10.3.2007 | 22:01
Hver var svo þessi strákur sem hún var gefin?
Það var hann Björn Bjarnarson, sem seinna varð líka langafi minn. Björn var fæddur í Skógarkoti í Þingvallasveit. Hann var sonur Björns Eyvindssonar, sem þar var vinnumaður og Sólveigar Björnsdóttur.
Í bók sinni um Hraunfólkið segir Björn Th. Björnsson frá öllum þeim býsnum af börnum sem komu í heiminn í Skógarkoti. En hann Björn langafi hafði það fram yfir þau flest að vera skilgetinn, enda ekki Kristjánsson.
Því hefur verið vandlega viðhaldið í okkar ætt að Sólveig var dóttir Þingvallaprests. Sem að vísu, þegar hér var komið, var hættur öllum prestsskap og orðinn undirlagður af holdsveiki. Hafði heldur aldrei mikill kennimaður verið, ölkær og afkastalítill um flest. En prestur var hann engu að síður og allir hans forfeður.
Björn Eyvindsson tók það fyrir, eitt vorið, að rölta yfir í Skorradal þar sem uppboð var haldið á jörðinni Vatnshorni. Hann hafði ætlað sér að festa þar kaup á ýmsum nauðsynjahlutum til búskapar af því þau hjúin voru þá að byrja að búa á jarðarparti í Kjósinni. En það fór nú svo að þegar uppboðinu lauk var hann orðinn jarðeigandi í Vatnshorni og hafði borgað með 800 dölum (sem þá voru peningarnir á Íslandi) og hann taldi upp úr vettlingunum sínum.
Nú fluttu ungu hjónin að Vatnshorni og með þeim sonurinn Björn. Þar óx hann svo upp í búskapnum og þótti liðtækur við flest. Fjögurra ára var hann látinn sjá um að sækja og reka kýrnar og þótti ekki frásagnarvert. Hann lærði snemma að lesa og skrifa og þar sem pappi hans var hreppsstjóri, óskrifandi, varð það hans hlutverk að sjá um bréfaskriftir og embættisfærslur fyrir hreppinn.
Uppúr tvítugu fór hann til búnaðarnáms í Noregi og var þar í tvö ár, en þaðan fór hann svo til Danmerkur og vann við landbúnað í eitt ár. Eftir heimkomuna ferðaðist hann um og kenndi bændum ýmsar nýungar í búskap. Jarðabætur, framræsla og túnræktun var nokkuð sem hann kynnti fyrir bændum á suður og vesturlandi. Hann keypti svo jörðina Hvanneyri með fylgikotum á 15.000 krónur og stofnaði þar búnaðarskóla.Til þess fékk hann stuðning margra bænda í Borgarfirði, sem lánuðu honum jarðir sínar að veði.
Hann var alla sína tíð talinn mörgum árum á undan sinni samtíð. Hann stóð fyrir innflutningi á furðulegustu landbúnaðartækjum. Þúfnabani og hestvagnar voru þar á meðal og höfðu margir horn í síðu hans fyrir illa meðferð á hestum, þegar hann beitti þeim fyrir vagna og heyvinnutæki. Hann ruddi götur um landið til að geta notað vagna.
Af einhverjum ástæðum seldi hann Hvanneyri og flutti í Mosfellssveitina. Glæfralegar framkvæmdir og undarleg uppátæki öfluðu honum ekki vinsælda og kannski gekk ekki vel að standa í skilum með jarðarverðið. En það varð ekki aftur snúið með það starf sem hann hóf í Borgarfirðinum. Hann bjó síðan lengst af í Grafarholti í Mosfellssveit og varð áhrifamaður um margt. Embættin og verkefnin sem hann stóð fyrir eru svo mörg að illt er upp að telja. En lagning símans um landið, stofnun S.S. og upphaf kaupfélaga og ungmennafélaga, eru dæmi um það sem hann stóð fyrir, og gefur dálitla mynd af þessum langafa mínum sem átti heimasætuna frá Stuðlum, sem ekki mátti eiga "auðnuleysingjann með skáldagrillurnar".
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.8.): 5
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 197638
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Merkismaður langafi þinn.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 10.3.2007 kl. 22:24
Jahá... gaman að vita þetta um langa-langa sinn,hvar í ósköpunum finnur þú þessar upplýsingar
? ekki nema von að bekkurinn þinn telji þig frá fornöld 
Guðbjörg drithöfundur Helga,Sigurdórs og Helgu..., 10.3.2007 kl. 23:06
Ólafur fannberg, 11.3.2007 kl. 09:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.