"Atson" stendur fyrir sínu

Það leit ekki út fyrir að dagurinn yrði viðburðaríkur í morgun þegar ég klæddi mig í vinnufötin og stígvélin, tók til skóflu, hjólbörur og sigti og byrjaði að moka úr einu hólfi safnkassans.
Það var þó ekki rígning- í bili, en allt blautt eftir nóttina og það var gott, okkur vantar almennilega vökvun.
Ég er ekki ein þeirra sem sinnir moldarvinnslunni af samviskusemi og kunnáttu. Kassinn er þriggja hólfa og hefur ekki verið neitt almennilegt skipulag á því í hvert þeirra er hent hverju sinni. Og ekki geri ég mér ferðir út í kulda og trekk til að henda þarna eggjaskurn eða kaffikorgi, ég er alls ekki endurvæn eða umhverfisfróð.
Ég veit alveg að ég ætti að standa mig betur og framleiða alla mold sjálf, en moldarbændur í uppsveitum þurfa jú líka að lifa.
Grasið af blettinum fer í kassann, afklippur af runnunum og annar garðúrgangur og ekki get ég svarið fyrir að stundum lendi þar kvistir og greinar sem ættu að fara beint á haugana.
Moksturinn gekk nokkuð vel og sigtið fína sem bóndinn smíðaði fyrir mig í fyrra svínvirkar.
Í hjólbörurnar kom fínasta mold og það var ekkert mikið sem ég henti svo í ruslahrúguna.
Smá spýtukubbar og grófar greinar og mosi- mosinn af hýjasintuskreytingunum virðist bara alls ekki verða að mold. Ég fyllti margar hjólbörur og tæmdi þær jafnóðum í hrúgu, sem ég á svo eftir að bæta aðeins með vikri, og öðrum efnum sem ekki má nefna í svona "endurvinnslubloggi".
Það byrjaði aftur að rigna, en ég var komin niðurfyrir miðju í kassanum, og rigningin var ekki köld- ekta grasveður.
Ég kom auga á eitthvað í sigtinu- eitthvað sem var öðruvísi og ég tók það upp-- seðalveski!!
Heilt tvöfalt veski fullt af kortum, makað í mold og dullu. Ég skolaði af því í vatni og tók kortin úr.
Plastkortin heil, en engir peningar, nafnspjöld og þesslags pappírsdót bara brún drulluskán utaná plastinu.
Ég gat þó greint í einni skáninni nafn þjónustufulltrúa í banka-- fyrir hrun.
Nú fór að rigna fyrir alvöru og það var komið hádegi, ég fór inn með veskið.
Erlent ökuskírteini, bílaleigukort og einhver fríðindakort frá fyrirtækjum og félögum, engin kredit eða debet.
Ég þekki konuna sem átti þessi kort. Veskið sjálft var sæmilega útlítandi eftir þvott og það var stíheilt, brúnt veski frá "Atson", veski fyrir seðla og kort. Leðrið var svolítið máð utaná, en allir saumar heilir og tauið innaní líka, alveg glansandi fínt silki sýndist mér eftir þvottinn. Eignist maður svona veski er greinilega engin hætta á að það eyðist eða slitni á undan peningum eða kortum sem í því lenda.
Ég fór svo síðdegis og skilaði öllu saman til eigandans, og hún varð bæði hissa og glöð.
Veskinu hafði verið stolið fyrir einhverjum árum- sennilega nærri tíu.
Lóðin mín liggur að róluvellinum og þetta austurhólf í kassanum er þar næst.
Stundum á kvöldin höfum við orðið vör við óknyttakrakka þarna á róló, reyndar minna um það í seinni tíð.
Á morgun ætla ég að halda áfram að moka, hver veit nema einhver verðmæti séu neðar í kassanum- alla vega hefur svona fundur hvetjandi áhrif á moldarframleisluna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vesen er á þér, ég er miklu samviskusamari með safnhauginn minn og þar leynast engin "Atsonveski", enda þora óknyttakrakkar ekki þangað all leið.

mýrarljósið (IP-tala skráð) 13.7.2011 kl. 20:50

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Þá er heldur ekkert spennandi hjá þér að tæma kassann?

Helga R. Einarsdóttir, 13.7.2011 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband