28.4.2007 | 22:35
Tíkin hún Táta og Ella í Hlíð
Ég fæddist á Engi í Mosfellssveit. Þar bjuggu þá afi minn og amma, Hreiðar og Helga. Fljótlega var ég sett í kassa og flutt til byggða í Hrunamannahreppi, þar sem ég átti heima öll mín uppvaxtarár. En á hverju hausti eftir réttir, og þegar að því kom, fyrir skóla, fórum við systkinin í heimsókn til ömmu og afa, fengum að vera tvær, þrjár vikur. Þá voru réttirnar um miðjan september og skólinn byrjaði ekki fyrr en einhverntíman í októbar. Hugsið ykkur bara, þá var nú gott að vera til. Ég man ekkert eftir mér á Engi. Þegar ég fyrst man voru afi og amma flutt í Kampinn. Það var þar sem Hlíðartún er núna og þau fengu þar hús til að búa í á meðan þau byggðu á Hulduhólum. Kampurinn var yfirgefið braggasvæði frá hernum og þetta hús var aðeins veglegra en braggarnir, hafði víst verið baðhús fyrir allan kampinn og þau kölluðu það Braggakot.
Húsið á Engi stóð alveg til c.a. 2000, en var víst notað fyrir skepnur á seinni tímum. Ég man mest frá Hulduhólum. Þar var búið með kýr og kindur, einn eða tvo hesta til dráttar og svo hænurnar. Fimm eða sex ára hafði ég mest af öllu gaman af hænunum. Það var haugur af hænsnaskít í miðri girðingunni sem þær höfðu fyrir útivist alla daga og það eru til myndir af mér þar sem ég sit uppi á þessum haug og horfi á púturnar. Heilu og hálfu dagana sat ég þarna og fylgdist með þeim. Afi átti útungunarvél og ungaði út eggjum. Svo seldi hann ungana á önnur hænsnabú.
Stundum fór ég með ömmu í heimsóknir á næstu bæi. Við fórum að Bjargarstöðum og þá áttum við að leika við Bjössa. Örn bróðir hafði víst gaman af því, en mér fannst Bjössi ekkert skemmtilegur. Hjörtur(Benediktsson) var ekki fæddur þá, kannski hann hefði verið skemmtilegri? Ég vildi frekar fara að Hlíð, og þangað var nú líka svo stutt að ég gat farið það sjálf. Ella átti heima þar og hún var á svipuðum aldri og ég. Svo fórum við oft að Blikastöðum. Þar var stórbýli og konan hét Helga, alveg eins og við amma. Þar voru tveir krakkar og það var allt í lagi með þau. Kannski voru þau aðeins yngri en ég. Á Hamrafelli áttu Jóna og Óli heima, ef þau áttu einhver börn hafa þau annaðhvort verið farin eða leiðinleg. Ég fór aldrei þangað að leika. En Óli og Jóna voru góð og þau voru næstu nágrannarnir.
Nú eru Bjargarstaðir horfnir og Hamrafellið rifið. Hlíðin stendur enn, en húsin orðin nokkuð aðþrengd. Lágafellsskólinn fíni er á miðjum túnunum hans afa, þar sem hann sló og hirti heyið með hestunum sínum og tíkin Táta lék sér í kringum þá.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gunni frændi minn flutti í Hlíðartún, líklega 1961 og var ég stundum send til að kaupa mjólk í bröggunum við Skálatún. Ég man að fjósamaðruinn var danskur. En þetta er lílkega seinna.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 28.4.2007 kl. 23:37
Það var hann Viggó og hann var ekki danskur. Hann sá um búskapinn í Skálatúni, en um 1960 skipti hann við afa og ömmu á Hulduhólum og húsi sem hann hafði byggt í Hlíðartúni. Þar bjó hann svo þangað til núverandi eigendur keyptu Hulduhóla, þá flutti hann austur í Ölfus .
Ég vann í Skálatúni veturinn 61 - 2.
Helga R. Einarsdóttir, 29.4.2007 kl. 09:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.