Og alltaf er best fyrir vestan

Af einhverju er það að við förum vestur aftur og aftur, þó löngu sé þar lokið öllum kirkjumyndatökum. Af einhverri Vestfjarða þráhyggju gerðist ég áskrifandi "Bæjarins besta"  og las þar allt sem skrifað stóð eins og ég væri að leita frétta af mínum nánustu. Af einhverjum ástæðum líður mér óskaplega vel nærri sjó. Í litlu þorpi utaní hlíðinni sem hallar niður að firðinum, þar finnst mér gott að vera. Kannski er það eitthvað tengt forvitninni, að sjá útá sjóinn og fylgjast með skipaferðum. Kannski stórum skipum sem eru að koma frá öðrum löndum eða litlum trillum sem koma með fisk að landi. Ristir hann djúpt í dag? Kannski er það eitthvað tengt fortíðinni, forfeðrum og mæðrum sem ég aldrei sá og aldrei sáu mig? Samt er ég alin upp inní miðju landi, í þeirri sveit sem bæir eru einna lengst frá sjó á Íslandi öllu.  Ég sá bara sjóinn á Hulduhólum hjá afa og ömmu. Sitjandi við stofugluggann gat ég horft í kíki tímunum saman út á sundin blá. Þar var fullt af skipum á leið inní höfnina í Reykjavík, örugglega öll að koma frá útlöndum.

Það er ein langamma eftir. Hún Sigríður langamma sem fæddist á Eyri í Skutulsfirði.  Hún var einkadóttir foreldra sinna, Magnúsar Kolbeinssonar húsmanns frá Hnífsdal og Kristínar Magnúsdóttur sem ólst upp á Eyri.  Amma Magnúsar var hún María Svarthöfðadóttir, sú sem ég hitti eina sumarnótt á Borg í Skötufirði. 

Magnús og Kristín voru ekki lengi á Eyri, þau bjuggu um tíma í Tungu, en síðast er vitað um hann einan í Engidal.  Kristín var 38 ára þegar Sigríður fæddist en Magnús aðeins yngri. Sigríður langamma hefur trúlega fylgt foreldrunum þar til hún fór að sjá um sig sjálf en engar heimildir á ég um það. 

Hún var  28 ára þegar S.Guðrún amma mín fæddist og þá bjuggu þau Einar Ari á Seljalandi, sem ég trúi að hafi verið þar sem nú heitir Seljalandsdalur. Fáum árum seinna voru þau svo komin í Fremri Hnífsdal og þar fjölgaði börnunum fljótt.

Næsta víst er að langafi hafi sótt sjóinn eins og karlar gerðu í sjávarplássum þar vestra, en langamma gætt bús og barna. Systurnar voru orðnar fimm haustið 1898 og Guðrún amma var þeirra elst, níu ára.  Og enn var von á barni.

Sonurinn fæddist svo 10. desember og hefði þá átt að vera kátt í kotinu og jólanna beðið með óþreyju. En það var nú ekki svo. Drengurinn litli var frískur og sýndist ætla að lifa. Hann var skírður Sigurður Elías. Kannski var það nafnið hennar mömmu hans, sem var nú nokkuð ljóst hvert stefndi.   Hún langamma Sigríður komst ekki á fætur eftir þessa fæðingu. Hún dó á þessu sama ári, 29. desember.

Og langafi stóð einn uppi með börnin sex, örugglega allsendis vankunnandi um  börn og þeirra þarfir.  Það var ekki annað ráð en að koma þeim fyrir. Amma , níu ára, fór að Búð í Hnífsdal og átti að vinna fyrir sér.  Sigurður litli dó um tveggja ára aldur, en systurnar komust allar vel til manns.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Josiha

Ég var hér. Og Sigríður er algengt nafn í minni ætt (Sandvíkurættinni). Líka Kristín og Magnús. Og Ari (Páll) en ekki Einar.

Josiha, 21.3.2007 kl. 23:43

2 identicon

Já, það er nú einhvað til í þessum titli hjá þér eins og svo mörgum og mörgu öðru hjá þér.

Pálína (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 21:17

3 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Þú veist það líka Pálína - það er eitthvað sérstakt fyrir vestan.

Helga R. Einarsdóttir, 22.3.2007 kl. 22:13

4 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Kvitt fyrir þessa góðu lesningu.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 24.3.2007 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 197636

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband