6.4.2010 | 22:26
Þegar vorið kom fyrir mörgum mörgum árum
Það er kalt og hryssingslegt út að líta, en samt er komið vor. Frostkaldar vindhviður feykja með sér snjókornum sem eru löngu leið á þessu vetrarlanga flökti. "Er ekki mál að linni" hugsa dauðuppgefin snjókornin og leggjast í ræfilslegt föl og vonleysislega litla skafla í hornum. Kannski verða þau ekki til á morgun?
Vorið í minningunni var ekki svona. Tjaldurinn kom á eyrarnar við ána og lét þar til sín heyra frá morgni til kvölds. Pabbi kom vermireitunum í lag og svo hófst drullupottagerðin og kálplöntunum priklað í pottana. Pottunum var svo raðað í reitina. Svona bjuggum við til og prikluðum í mörg þúúúsund drullupotta.
Við vorum bara í hálfan mánuð í einu í skólanum, svo við gátum heilmikið unnið heima á milli. Einn daginn - og þá varð að vera mjjöög gott veður sáði pabbi gulrótunum . Þá hafði fræið verið látið spíra og svo breitt og þurrkað inni á gólfi, í Ingubænum, herberginu mínu. Þar var hitalögn undir gólfinu og alltaf hlýtt. Ætti maður leið á aðra bæi, gangandi eða hjólandi var það ekki alltaf auðvelt af því það voru hvörf í vegunum. Um allar sveitir voru stærðar drulludý í öllum vegum og mjólkurbílarnir lentu oft í vandræðum. Það voru ekkert mjög margir aðrir bílar á ferðinni.
Svo kom að suðburðinum og það var ævintýri. Ég fékk stundum að fara til kindanna að líta eftir, líka um nætur. Og ég lærði að sprauta lömbin nýfæddu, það var alltaf gert og ég var bara tólf ára en gat þetta samt. Svona var á vorin þá. Tjaldar, drullupottar, hvörf í vegum og lömb. Það voraði vel á þeim árum.
En það gerist nú örugglega líka núna, ég er bara óþolinmóð í þessari leiðinda kuldatíð. Mér var sagt að það myndi batna með "fimmunni", en það er fimmtudagurinn eftir páska. það breytir alltaf þá. Ef kalt hefur verið mun hlýna - og verða hlýtt, en hafi verið kalt þá ætti að kólna. Heppin erum við, það er búið að vera kalt og nú eigum við bara von á hlýnandi veðri og vorblíðu.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 197259
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Alltaf svolítið notalegir svona pistlar með fortíðarþrá.
Held nú samt að við eigum eftir að fá svo sem fimm daga kalda áður en vorið brestur á til fulls. Kannski ekki í beinu framhaldi en áður en virkilega snýr til vorsins. -- Vantar ekki ennþá vorilminn úr jörðinni?
Kveðja í bæinn
Sigurður Hreiðar, 7.4.2010 kl. 21:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.