20.2.2007 | 22:03
Hún Rúna er komin á toppinn
Það er engin skömm að segja frá því, bara eiginlega alveg nauðsynlegt. Hún Rúna vinnufélagi minn komst á toppinn í dag. Og hafði helminginn af fjölskyldunni með sér.
Nú halda allir að Rúna hafi náð einhverju góðu takmarki, svona eins og fólk gerir oft á ævinni. En það var nú gott betur. Ég veit ekki hvort ég kann að skrifa þetta fræga útlenda nafn rétt, en það hljómar: Kilimanjaro? Er ég nærri því? Já ég get svarið það 20.02.07 voru þau komin alla leið upp, til hamingju með það.
Ég náði líka áfanga í dag, ég fór í vinnuna. En það verður nú bara að viðurkennast að ég er enn svolítið undarleg, og mér er sagt að ég verði þannig eitthvað áfram. Gott að vera undir það búin.
En ég átti eftir að ljúka sögu húsdýraeldis hér í Rauðholti. Nú var bara eitt barn eftir heima, strákurinn Guðmundur, töluvert yngstur. Og mér segja þau eldri, að svoleiðis börnum leyfist allt. Ekki datt honum þó í hug að fara fram á hund. Sagan um fyrirætlanir föðurins í því sambandi loddu við í gegnum öll árin, og hann var hændur að pabba sínum.
En gullfiska? Nú var orðið til búð á Selfossi sem seldi svoleiðis dýr og allt með sem þau þurftu. Jú - jú, hann mátti fá fisk og best að hafa þá tvo svona uppá félagsskapinn. Við keyptum stóra kúlulaga skál og tvo fiska. Þeir voru skrautlegir á litinn og strákarnir í búðinni sögðu að það þyrfti ekkert að setja hjá þeim dælu. Þetta voru alveg sérstakir fiskar, sem þurftu enga dælu. Gott mál. En þeir þurftu þó mat? Jú heldur betur, og af honum fékkst nóg í búðinni. Við fórum heim með aflann og bjuggum svo um þessi skrautlegu síli í skálinni góðu. Þetta var glæsilegt. Og svo fengu þeir mat. Og hefðu síðan átt að lifa vel og lengi, eiga hrogn og seyði og "úti væri þá ævintýri".
En það var nú aldeilis ekki. Auðvitað dóu þeir, hvor á eftir öðrum. Ég man ekki eftir hvað margra daga eða vikna búsetu hér á bæ. En einhvernvegin er það svo að gullfiskar fanga ekki í manni hjartað, alla vega ekki mitt. Mér var skítt sama þegar ég sturtaði þeim ofaní klósettið hverjum á eftir öðrum. En svona má ég auðvitað ekki segja. Það var sonur minn sem átti þá og hann var örugglega leiður yfir þessum endalokum fiskeldis í Rauðholti.
Reyndar var nú enn einu sinni reynt að ala hér fisk. Það var þegar öll börn voru að heiman flogin. Okkur gömlu datt þá í hug að það gæti verið "smart" að hafa stóra skál með gylltum fiski á skenknum í eldhúsinu. Og skálin var jú til. Í þetta sinn skyldi ekkert fara úrskeiðis. Það var keyptur fiskur, á litinn eins og rauðagull. Honum fylgdi matur. Bara pínulítið, fiskar eru oftast drepnir á ofeldi sagði maðurinn í búðinni. Flottir steinar, tíndir í fjörum á Snæfellsnesi og Borgarfirði eystri, slípaðir með eigin vél í bílskúrnum, vor lagðir á botninn og svo vatnið, mátulega kalt, eða volgt. Hann var flottur maður! Og ekki nóg með það, hann var skírður. Gulli skyldi hann heita, þessi dýrindis fiskur sem átti að stytta okkur stundirnar í ellinni.
Það liðu einhverjar vikur, eða jafnvel mánuðir. Gulli lifði góðu lífi, fékk lítið að borða en sýndist þó stækka. Hann var svona fiskur sem átti að verða töluvert stór. Eins og á Lubba áður var kastað á hann kveðju þegar farið var eða komið, en hann sýndi nú engin merki þess að hann skildi hvort við værum að fara út eða inn. Kannski er það rétt að gullfiskar séu vitlausustu skepnurnar í heiminum.
Eftir allnokkurn tíma tókum við eftir því að Gulli stækkaði mest á maganum. það gat þó enganvegin passað, hann fékk svo lítinn mat. Og óhugsandi að hann væri óléttur? Það hafði þá gerst í búðinni - fyrir mörgum mánuðum? Okkur hafði alveg láðst að spyrja manninn um meðgöngutíma fiskanna.
En brátt varð ljóst að Gulli var hvorki óléttur eða saddur. Hvað eftir annað kom það fyrir að hann komst ekki niður að fjörusteinum Borgarfjarðar eystri þegar hann ætlaði þangað að sækja sér mat. Og jafnvel henti það að hann varð afvelta eins og pestarrolla. Þá maraði hann í hálfu kafi við yfirborð vatnsins í fallegu kúlulaga skálinni. Aumingja Gulli, hann var greinilega fárveikur. Og til að gera langa sögu stutta og dauðastríðið ekki eins átakanlegt, þá bara dó Gulli. Á skenknum í eldhúsinu var einn morguninn skál með vatni og skrautsteinum í botni. Og kúlulaga roðagylltur fiskur flaut þar við yfirborðið - á hvolfi. En vissulega var þetta "smart" litasamsetning.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 197639
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Heyrðu, Helga. ég gleymdi því allveg að við áttum líka fiska í búri í nokkur ár. Þeir voru í herbergi Begga eldri sonar mína.'Eg sagðist ekki myndi hreinsa búrið. Pálmi gerði það. Fengust var ég og kanski fleiri í fjölskyldunni þegar við gáfum ókunnugum strá búrið og fiskanna. Þau mamma hans báru búið með fiskunum héðan út í bílinn sinn.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 21.2.2007 kl. 00:04
Kilimanjero!!! ÉG held við Gummi þekkjum það fjall alveg ágætlega! Við vorum alltaf í Tansaníuleik í Tryggvagarði forðum! Allur bekkurinn stóð þá saman og fór í Tansaníuleik í öllum frímínótum. Ég held að ekkert námsefni í grunnskóla hafi sýgjast eins vel inn eins og Tansanía!
kv.
BH
Berglind , 21.2.2007 kl. 11:07
Sammála því... Einhverntíman fer ég þangað...
GK, 21.2.2007 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.