8.3.2007 | 21:48
Langamma frá Stuðlum
Ég hef stundum skrifað um eitthvað fá fyrri árum, ágrip af sögunni stóru um upphaf ættar minnar fyrir vestan og norðan. En um langafa og ömmur hefur lítið verið sagt. Ég átti þó tvö sett af hvoru eins og allir aðrir. Nú ætla ég bara að segja örlítið frá einni langömmu, henni Kristrúnu, sem var heimasæta á Stuðlum í Reyðarfirði.
Hún var dóttir hans Eyjólfs sem var þar bóndi og hreppstjóri, en bar auk þess titlana "kúskur" og "hómópati". Kúskur myndi sennilega vera "leigubílstjóri í frístundum"núna.
Bóndadóttir í sveit á austurlandi uppúr miðri nítjándu öld. Stuðlar eru ekki við sjóinn heldur í dalnum inn af fjarðarbotni. Ekkert var þá álver í þeirri sveit. Heimasætur þess tíma stóðu ekki í neinu útsláelsi, þær voru til hjálpar á heimilinu, frekar innanbæjar en utan og um leið lærðu þær það sem þurfti til að búa sig undir giftingu.
Hann Eyjólfur var hreppsstjóri og hómópati. Hómópatar voru þeir sem fengust við lækningar án þess að hafa til þess nokkra menntun. það er líklegt að þess vegna hafi það verið að hann tók til sín á heimilið ungan mann sem var sagður "sjúklingur með skáldagrillur". Þessi piltur var þarna til heimilis nokkurn tíma. Ekki var hann rúmfastur með öllu, hafði enga döngun til vinnu, en fór gjarnan í gönguferðir upp að fossinum, með heimasætunni Kristrúnu. Nú á tímum væri hann sennilega á örorkubótum vegna þunglyndis og gæfi út litla ljóðabók á tveggja ára fresti.
Það kom að því að gönguferðirnar urðu of margar og of langar, og endaði með því að auðnuleysinginn var sendur burt af heimilinu. Langamma mun þó hafa sloppið óspjölluð frá þessu ævintýri, en til að engin hætta væri að aftur slægi saman var hún nú send til Danmerkur þar sem hún skyldi nema þau fræði sem húsfreyjum á betri bæjum kæmi vel að kunna.
Þar var hún eitt ár, en á meðan gerðu hreppsstjórinn í Reyðarfirði og hreppsstjórinn í Skorradal með sér samkomulag um giftingu barna sinna. Þegar hún kom aftur til Íslands beið hennar mannsefni, sem hún þó ekki þekkti, og var ekki beðið með brúðkaupið. Hún kom aldrei aftur til Reyðarfjarðar eða að fossinum fríða, sem hún talaði um við barnabörnin sín mörgum árum seinna.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
hæhó innlitslestrarkvitt frá
Ólafur fannberg, 8.3.2007 kl. 22:34
Góð frásögn.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 8.3.2007 kl. 23:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.