27.3.2010 | 22:57
Hvar varstu þegar gosið byrjaði?
Ég hef verið að hugsa undanfarna daga, um eldgosin sem hafa orðið hér sunnanlands síðustu áratugi. Hvað er ég búin að lifa mörg gos?
Nú væri víst hægast að líta bara í "aldirnar" og finna út úr þvi, örugglega allt skráð um eldgosin allt aftur til landnáms.
Nei- ég ætla að reyna að hugsa sjálf, hver er röðin á gosunum sem hafa orðið á minni ævi og hvar var ég þegar ég frétti af þeim fyrst?
Ég veit auðvitað bara af því mér hefur verið sagt það, að Hekla gaus 1947.
Ég var þá bara þriggja ára og man ekkert eftir því. Sumir þykjast muna nærri því aftur til fæðingar, en ég hef aldrei fundið hjá mér þörf á að láta sem svo. Það sem mér hefur verið sagt, veit ég bara þess vegna, ekki af því ég muni það. Svo er ég svo einstaklega heppin að góð vinkona mín hefur þetta símanúmer - 1947 - ég man það.
Ég var ráðskona í gamla barnaskólanum á Flúðum þegar Surtseyjargosið byrjaði. Var bara í eldhúsinu og útvarpið opið- rás eitt auðvitað, af því þá var bara til rás eitt. Af þessari sömu rás heyrði ég svo allt um gosið og var ekki kostur á öðru eða meira. Þá var ekkert til annað en þessi eina rás í útvarpi. Þetta var víst 1963.
Vorkvöld í austurbænum og bóndinn að koma heim af söngæfingu. Undraði sig á því að allir austurbæingar sem ekki voru í karlakórnum voru komnir uppá þak á húsunum sínum? Við ekki löngu flutt í austurbæinn svo árið er einhversstaðar nærri 1970. Hekla var byrjuð að gjósa og hafði þá ekki látið á sér kræla rúm tuttugu ár. Þarna var komið sjónvarp og myndir sýndar næstu daga - svarthvítar.
1973 - ég svaf heima þegar SK hringdi - þá kominn í vinnuna, og sagði að það væri að gjósa í Vestmannaeyjum. Ég lá áfram í rúminu og hlustaði á útvarpið og fór svo í afmæli Kötu, fyrir utan á síðdegis. Þá sáum við gosmökk yfir Eyjum og svo voru myndir í sjónvarpinu um kvöldið. Enn svarthvítar.
Uppskeruhátíð garðyrkjubænda á Flúðum í kringum 1980, sennilega bara 80? Sunnudaginn eftir vorum við í sveitinni, allir liggjandi í sólbaði úti á bletti og Einar fór í laugina. Kom til baka með hávaða hljóðum "myndavél, myndavél"! "Það er að gjósa í Heklu". Myndavélin var gripin og þær myndir teknar sem fylgja hér með. Við fórum svo í hvelli á Selfoss af því ég vissi hvernig ástandið yrði fljótlega í Fossnesti. Á leiðinni sáum við ekkert nema kolsvartan mökk þar sem Hekla átti að vera.
Stuttu seinna - 1981- eða -2-3 kom svo um miðja nótt eitthvað sem var kallað Skjólkvíagos í Heklu. Það er mér ekki minnisstætt, nema af því að þá varð aftur fjör í sjoppunni. Og ég man að það var um vetur ,þá var alltaf hvítt að líta til austurfjalla. Guðmundur fékk að sitja í hjá vinum mínum Austurleiðarbílsjórum í skoðunarferðir um gossvæðið.
Svo man ég næst eftir afmælisveislu í safnaðarheimili Selfosskirkju, í febrúar - 2000? En ég man ekki mikið annað eftir því gosi. Nú var allt sýnt í lit í sjónvarpi og með árunum verður maður ekki svo uppnæmur yfir gosi - það má öllu venjast.
Og er svo ekki bara Fimmvörðuháls næstur í röðinni? GK. hringdi um kl. eitt og ég nýsofnuð, hlustaði svo á fréttir af gosi fram til þrjú en sofnaði þá aftur. Horfi síðan daglega á beina útsendingu frá MÍLU. Tækninni fleygir fram. Myndirnar eru teknar í Garði í ágúst 1980.
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú gleimdir Öskju 1961 eða svo.
Þórarinn Baldursson, 28.3.2010 kl. 03:17
var ekki líka gos í Heklu kringum 93? ÉG var allavegana á hestbaki þá og okkur fannst hestarnir svo ógurlega skrýtnir. Þá sáum við rauðan bjarma frá Heklu.
Man ekki alveg hvaða ár þetta var en svona í kringum 90-93.
Berglindhaf (IP-tala skráð) 28.3.2010 kl. 10:01
Það getur vel verið Berglind, þetta eru bara þau gos sem ég á einhverjar minningar um. Það er skrá um gos á landinu hjá Veðurstofunni, ég ætla að skoða.
Helga R. Einarsdóttir, 28.3.2010 kl. 11:30
Rétt hjá þér Berglind. Hekla hefur gosið skv. veðurstofu seinni ára 1947- 1970- 1980- 1981 - 1991 - 2000.
Helga R. Einarsdóttir, 28.3.2010 kl. 13:10
Léstu Guðmund fara einan, 5 ára, með Austurleiðarbílstjóra í skoðunarferð á eldstöðvar?
Mýrarljósið (IP-tala skráð) 28.3.2010 kl. 20:08
Nei ljósið mitt, þetta 91 gos bjargar minu uppeldismannorði. Hann hefur verið orðinn 15 ára þegar þær ferðir voru farnar.
Annars voru bílstjórarnir á þessum árum svo góðir að það var hægt að trúa þeim fyrir hverju sem var.
Helga R. Einarsdóttir, 28.3.2010 kl. 21:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.