13.8.2011 | 23:24
Sólskinsdagur í Skorradal
Jæja- ég var búin að lofa að segja ykkur frá.Ferðin hófst í morgun kl.10.30 í sólskini og blíðviðri. Við tókum stefnu á Þingvelli, í aðra röndina með það í huga að fara Uxahryggi, en þegar til kastanna kom völdum við frekar Kjósarskarðið. Þar vorum við jú líklega nær því að fara sömu leið og hann Björn langalangafi, þegar hann fór frá Skógarkoti yfir í Skorradalinn til að kaupa sér jörð. Líklegast hefur hann farið yfir Leggjarbrjót og svo Síldarmannagöturnar, eða eitthvað þar nærri. Svo flutti hann að Vatnshorni með konuna sína, hana Solveigu dóttur Björns Pálssonar Þingvallaprests og drenginn Björn sem seinna varð langafi minn.Lóan var farin að hópa sig í Kjósinni, það styttist til haustsins, og í Hvalfirðinum var strekkingsvindur.Okkur hafði verið sagt að koma að Fitjum fyrir hálf tvö af því að þá skyldi lagt af stað fram að Vatnshorni og yrði rúta fyrir þá sem ekki voru bílum búnir til ófæruferða. Þegar að Fitjum kom var það nokkurt fjölmenni fyrir og ungt fólk stóð úti á vegi og vísaði leið, það var ekki alveg komið að brottför. Við komumst fljótlega að því að okkur myndi fært alla leið þó ekki værum við á ofuréppa og einnig fengum við í aftursætið mann sem ferðaðist "bara" á Skoda, sem útilokað var að kæmist alla leið. Þessi maður reyndist okkur hið mesta happ, þar sem hann var öllu kunnugur í sveitinni og fræddi okkur um margt sem við annars hefðum ekkert heyrt um, jafnvel flaut þar með innansveitarslúður sem ekkert er vert að ræða frekar.Enn var beðið, þó klukkan væri vel yfir hálf og fljótlega komumst við að því að það var ekki að ástæðulausu. Forsetinn var væntanlegur í ferðina og hafði eitthvað tafist.Samferðamaðurinn sagði það ofur eðlilegt að Ólafur kæmi með, þar sem hann væri ættaður þarna úr sveitinni, reyndar frá næsta bæ við Vatnshorn. Svo kom á endanum svartur glæsijeppi með fána á húddi og honum var plantað í röðina- fyrsti bíll á eftir rútunni hans Sæmundar, sem lagði nú af stað yfir ána. Leiðin var seinfarin, en svo stutt er þarna á milli bæjanna að við komumst að Vatnshorni á korteri eða svo og gengum síðasta spölinn. Þarna varð svo samankominn fjöldi manns, sennilega nærri 150 var talað um seinna. Skógræktarfólk frá Noregi var þarna, flestir framámenn í skógrækt á Íslandi, líka norskir fulltrúar hinna ýmsu "kommuna", eða sveitarfélaga þar eystra. Fulltrúar ráðuneyta, hreppsnefndin í Skorradal, sóknarnefndin og sveitungar bæði búsettir og burtfluttir. Þetta var greinileg mun merkari samkoma en við höfðum búist við, höfðum víst ekki alveg gert okkur grein fyrir því hversu merkilegt pakkhúsið í Vatnshorni var og er.Upphaflega pakkhúsið flutti hann Björn langafi með sér heim frá Noregi þegar hann lauk búnaðarnámi þar ytra. Þá var það hús algert undur í sveitinni. Hús úr timbri uppá þrjár hæðir hafði aldrei nokkrum manni dottið í hug að myndi rísa í Skorradal. Það pakkhús sem í dag var vígt er nákvæm eftirmynd þess gamla og að nokkru leyti byggt úr sömu viðum, en að öðru leyti er notað timbur úr skógi Skorradals.Það voru haldnar nokkrar ræður, flestar á skandinavisku svo allir skildu. Hulda á Fitjum talaði, en hún á mestan heiður af þessu öllu ásamt Skógrækt ríkisins, og skógræktarstjóri hélt tölu einsog sést á mynd. Svo ávarpaði forsetinn samkomuna og norskir gestir líka. Að lokum var klippt á borðann og kom þá í ljós að húsið var fullt af félögum úr Þjóðdansafélaginu sem komu fegnir út og tóku til að dansa og syngja þarna fyrir utan. Líklega hefur ekki verið meiri hátíð haldin í sveitinni svo árum skipti. Svo var nú aftur snúið að Fitjum og þar boðið til veislu í skemmunni. Hulda bauð gestum að ganga þar inn, en sagðist svo ekki ætla að blanda sér frekar í það mál, því aðrir væru þar sér færari á því sviði. Og svo sannarlega var það rétt hjá henni, fyrir innan tóku félagarnir Beggi og Pascal á móti okkur með vín og mat á borðum. Skemman fylltist af fólki og líklega vel það.Þegar allir voru sestir var gengið um salinn og boðið staup af bláberjavíni, heimagerðum eðaldrykk og svo var tekið til matar.
Svo komu fleiri ræður og gjafir voru afhentar frá vinum í Noregi. Ein frænka mín, ættuð frá Vatnshorni var þarna og flutti vísur eftir stórskáld og svo sjálfa sig, sem kemur ekki á óvart. Ég heilsaði henni seinna og kynnti mig, og hún taldi sig þá vita deili á mér og bað að heilsa, sérstaklega einni frænku minni, henni Solveigu Jónsdóttur. Þið hinar frænkur verðið bara að þola það. Ég náði mér í annað staup af bláberjavíninu um leið og ég fór aftur út í sólskinið.
Þegar klukkan var að verða sex yfirgáfum við Ólafur Ragnar Skorradalinn, hann til að fara lengra norður að hitta norska kónginn, sem er þar einhversstaðar að veiða, en við til að komast heim á Selfoss að horfa á fréttirnar. Pílagrímsferð í Skorradal er lokið og mega ættingjar gjarnan vita að þar var búsældarlegt í dag, og líklega er skógurinn heldur hávaxnari núna en þegar forfeðurnir bjuggu þar á árum áður.
Kærar þakki fyrir mig Hulda á Fitjum, þetta var yndislegur dagur.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir þennan pistil, Helga Ragnheiður. Ég á enn eftir að koma að Vatnshorni, hafði ekki einu sinni döngun til þess meðan Sveinn Skorri var á lífi og var búinn að margbjóða mér í bústaðinn til sín.
Það er gott að eiga eitthvað ógert.
Kv. í bæinn
Sigurður Hreiðar, 14.8.2011 kl. 12:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.