11.3.2007 | 14:31
Svo var það undir Fjöllunum.
Um miðja nítjándu öld fór ung kona, frá Suðurkoti í Krísuvík, austur í Rangárvallasýslu í vinnumennsku. Hún hét Dýrfinna Kolbeinsdóttir, var tuttugu og fjögurra ára og móðir tveggja barna, óskilgetinna. Soninn Sigurð atti hún sautján ára gömul en dótturina Ólöfu þegar hún var tuttugu og þriggja ára.
Margir ungir menn fóru á þessum árum úr sveitunum til sjóróðra á Suðurnesjum og vel gæti verið að einhver þeirra hafi sagt henni frá öllu því góða sem sveitirnar þar eystra höfðu að bjóða. Og vel getur líka verið að afkoma hennar við sjóinn hafi verið slík að frá litlu væri að hverfa.
Einhverja ættingja átti hún þar eystra og liklega hefur hún farið sem ráðskona frekar en óbreytt vinnukona. Vinnukonum var ekki fært að sjá fyrir tveimur börnum.
Árið 1856 þegar eldra barnið var níu ára en það yngra þriggja gifti hún Dýrfinna sig bóndasyninum í Hvammi undir Eyjafjöllum, Sigurði Sigurðssyni, og hélt svo áfram að eiga börn.
Þau eignuðust sjö börn, og var hún Sigurbjörg önnur langamma mín í móðurætt yngst þeirra.
Sigurbjörg ólst upp í Hvammi. Þar var myndarheimili og nóg að snúast eins og víðast í sveitum á þessum tíma. Börnin voru mörg og vinnufólk líka. Svo var þar gamalt fólk sem þurfti að hugsa um. Ömmur og afar og vinnufólk sem ekki var lengur vinnufært. Á þeim árum voru engin dvalar eða hjúkrunarheimili, gamalt fólk var bara á bæjunum svo lengi sem það lifði.
Ein systranna í Hvammi, Margrét, giftist og bjó á Seljavöllum. Á þessum árum var útgerð frá söndunum í Rangásvallasýslu. Á vormánuðum var róið þaðan árabátum og voru margir mann á. Líka voru fjallamenn á vertíðum í Vestmannaeyjum og fóru þá á milli á bátum. Alloft urðu slys af þessu og fórust þá stundum margir menn. Þannig fór með hann Gísla manninn hennar Margrétar, hann fórst við Eyjafjallasand ásamt mörgum öðrum.
Sigurbjörg var yngst systranna og var á Seljavöllum hjá Margréti, sjálfsagt bæði til hjálpar og félagsskapar. Ekki var Margrét ein í mörg ár. Til hennar kom ráðsmaður Hjörleifur Jónsson frá Lambafelli. Tóku þau svo saman og fluttu búferlum í Landeyjarnar.
Sigurbjörg fylgdi þá systur sinni og átti nú nokkur ár heima í Litlu Hildisey. Ekki var hjá bændafólki í Rangárvallasýslu, eins og prestum og hreppsstjórum þessa tíma, eins mikið lagt uppúr "réttum ráðahag" unga fólksins. Og það var ekki gert veður útaf því, að hún Sigurbjörg á Litlu Hildisey ,og hann Gottskálk bóndasonurinn í Stóru Hildisy, yrðu skotin hvort í öðru, enda þokkalega ættuð bæði tvö.
Þau hófu svo búskap í Vatnshól í Austur Landeyjum. Þar var mannmargt heimili, búskapur blandaður eins og víðast þekktist og húsbóndinn við sjó á vetrarvertíðum. Þá fór hann uppúr áramótum og var í burtu til vors.
Svona var þetta á flestum bæjum, karlarnir fóru á sjóinn, höfðu yfirleitt áður en farið var séð til þess að skilja konuna eftir ólétta, með búið, börnin og öll mannaforráð.
Langamma hafði að vísu tvær mágkonur sínar til hjálpar og tengdafaðir hennar var líka drjúgur við útiverkin. Þarna fæddust með tímanum þrír synir og var Hreiðar móðurafi minn einn þeirra. Einnig voru þar fósturbörn eins og víða þekktist.
Síðasta afrek húsfreyjunnar í Vatnshól, í þessu lífi var að fæða stúlkubarn, sem ekki komst þó upp. Og eftir það náði Sigurbjörg langamma mín ekki heilsu. Hún dó í Vatnshól árðið 1910.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.8.): 5
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 197638
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð lesining Helga mín.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 11.3.2007 kl. 19:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.