Myndin frá Möggu frænku

þegar hún Magga dó þá fengum við arf, stórt málverk frá Þingvöllum, 1.20x80 - alveg passlegt á vegginn yfir sófanum. Málverk var ekki svo lítill fengur á okkar heimili, alvöru málverk, ekki eftirprentun eða plakat eins og helst höfðu þakið stærstu veggina fram að þessu.  Alvöru málverk og í þetta líka flottum ramma, gylltum og fimm tommu breiðum. Já hún var ekkert blávatn hún Magga frænka, lærð nuddkona og bjó ein alla sína tíð - og safnaði málverkum.

Það var meira að segja nafn í einu horninu, alvöru málarar setja alltaf nafnið sitt í hornið. Jóhannes stóð þar, ekkert meira, enda óþarfi, þessi Jóhannes skrifaði nafnið sitt öðruvísi en allir aðrir Jóhannesar. Þeir sem hafa vit á myndlist vita vel að það er bara um einn svona Jóhannes að ræða.

Liðu nú árin við barnauppeldi og vinnu. Sum árin voru erfiðari en önnur, það þarf nokkrar krónurnar til að vinna sig út úr húsbyggingu og ala upp börn. En erfiðu árin voru aldrei alvond. Þó krónurnar væru fáar til á stundum var engin ástæða til að örvænta, við vorum aldrei fátæk. Við áttum myndina frá Möggu og þeir sem hafa ráð á að láta alvöru málverk, 1,20x80, eftir Jóhannes - í gullramma, hanga á stofuveggnum - þeir eru ekki fátækir. 

Með vaxandi þroska fór að bera á listrænum tilþrifum hjá eldri syninum. Hann teiknaði á öll blöð sem hann komst yfir og bara hreint ekki illa. Hann æfði sig jafnvel að skrifa nafnið sitt með handbragði listmálara og á endanum svo glæsilega að engin skömm var að neðst í horninu á myndunum. 

En jafnframt þessum æfingum fór drengurinn að hafa skoðanir. Hann hafði um það ákveðin orð hvað honum fannst fallegt - eða ljótt.  Svo sem allt í lagi með það, allir hafa skoðanir og benti bara til nauðsynlegs sjálfstrausts að þora að segja þær upphátt.         En allt hefur sín takmörk.    Einn góðan veðurdag lýsti hann því yfir að Þingvallamyndin, myndin eftir Jóhannes, væri forljót!    Og það sem verra var, húsbóndinn tók undir þetta.  Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafði hann ekki orð á því fyrr, en honum hafði alltaf þótt málverkið frá Möggu "ömurlegt skilirí". Samt var hún frænka hans en ekki mín.

Þeir vildu myndina af veggnum og helst upp á hauga. Ég gat ekki sætt mig við þetta uppþot. Þó málverkið væri ekki lengur það eina í húsinu var það samt Þingvallamynd, eftir Jóhannes, í gylltum ramma. Þingvallamynd tekur maður ekki og hendir bara si svona.   Hugsið bara til Jóhannesar - og Möggu.  Það er til fullt af myndum sem fólki finnst ljótar, en eru þó mikils virði.  Þeir hafa bara ekkert vit á myndlist þessir feðgar.

Ég lægði öldurnar með því að samþykkja að taka myndina af þessum vegg þegar sonurinn kæmi með aðra í staðinn, eftir sjálfan sig og nafnið fagurlega flúrað í horninu. Þeir féllust á þetta og ég fékk vopnahlé til að undirbúa gagnsókn.

Næst þegar ég var ein heima tók ég myndavélina og tók myndir af málverkinu. Nærmyndir og fjærmyndir og eina alveg sérstaklega af nafninu í horninu. Ég festi Jóhannes á filmu svo enginn vafi væri hvað hann hafði málað.  Ég vissi hvernig ég ætlaði að leiða feðgana á rétta braut og bjarga myndinni.

Þegar búið var að framkalla skrifaði ég bréf sem ég setti svo í umslag ásamt myndunum og skrifaði utaná til Foldu í Rvk. En það er gallerí sem selur listaverk og þar vinnur fólk sem hafur vit á svona hlutum. Fólk sem ég, þessa dagana, átti líklega meiri samleið með en núverandi smbýlingum.

Í bréfinu lýsti ég myndinni og bað um aldursgreiningu, nánari deili á Jóhannesi og svo óskaði ég eftir verðhugmynd.  Svo fór ég á pósthúsið, nú liði ekki á löngu þar til ég gæti spjallað betur við mína menn.

Ótrúlegt hvað pósturinn getur verið snöggur stundum. Síðdegis næsta dag hringdi síminn. Karlmaður kynnti sig og sagðist vera sá sem réði ríkjum í Foldu. "Það er bara svona" hugsaði ég, "ekki verið að draga það". Líklega vildi hann tryggja sér myndina strax.    Ég duldi gleði mína og sagðist ánægð með skjót viðbrögð. Spurði svo hvort  hann gæti nokkuð sagt mér um Jóhannes?   Jú-jú - hann gat það.

Jóhannes þessi hafði verið einn þeirra málara sem kallaðir voru "alþýðulistamenn" um miðja tuttugustu öldina.   "Sko til, ekki alveg óþekktur" hugsaði ég. En hann hélt áfram: Jóhannes hafði helst unnið sér það til frægðar að vera ótrúlega afkastamikill, myndir eftir hann skiptu hundruðum, að minnsta kosti.   "Jæja", sagði ég, "hvað heldurðu hún gæti kostað"?

Hann mátti eiga það að ég heyrði ekki votta fyrir brosi í röddinni þegar hann svaraði mér. Þetta er maður sem kann sig.  "Ég gæti trúað að það væri svona þúsund kall" sagði hann, "og það er þá eiginlega mest fyrir rammann, hann er nokkuð góður".      "Nú já", sagði ég -------og hann bætti við: "En það má ætla að svona myndir hafi meira tilfinningalegt gildi fyrir eigandann, sumar eru alveg ómetanlegar þannig".  Hughreystandi!   Ég brosti kalt í símann, ekki skyldi þessi maður heyra annað en eintóma ánægju í minni rödd. Ég þakkaði fyrir og kvaddi.

Hvað skyldu líða mörg ár þangað til hann sonur minn kemur með myndina stóru, sem hann ætlar að mála og merkja í hornið með listamannsnafninu sínu? Það má ekki dragast lengi, tilfinningalegt samband okkar Jóhannesar aykst dag frá degi. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Góð saga. Já, svona "alvörumálverk" eru til á mörgun heimilum á Íslandi. Ég á engan Jóhannes en nokkra aðra

Jórunn Sigurbergsdóttir , 12.2.2007 kl. 21:34

2 Smámynd: GK

Þess má geta að ég á Jóhannes sem Lárus bjargaði úr Sorpu...

GK, 12.2.2007 kl. 23:08

3 Smámynd: Ólafur fannberg

það eru fáein á veggnum hjá mér sem eru farin að sækja að tilfinningalega

Ólafur fannberg, 13.2.2007 kl. 08:14

4 Smámynd: Zóphonías

já þessi Magga frænka er einhvers konar goðsögn í fjölskyldunni, gekk í buxum, sá fyrir sér sjálf og við hliðiná hverri liggur hún í kirkjugarðinum?

Zóphonías, 13.2.2007 kl. 17:29

5 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Zóphonías, nú kemurðu mér á óvart, ég nefndi engar buxur!

Ertu skyggn eða skyldur? Hún Magga átti systur og ég held að einhver þeirra sé henni félagsskapur í garðinum. Annars hef ég alltaf meiri áhuga á hvar andinn heldur sig og þá gæti ég trúað að hún væri á sveimi í Flóanum.

Helga R. Einarsdóttir, 13.2.2007 kl. 18:51

6 Smámynd: Zóphonías

Já ég hef fengið ófá hlý og góð sokkapör í jólagjöf frá Rauðholtinu. ;)

Zóphonías, 13.2.2007 kl. 18:57

7 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Það finnst mér nú undarlegt, ég kann ekki að prjóna sokka.        Reyndu betur.  Getraun: Ertu strákur?

Helga R. Einarsdóttir, 13.2.2007 kl. 19:08

8 Smámynd: GK

Ég ætla að tippa á Orra Þrastarson flugkappa...

GK, 13.2.2007 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 11
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband