3.4.2007 | 22:13
Mín fyrsta útborgun
Færslan um kálhausana dró upp á yfirborðið fleiri minningar frá þeim tíma.
Ég vann í garðyrkjunni hjá pabba öll sumur frá því ég gat staðið upprétt og þar til ég flutti að heiman um tvítugt. Það má segja að af þessu búi ég alla ævi, líklega nærri jafn fróð um ræktun og margur fræðingurinn. Ég var svo í skólum um veturna, fyrst barnaskóla svo Skógaskóla, eitt ár í Noregi í lýðháskóla og svo var ég komin í barnaskólann aftur, en nú sem ráðskona.
Á meðan ég vann hjá pabba þurfti ég aldrei að hafa áhyggjur af peningum. Ég fékk fæði og húsnæði og svo allt sem ég þurfti af fötum og öðru. (Þó það nú væri ég var tólf ára) En svo kom að því eitt haustið, ætli ég hafi ekki verið svona fjórtán eða fimmtán ára, þá þurfti ég að takast á við þetta mikla vandamál, peninga.
Mummi fór til Reykjavíkur með grænmetið tvisvar í viku og eitt sinn sagði pabbi að hann ætlaði að senda mig með honum til að fara í Sölufélagið fyrir sig að sækja svolítinn pening. Ég var komin fram að Akurgerði fyrir 7.00 en þá fór Mummi af stað. Svo fórum við eins og leiðin lá alla leið til Rvk. og vorum komin fyrir hádegi. Þá var ekkert malbik og kambarnir lágu í mörgum hlykkjum utan í fjallinu.
Þegar komið var í Sölufélagið hafði ég þau fyrirmæli að fara innum ákveðnar dyr og svo leiðarvísir áfram að skrifstofunni hans Kristjáns, sem var gjaldkeri Sölufélagsins. Hjá honum átti ég að fá ávísun uppá 75.000 krónur. Kristján tók mér vinsamlega, ég þekkti hann alveg, henn hafði oft komið heim með öllu hinu fólkinu í Sölufélaginu, en það kom alltaf við í ferðalaginu sem það fór síðsumars. Kristján vissi hvað ég var að gera, ég hafði búið mig undir að þurfa að stynja erindinu upp úr mér, en það var alveg óþarfi. Pabbi hafði víst hringt til hans. Hann rétti mér bara ávísunina og spurði hvort ekki væri allt gott að frétta? Ég hélt það og fór svo út. Næsti liður í áætluninni var að fara í banka til að skipta ávísuninni. Sjötíu og fimmþúsund krónur voru meiri peningar en ég hafði nokkurntíman látið mig dreyma um að komast í tæri við, svo mér leið hreint ekki vel með þennan seðil ofaní töskunni, sem ég hafði með mér til flutninga á verðmætunum.
Á götunni fyrir ofan Sölufélagið hafði mér verið sagt að væri staur með leigubílum í kringum. Þangað átti ég að fara, banka á gluggann á einum bílnum og biðja bílstjórann að flytja mig í Landsbankann á Laugavegi. Þetta tókst mér alveg slysalaust. Bílstjórinn stoppaði svo við bankann og ég borgað honum og kvaddi. Einhverjar krónur hafði ég með til þessa. Í bankanum var svo ávísuninni skipt og nú var ég komin með fulla tösku af peningum.
Ekki var það betra. Ég var alveg viss um að ég myndi týna þessu eða glopra því frá mér á annan hátt. Þetta var skelfileg líðan. Pabbi hafði sagt að ég mætti kaupa eitthvað sem mig langaði til og ég átti alla vega að fá mér að borða. Ég mátti semsagt nota það sem ég vildi eða þurfti. En ég var svo viss um að peningarnir fykju út í veðrið ef ég opnaði töskuna að ég tók enga áhættu. Best að láta þá vera þar sem þeir voru komnir, á botninum í töskunni. Og ég labbaði til baka niður í Sölufélag.
Ég var ágætlega kunnug í Reykjavík, systi mömmu bjó þar og við höfðum oft verið þar í heimsókn. Reykjavík var eiginlega okkar kaupstaður miklu frekar en Selfoss, sem var nú reyndar á þessum tíma eiginlega hreint ekki neitt.
Ég átti að fara með Mumma heim aftur síðdegis, en fram að því hafði víst verið gert ráð fyrir að ég rölti um búðirnar á Laugaveginum og eyddi peningum. En ég tók enga sénsa. Fljótlega uppúr hádeginu var ég sest á bekk fyrir utan Sölufélagið og þar sat ég þangað til Mummi kom úr sínum útréttinum síðdegis. Svo fórum við bara heim og ég var guðsfegin þegar ég var komin í bílinn og vissi að peningarnir voru allir á sínum stað.
Ennþá fegnari var ég þegar heim var komið og ég gat losað mig við þennan þungbæra flutning og svo fengið að borða. Ég var orðin nokkuð svöng. Ég man að pabbi varð svolítið kyndugur á svipinn þegar ég rétti honum alla peningana óhreyfða. Hann spurði hvort ég hefði ekkert keypt og svo sagði hann sem svo "að hann skyldi þá geyma þetta fyrir mig" og það fannst mér ágætt. Það rann ekki upp fyrir mér fyrr en löngu seinna að ég hafði verið að sækja sumarkaupið mitt og hefði getað eytt því að vild. Svona var ég nú vitlaus.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú hefur verið gott burðardýr...haha svo voru þetta bara launin þín,jahérna!
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 3.4.2007 kl. 23:28
Þetta var nú enginn smápeningur í þessa daga. Von að þú hafir verið með lífið í lúkunum. Man eftir Kömbunaum svona eins og þú lýsir.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 3.4.2007 kl. 23:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.