6.2.2017 | 21:06
Dægurmál
Ég fór að skoða þetta betur, hvernig gera "bloggarar"? Ég leit aðeins í kringum mig á yfirlitssíðunni.... hverjir eru að blogga og um hvað er skrifað? Því er fljótsvarað.... næstum því eingöngu karlar, ríflega miðaldra karlar. Og þeir skrifa um það sem hæst ber í fréttum fjölmiðlanna,hugmyndaauðgin er nú ekki meiri en svo. Að vísu framreiða þeir skoðanir sínar með ólíkum hætti, sem er ágætt og yfirleitt finnst mér bara gott að þeir skuli skrifa. Það er nefnilega nokkuð stórt mál að almenningur útí bæ nýti þau tækifæri sem bjóðast til að skrifa, á íslensku, eitthvað sem þeim/ okkur liggur á hjarta. Það hreinsar hugann og veitir sálarró. Bara gott að sjá þarna nokkra af körlunum og vita að það er svona sem þeir fá útrás, þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim. Svo ég ákvað að hella mér bara útí þetta,svellköld þó ég verði ein kvenna á yfirlitssíðunni sem sýnir áhugafólk um "Dægurmál". Hvar eru annars konurnar?
Komin inná eigið skriftasvæði leit ég í kringum mig og reyndi að rifja upp hvernig hér er í pottinn búið. Sá strax við fyrsta slag að letrið var alltof smátt, kannski var það nóg einu sinni, en ekki núna. Ég gat með góðu móti stækkað það. Eiginlega er hér allt í boði sem með þarf, meira að segja bros og fýlukarlar, sem ég held að hafi ekki verið hér fyrr. Hvort ég get munað hvernig ég fann og setti inn myndirnar verður að vera seinni tíma verkefni. Sko,þetta gat ég. En þá er bara að byrja: "Dægurmál"..... það ætti þá að vera það sem gerðist í dag, eða kannski það sem ég hugsaði í dag mætti líka nota? Ég gerði svo sem ekkert í dag. Jú auðvitað, eins og alltaf fór ég í laugina kl. 7.30 og var komin heim um kl.10.00, það er fastur liður alla daga og syndi þar samviskusamlega í hálftíma... jahh eða alla vega er ofaní lauginni. Það má líka hlaupa eða ganga eða gera æfingar, nú eða þá kannski spjalla smá ef einhver skemmtilegur er að "hvíla" á brautarenda. Nú er farið að birta á morgnana, við samsundkonur.... ágætt orð.... fylgjumst grannt með því þegar sólin fer að lýsa upp himinninn yfir grenitrjánum stóru fyrir sunnan vegg. Þegar sæmilega bjart er yfir sjáum við góða skímu þar klukkan níu. Talandi um grenitré, haldiði ekki að Þingvallanefnd heimti nú að öll grenitrén sem hafa staðið þar nærri sem Valhöll var áður, skuli söguð niður og eytt. Þar skal ekkert barrtré sjást vegna þess að þau eru líklega upp komin af fræi sem var ræktað erlendis. Hvers konar innflytjendapólitík er það? Var ekki landið "skógi vaxið á milli fjalls og fjöru"löngu áður en forfeður Þingvallanefndar létu sér detta í hug að sækja um landvistarleyfi á Íslandi. Löngu áður en Ísland fékk nafn meira að segja? Þetta eru svo ekki einu grenitrén sem þeir verða að eyða ef verkið á að sýnast trúverðugt og svara kröfunni um "íslenskan gróður á Íslandi". Það eru líka stór tré við hornið á Þingvallabænum sem gera þar hlýlegt og skjólgott í suðaustan roki og janfvel líka aust-suð-aust. Það hlýtur að þurfa að farga þeim líka?
En, já... ég fór líka í gufuna, blautgufuna, en mér fannst það ekkert rosalega gott, fullheitt fyrir minn smekk.
En svo, heimkomin.. fyrir utan daglegt amstur í heimilisstörfum þá var ég lengst af deginum að skrifa. Það var nú rigning og meira að segja búið að spá roki, sem mér fannst nú reyndar aldrei koma. Já, ég var að skrifa Bændavísur.Fékk uppí hendurnar bókarræksni með handskrifuðum vísum um alla bændur í Hrunamannahreppi. Ekki bara einu sinni heldur þrisvar sinnum hefur vísnasmiður verið fenginn til að leita uppi alla bændur í svitinni og fanga þá í vísu. Fyrst 1865 svo 1900 og síðast 1907. Sumt er þetta skrifað á svo fornu máli að ég verð að "googla" til að finna skýringu á orðum og orðasamböndum. Það gengur þokkalega og stundum fylgir skýringunni hvaðan orðið sé komið og þá er það stundum nokkuð langsótt. Njála er nefnd og aðrar fornsögur líka. En ég skal ljúka verkinu og færa þetta allt á prent, nota fornmálið samviskusamlega og síðan kem ég skruddunni í geymslu á skjalasafni. Svoleiðis á maður að gera.
Nú sé ég að þetta er að verða alltof langt, það er gallinn við mig, ég gleymi alltaf að hætta fyrr en of seint. best ég setji bara eina vísu hér í botninn og segi svo gott í kvöld. ath.það er ákaflega frjálslega farið með stafina þarna, en ég læt það standa sem skrifað er.
Berghilnum þó búi á
bóndinn Símon Guðmunds arfi.
Marga reynir maður sá
mæðu þunga bús í starfi. Góða nótt.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að fá þig aftur hingað inn Helga mín
Eybjörg Sigurpálsdóttir (IP-tala skráð) 6.2.2017 kl. 22:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.