2.4.2007 | 21:44
Hvítkálshausarnir breyttust í peninga
Ég man að ég spurði mömmu einu sinni hvað þau pabbi ættu mikla peninga og hvað þau ætluðu eiginlega að gera við þá? Hún sagði að þau ættu enga peninga og þótti mér það með ólíkindum. Öll þau ósköp af káli og gulrótum sem búið var að skera og búnta og senda með Mumma í Sölufélagið. Að bera það á borð fyrir mig að eftir allt það streð ættu þau hreint enga peninga fannst mér illa heppnaður brandari.
Að einhverju þyrfti að kosta til við uppbyggingu nýbýlis og fóðrun á fimm krökkum var ekki inní myndinni hjá mér. Þó mikið væri sent af grænmeti til Reykjavíkur var líka ótrúlegt magn af því étið beint uppúr moldinni - okkur fannst ekkert varið í það soðið.Hvítkál og blomkál, rófur og gulrætur spændum við í okkur daginn út og inn. Sprungnir hvítkálshausar - bestir inní miðjunni, blómkálsdvergar og úrgangsgulrætur. það var heldur hreint ekki sama hvernig gulræturnar voru. Þær bestu voru frekar mjóar og örlítið glærar, helst úr sandgarði. Við átum ekki bara garðávexti, hundasúra var lostæt, mér fannst blöðin betri en stönglarnir. Og kerfillinn á ruslahaugnum var góður, á bragðið eins og kóngabrjóstsykur. En það var ekki gott að borða of mikið af honum.
Þó að við stæðum svona á beit flesta daga sumarsins var líklega þó nokkuð sem þurfti að kaupa til heimilisins. Alla vega var alltaf verið að panta í Kaupfélaginu, vörur sem komu svo með mjólkurbílnum, og svona eftirá skil ég að líklega hafi þurft að borga það. Svo kom alltaf öðru hvoru maður frá Selfossi til að rukka fyrir rafmagnið. Hann hét Langi - Sveinn og fékk alltaf kaffi og pabbi gaf honum útí það. Þeir þarna á Selfossi höfðu víst eitthvað með rafmagnið að gera þó staurarnir með rafmagnslínunni væru beint fyrir utan eldhúsgluggann og það voru karlar frá Eyrarbakka sem settu á þar. Böddi, Bragi og Hilmar voru þar örugglega. Einu sinni þegar Langi- Sveinn var farinn heyrði ég að pabbi sagði við mömmu "að hann hefði látið hann hafa þann síðasta rauða". Ég vissi að Sveinn kom til að ná í peninga og enginn peningur var rauður nema 500 kall. Hann hafði semsagt tekið eina 500 kallinn sem til var! Í marga daga eftir þetta var ég hlaðin áhyggjum. Hvernig myndi fara fyrir okkur peningalausum? þó einhverjir tíkallar hefðu orðið eftir dygðu þeir varla lengi. Mér fannst það óbærileg tilhugsun að engir peningar væru til í húsinu.
Að til væri banki eða inneign í Sölufélaginu vissi ég ekkert um, enda hefði mér ekki fundist mikið til þess koma. Beinharðir peningar í einhverrri hirslu heima voru það eina sem mér fannst skipta máli. það var ágætt ráð til að herða á okkur á sendingardögunum sem voru mánudagar og fimmtudagar, að segja okkur, eða kannski aðallega mér, hvað mikið fengist í Sölufélaginu fyrir kálpokann eða gulrótabúntið. það kom kapp í mig að við gætum sent sem mest og taldi svo og reiknaði hver gróðinn ætti að verða af sendingunni þann daginn. Svo hélt ég líklega að Mummi kæmi með poka af peningum til baka eftir hverja ferð og þeir fjölguðu sér þannig jafnt og þétt einhversstaðar í fórum pabba. Pabbi var sá sem geymdi fjármuni heimilisins og hann gaf mömmu alltaf smá ef hún fór til Reykjavíkur. Pabbi fór líka stundum til Reykjavíkur, eða á Selfoss. En að hann færi þá í banka eða í Sölufélagið vissi ég ekkert um. Ég komst ekki að því að svoleiðis stofnanir væru til fyrr en ég fór fyrst til Púlla tannlæknis, svona tíu ára gömul. Hann hafði stofuna sína nefnilega á lofti Labdsbankans.
En ég man hvað mér fannst alltaf óþægilegt þegar pabbi keypti eitthvað stórt, eða lét mömmu hafa peninga til kaupstaðarferðar. Var nú alveg víst að hann ætti nóg eftir?þegar ég svo seinna fór að fá pening til að fara á böll fannst mér alltaf gott ef ég átti afgang, þá þurfti ég minna næst og sjóðurinn rýrnaði minna hjá pabba. Þá vissi ég þó orðið að það sem til var geymdi bankinn - að mestu. Og ég vissi þá líka að ávísanir gerðu sama gagn og seðlar. Á þessum tíma hef ég líklega verið það sem kallað er "nirfill". En á síðari árum hef ég komist að því að þó maður sé safnari og ýmislegt dragist að manni, er ekki einfalt mál að safna peningum. Og skiljanlegt finnst mér núna að mamma skyldi svara mér eins og hún gerði "að þau ættu enga peninga" án þess að sýnast verulega áhyggjufull.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.8.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 197635
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Skemmtilegt
Hér á bæ má frekar bjóða börnum gúrku eða tómat en nammi
eitthvað í genunum.
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 2.4.2007 kl. 21:57
Þú hefur verið lítil búkona held ég. gaman af þessu.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 2.4.2007 kl. 22:24
Hvað er kerfill? Góð saga...
GK, 3.4.2007 kl. 14:34
Gaman að þessu. Annars var ég að lesa lesninguna hér að neðan þar sem þú talar um krakkana í hverfinu. Margt rifjast upp og hrekkjusvínin....oj oj oj!
En það fyndna er að á Hjarðarholti 8 hefur margoft verið talað um að gaman væri að hóa þessum krökkum saman með krakkana sína og grilla og skála fyrir gömlum tímum. Bara spurning um að fara af stað og ákveða hvar eigi að draga mörkin....Pælum í þessu
Sigþrúður Harðardóttir, 3.4.2007 kl. 16:07
Kerfill er ekki ólíkur hvönn, heldur fíngerðari og gott bragð af honum.
Helga R. Einarsdóttir, 3.4.2007 kl. 17:10
Það er lakkrísbragð af keflinum
mýrarljósið (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 20:29
Aldrei heyrt þetta...
GK, 3.4.2007 kl. 23:54
Ég skal reyna að koma þér á beit á góðum kerfilsakri í sumar Guðm.
það er nokkuð sem allir verða að reyna. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 4.4.2007 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.