kl. 21:38
Skelltu þér í meiraprófið
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 31.5.2007 kl. 23:36
Talandi um gruggkúlu, hvernig fornaldarbíl er maður eiginlega settur í. Svo segir stúlkan að svona búnaður sé á öllum díselvélum ég fann enga í dísel bílnum mínum en man hins vegar vel eftir þessu á gömlu dráttarvélinni í sveitinni.
En vá hvað ég var hrædd þegar rútan tók að síga afturábak:(
Pálína Vigdís Sigtr. (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 15:15
Ég veit - það er ekki fyrir neinar skræfur að fara í svona ferðir.
Helga R. Einarsdóttir, 1.6.2007 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.