17.9.2011 | 17:39
Þá var komið haust
Einn réttadagsmorgunn fyrir einhverjum árum fór ég ríðandi að heiman á henni Skjónu. Skjóna var varla meira en tryppi, ótamin og myndi víst aldrei verða tamin af því hún hafði lent í þeirri ógæfu að eignast folald. Á þeim árum var ótímabær folaldseign talin vísbending um að mertriyppið myndi aldrei verða almennilegt reiðhross, hún Skjóna var dæmd til áframhaldandi framleiðslu folalda, sem ekki var gert ráð fyrir að yrðu móður sinni fremri á nokkurn hátt. Það var talið víst að saltið í tunnunni væri þeirra eina framtíðarkrydd í tilverunni.En alla vega, þennan septembermorgunn lögðum við Skjóna af stað í réttirnar, með hnakk og allt, en þá var ekkert sjálfgefið að ellefu ára stelpa á mislukkaðri folaldsmeri hefði hnakk til umráða. Það átti að skilja folaldið eftir heima með öðrum gagnslausum hrossum, en þegar til kom þvertók Skjóna fyrir að fara án afkvæmisins, eins og það var nú líka ómerkilegt, brúnt merfolald- lausaleiks eins og mamman. Það varð að hafa það, við tókum afkvæmið með. En þar með var fj---- laus. Allt hrossastóðið- tryppi, folaldsmerar og aflóga truntur vildu koma líka. Ferðin varð því heldur sneypuleg, ég á Skjónu í miðju stóðinu sem rekið var af þeim sem höfðu stjórn á reiðskjótum sínum.
En það sem ég ætlaði í upphafi að segja-- á leiðinni í Hrunaréttir þennan dag voru stráin á bakka Litlu-Laxár öll hrímuð af frosti, þá var komið haust. Hér fylgir mynd af henni Skjónu með okkur systkinum- áður en hún "lenti í ógæfunni".
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það var nú greinilega eitthvað annað heldur en í gær og í nótt þetta með hrímið því að hitin var þónokkur og gekk ég heim á peysunni í nótt frá Flúðum.
Erla Björg (IP-tala skráð) 17.9.2011 kl. 18:41
Þú ert svo skratti vel ritfær, stelpa! Af hverju notarðu það ekki meira?
kv. í bæinn
Sigurður Hreiðar, 20.9.2011 kl. 12:14
Hef ekki fundið farveginn frændi- ekki enn. kv. til allra þinna.
Helga R. Einarsdóttir, 20.9.2011 kl. 21:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.