29.12.2010 | 20:51
Ferðast í skímu dagsins
Það er sama þó ég vakni upp kl. 4.00 um nótt, við háværa tertuskothríð frá nærliggjandi húsi, eða liggi við lestur langt fram yfir miðnætti, alltaf skal ég vakna klukkan sjö.
Eftir því sem líður á jólafríið hefur mér þó tekist æ oftar að bæla mig aftur og blunda - janvel fram undir birtingu stundum. Í morgun fór ég ekki í sund, heldur ráfaðist hér heima í eintómu tilgangsleysi, ef frá er talið morgunbaðið, Morgublaðið og morgunverðurinn, allt í þynnra lagi þó.
Fótaferðin fékk ekki tilgagang fyrr en mér varð litið útum eldhúsgluggann kl. 10.14 - sólin var að koma upp. Ég fór út með myndavélina, í náttsloppnum einum fata með inniskó á fótunum. Það var ekki mikið frost, pallurinn aðeins hélaður og ég stóð þarna góða stund og tók myndir af sólinni. Nógu lengi til að skilja eftir mig bráðin spor í hríminu þegar ég fór aftur inn.
Í hádeginu héldum við af stað til fjalla. "Að halda af stað til fjalla" þarf hér ekkert að merkja að við værum að fara í fjallgöngu. Á flatneskjunni Selfossi er eiginlega sama í hvaða átt er farið útúr bænum, alltaf er það í átt að einhverjum fjöllum. Nema farið sé á ströndina, en hver gerir það á frídegi? enginn sem á rætur í uppsveitunum.
Í þetta sinn héldum við til Tungna og Hreppafjalla. Við fórum leiðina upp Grímsnes og Tungur til að fara yfir nýju brúna á Hvítá. Það er gaman að prófa ókunnar leiðir og sjá landið frá nýju sjónarhorni. Við komum svo víða við í sveitinni góðu, í besta veðri sem völ er á í desemberlok. Nokkrar heimsóknir bæði hjá látnum og lifandi. Fórum "Maríuhringinn" skoðuðum réttirnar, sem nú er verið að endurbyggja með myndarbrag. Skröltum að Hrunalaug sem er heldur illa komin, en tekur sig þó vel út á mynd. Fórum í Mýrina en sáum þar ekkert kvikt nema hvað einum ketti svarthvítum brá fyrir á hlaupum. Enginn var þar fuglasöngurinn í þetta sinn. Logn og hiti við frostmark, einmitt veður til að rölta um í skóginum og líta eftir trjánum sem verða orðin græn eftir fáar vikur- sólin kemur upp kl. 10.13 á morgun.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 10
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.