"Þar sem háir hólar"

Á Steinsstöðum í Öxnadal, " Þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla", fæddist hann Tómas langafi minn. Sá þriðji þeirra sem ég geri hér skil með skrifum. Já hann fæddist heima hjá henni Rannveigu ömmu sinni, en hún og hennar fjölskylda hafði búið á Steinsstöðum í mörg ár. Þar hafði ógæfan orðið þegar pabbi hennar, hann Hallgrímur prestur, drukknaði í vatninu fyrir ofan Hraun. Vatninu sem varð til fyrir mörg hundruð árum, kannski þúsund, þegar fjallið hrundi fram í dalinn og skildi Hraundrangana eftir í einstæðingsskap við efstu brúnir. Einkennilegt að í þessu vatni skyldi finnast fiskur, en það var þó svo, og hann fór eftir messu á sunnudegi til að draga netin. En kom ekki til baka.

Það voru góðviljaðir sveitungar og frændur sem hjálpuðu honum Jónasi, bróður Rannveigar, til að komast í nám, en það varð til lítils. Hann hrundi þarna niður stigann úti í Kaupmannahöfn, braut á sér löppina og dó svo, sennilega af eintómri fátækt og einstæðingsskap. Áður var hann þó búinn að yrkja fullt af flottum ljóðum, kvæðum og vísum. Var víst líka skotinn í stelpu fyrir norðan, einhversstaðar í Mývatnssveitinni.     En svona fór nú fyrir honum og mamma hans hallaði sér að henni Rannveigu eftir það. Enda var hún sómakona, hún Rannveig. 

Já þarna fæddist hann Tómas langafi 1847, og ólst upp fyrstu árin, en seinna fluttu þau svo að Grund í Eyjafirði. Hallgrímur pabbi hans var bóndi, nokkuð vel stæður og sendi soninn í skóla.  Tómas varð svo prestur í Stærri Árskógi og gifti sig henni Valgerði langömmu. Þar fæddist Hallgrímur afi minn.

Séra Tómas  fékk svo flutning að Völlum í Svarfaðardal og þjónaði kirkjum í þeirri sveit og líka út í Ólafsfirði. Það hefur ekki verið auðveld leiðin til messunnar í Ólafsfirði á jólunum. Um Múlann, líklega oftast gangandi, í misjöfnum veðrum. Hann langafi var víst oft hressingar þurfi í þeim ferðum. Og líklega hefur honum stundum verið yljað undir feldi á þeim bæjum sem hann kom til.  (Lausleg þýðing)  Hann var í drykkfelldara lagi og talinn nokkuð kvensamur. 

Búmaður var hann enginn en einstaklega góður ræðumaður og hafði fallega söngrödd. Hann var gestrisinn og félagslyndur, en heldur erfiður í sambúð. Hann átti sex börn með henni langömmu og eina dóttur utan hjónabands. Elsta soninn misstu þau innan við tíu ára aldur og er leiðið hans rétt innan við hliðið í gamla garðinum í Stærri Árskógi.    Hin  börnin komust öll upp.  Tómas langafi minn dó í mars 1901 og er leiðið hans í suðvesturhorni kirkjugarðsins á Völlum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Josiha

Ég var hér

Josiha, 15.3.2007 kl. 22:01

2 Smámynd: Ólafur fannberg

ég líka

Ólafur fannberg, 16.3.2007 kl. 08:20

3 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Gaman að þessu. Svo þú et frænka Jónasar.Ekki amalegt.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 16.3.2007 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 197636

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband