Bjútífúli Breiðafjörður

Ferðin 1995 var farin í vesturátt. Við fórum af stað snemma morguns og vorum komin í Dalina. Komum að Hvammi þar sem ég tók mest eftir reynitrénu stóra og fallega. Ég þekki nefnilega afkomendur þessa trés. Þegar séra Kjartan Helgason fór frá Hvammi  að Hruna, nærri aldamótunum 18 - 19, tók hann með sér litlar reynihríslur  og plantaði þeim í uppsveitinni góðu. þau tré gáfu svo af sér fleiri og heima hjá mér í sveitinni áttum við nokkur tré sem alltaf var talað um að væru ættuð ú Dölunum. 

Nú var komið að áfanga sem var nokkuð spennandi. Að kirkjunni í Dagverðarnesi. Við byrjuðum á að villast framhjá afleggjaranum, en vorum þá svo "heppin" að rekast á mann sem sagðist vera þarna uppalinn og vísaði okkur á uppgróinn vegarslóða.  Við lögðum af stað, en fljótlega kom í ljós að þetta var hin versta ófæra og hafði sennilega ekki verið farin síðustu tuttugu ár. Við snerum við og fundum sjálf skárri leið.  "Heimamaðurinn" hefur sennilega flutt úr sveitinni fljótlega eftir ferminguna, þegar hann fór út í kirkjuna síðast og þá trúlega ríðandi eða á hestvagni.

Þennan skárri veg fórum við svo góðan spotta en tókum að lokum það ráð að skilja bílana eftir og ganga. Dagverðarnesið er að mestu hólmar og nes sem liggja út frá landi  fram í Breiðafjörðinn.  Þegar við komum að kirkjunni var þar fólk fyrir og þau höfðu lykil svo við gátum skoðað inni líka. Ein kona var þarna sem sagðist fædd á staðnum og hún fræddi okkur heilmikið.  þarna er altaristafla sem er hið mesta listaverk og aldeilis eldgömul.

  Áður en við snerum til baka fengum við okkur svala og súkkulaði í túninu sem einu sinni var. Hér hefur varla verið búið stóru búi, en sjórinn hefur gefið mikla björg. Við gengum svo aftur að bílunum og lögðum af stað til lands. Ekki höfðum við lengi farið þegar við komum fram á sjávarkamb nokkurn sem við ekki mundum að hafa séð á útleiðinni. Þarna hafði áður verið þurr vegur, en aðfallið hafði sett hann á kaf.

Ekki vildum við bíða þess að fjaraði út aftur, og ekki vissum við heldur hvort enn ætti eftir að hækka í. það var ekkert annað að gera en reyna að komast yfir.  Eins og stundum áður var Hemmi á undan og nú lét hann bílinn sinn blessaðan, sem hann hafði ætlað að ferðast á næstu viku, vaða útí Breiðafjörðinn.  Þetta var ekki djúpt og við komumst klakklaust yfir og til lands.  Þetta kvöld reistum við tjald á Skarðsströndinni við bæinn Á, þar sem bóndinn hafði útbúið notalegt lítið tjaldstæði og nefndi Ögn.     Þar var svo haldin sviðaveisla eins og alltaf er á fyrsta kvöldi ferðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 197655

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband