8.2.2007 | 20:50
Landnámsmenn - löng saga
Einn góðan veðurdag, sem var þó hreint ekkert góður, heldur verulega kaldur og fúll stórhríðardagur á miðjum þorra, voru börnin í fimmta bekk að vinna við landnámsmannaverkefni. Svoleiðis verk er einmitt svo viðeigandi að gera á þorranum. það er alveg í anda þessara karla sem bitu á jaxlinn og létu sér ekki allt fyrir brjósti brenna.
þau klipptu út karla og límdu á stórt spjald og síðan var þeim sniðinn viðeigandi fatnaður. Úr gömlum tuskum og flíkum sem þau höfðu með sér að heiman og lágu nú í einni allsherjar hrúgu á gólfinu. Allir máttu nota frá öllum, svo kapparnir og konur þeirra áttu völ á fjölskrúðugasta fatnaði. Ullarsneplar og lopatætlur voru þarna líka svo jafnvel mátti útbúa hunda og kindur og það gerðu líka sum sem dugleg voru.
Kennarinn þurfti að bregða sér frá en skildi hurðina eftir opna í hálfa gátt fram á ganginn. Þeir sem áttu leið hjá sáu börnin sitja og klippa, niðursokkin og áhugasöm - flest. Þó kom ég þarna að og var þá húsvörðurinn að smala Sigga inn fyrir dyrnar, kannski hafði hann verið búinn að klæða sitt fólk, eða þurf að sinna öðrum áríðandi erindum frammi á gangi. Í leiðinni sá húsvörðurinn ínn í stofuna, þar sem þau sátu öll og klipptu út, úr gömlu flíkunum foreldranna. "Aumingja Jói" sagði hann við mig frammi á ganginum, "það er nú varla hægt að láta hann fást við þetta, hann situr nú bara þarna inni og klippir út peysuna sína". Ég hugsaði með mér hvað þessi húsvörður væri vitlaus og lítið inni í fræðslumálunum, vissi ekki neitt um fatahönnun landnámsmanna. En ég var ekkert að hafa orð á því. Hann var hvort sem er bara ráðinn til að kunna á kranana og læsa húsinu á kvöldin.
Litlu seinna kom kennarinn til mín þar sem ég sat frammi í anddyri. Hann var með ráðaleysislegan uppgjafarsvip á andlitinu og virtist hreint ekki snortinn af því gleðilega landnámi sem fram fór í stofunni. Landnámsmenn og konur í þessu hugarástandi hefðu aldrei komist lengra en til Færeyja.
Hann hélt á samanbrotinni flík og fletti henni nú í sundur. Glæsileg mussa í skopparastíl, með áprentuðum myndum og stöfum við hæfi. " Viltu sjá hvað hann Jói gerði við nýju peysuna sem hann Siggi keypti í Hveragerði um daginn"? Sagði hann skjálfandi röddu. Almáttugur! Ermin kllippt í sundur svo hún rétt lafði við og fullt af götum út um allt. Stafir klipptir úr í heilu lagi. Peysan var gjörsamlega ónýt.
Siggi hafði á sínu rápi hent af sér peysunni í miðja landnámsmannahrúguna og hinn svo að sjálfsögðu tekið þar það sem honum fannst flottast. Hver segir að landnámsmenn hafi allir verið jafn sauðarlegir í klæðaburði?
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.8.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 11
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að lesa bloggið þitt Helga. Sögurnar úr skólanum eru skemmtilegar en enn skemmtilegra finnst mér að lesa nostalgíu- sögurnar frá Selfossi fyrri ára. Ég man til dæmis alveg eftir Svarta skúr...hvað þá Vallakjöri og Víðivöllunum malarbornum
Sigþrúður Harðardóttir, 10.2.2007 kl. 23:41
Takk fyrir komuna Sigþrúður, eitt sinn austurbæingur alltaf austurbæingur!
Helga R. Einarsdóttir, 11.2.2007 kl. 00:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.