11.5.2007 | 21:24
Er til annað líf?
Ég þori ekki að treysta þvi. Alla vega finnst mér að ekki megi fresta til morguns því sem hægt er að gera í dag og aldeilis útilokað að sleppa því að gera eitthvað skemmtilegt, af því að það megi bara gera seinna. Ég heyrði nefnilega í vikunni af uppátæki hennar nöfnu minnar og barnabarns. Henni datt í hug að skreppa til Vestmannaeyja eitt kvöldið, af því hún var stödd í Þorlákshöfn og sá Herjólf. Hún hafði svo sem ekkert sérstakt að gera næsta sólarhringinn. Auðvitað hafði hún samband við móður sína og fékk grænt ljós, og fór svo bara. Kom aftur með seinni ferðinni næsta dag.
Ég minntist þess hvað ég hefði verið tilbúin í eitthvað svona á hennar aldri, en þá var bara aldeilis "öldin önnur". Ég átti engan bíl og ég átti heima í sveit. Og ég hefði eingöngu fengið rautt viðvörunarljós frá mömmu ef ég hefði orðað, þó ekki væri nema, rútuferð til Akureyrar í júni. Júní var nú reyndar mesti annatíminn heima, mér hefði aldrei dottið í hug að fara fram á frí frá maí til sept. ekki fyrir utan þetta sem ég fékk árlega í júlíbyrjun í þrjá daga til að reka á fjall.
En mér datt ýmislegt í hug og nefndi það svona "meðal annarra orða" þar sem við mamma skriðum dögum saman og grisjuðum gulræturnar. "Það væri örugglega gaman að fara á síld norður á Siglufjörð eitthvert sumarið" ? "Útilokað, hver á þá að grisja, reyta kálgarðinn og pakka gulrótunum"? Mig langaði til að verða þerna á millilandaskipi, en var vinsamlega bent á að þá kæmi ég kannski ekkert aftur heim.
Ég var í ár úti í Noregi, þegar ég var 19 ára, og var alveg til í að vera lengur. En það gerði ég ekki. Ég var víst einstaklega eftirlát dóttir og gerði bara það sem ætlast var til af mér. Líklega er það eitt af því fáa sem ég sé eftir, að ég skyldi ekki vera svolítið óþægari!
Ef manni dettur eitthvað skemmtilegt í hug þá á maður að framkvæma það, svo lengi sem það er ekki glæpur eða kemur illa við annað fólk. Það er ekkert hægt að treysta á þetta "seinna líf".
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú ættir að stefna á að hafa sumarið 2007 sumarið sem þú gerðist óþekk
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 11.5.2007 kl. 21:49
Spurning hvað ég gæti látið mér detta í hug. Reyndar geri ég nú þegar ýmislegt sem er ekki alveg sjálfsagt að ömmur geri, en það er bara eitthvað svona smálegt.
Helga R. Einarsdóttir, 11.5.2007 kl. 21:54
Helga okkur vantar fleiri Flugfreyjur jafnast það ekki á við þernu á skipi
Zóphonías, 11.5.2007 kl. 23:47
Það er ekkert of seint að vera smá "óþæg"
Josiha, 12.5.2007 kl. 18:08
Já. lifa lifandi. það segi ég líka. Okkar kynskóð er svona held ég. Við vorum eftirlát foreldrum okkar, gengdum og gerðum það sem við áttum að gera og þetta situr í okkur Helga.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 12.5.2007 kl. 21:11
Sammála Jóhönnu, átt bara að leyfa þér að gera eitthvað "villt" ! ;)
Ninna (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 16:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.