Færsluflokkur: Dægurmál
9.4.2007 | 20:46
Nútíma verkamannablokkir
Á seinni hluta síðustu aldar var byggt í Reykjavík og líklega víðar um land heilmikið af svokölluðum verkamannablokkum. Þetta var held ég húsnæði ætlað þeim sem ekki höfðu fullar hendur fjár og líklega ráðstafað víða með einhverskonar kaupleigu. Þeir sem vilja mega gjarnan leiðrétta mig ef ég er að bulla. Ekki er ég manna fróðust í þessum efnum.
Í dag lauk þessum páskum með veislu í Reykjavík. Hún Dagmar, yngismær í Grafarvoginum, var fermd í dag og þess vegna bauð fjölskyldan til veislu heima hjá sér. Að hætti sveitamanna lögðum við tímanlega af stað og ferðin gekk svo áfallalaust að við komum til höfuðstaðarins í fyrra lagi. Það var alveg korter í veislu. Þess vegna fórum við einn hring um nágrennið og komum þá að einu þessara nýju hverfa, sem eru í byggingu.
Í útjaðri hverfisins kom ég auga á nokkuð sem ég vil kalla nútíma verkamannablokk. Sex hvítum gámum raðað hlið við hlið og svo öðrum sex staflað þar ofaná. Það voru dyr á jarðhæð og svo nokkrir gluggar á stangli. Alveg skínandi fín blokk, sem ég veit að er reist þarna fyrir erlenda verkamenn. En það sem mér fannst kannski merkilegra voru nýju "fínu" húsin sem þessir menn vinna við að byggja. Það var sáralítill munur á útliti þeirra og "blokkarinnar" góðu. Mikið dæmalaust byggja menn ljótt á Íslandi í dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2007 | 12:50
Vætan búin í bili
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2007 | 12:39
Á ferð með Kalla í Kanada
Ég gleymdi alveg að segja ykkur að ég var með honum Kalla í Gimli sumarið 2005.
Þegar myndin var sýnd í sjónvarpinu í vikunni gátum við séð þetta allt fyrir okkur aftur. Þegar ég kom inná hátíðarsvæðið á Gimli og nálgaðist staðinn þar sem hestarnir voru geymdir heyrði ég kallað glaðri kvenmannsröddu: Nei halló! eru þá ekki hreppamenn hér?! Það var Elín frá Hvítárholti sem ávarpaði mig þar, og sannarlega var gaman að því, að við tveir sveitungar í ólíkum ferðu hittumst þarna í landinu stóra.
Í þessari ferð fórum við líka á stað sem heitir Icelandic State park og þar tókst mér að komast yfir fáeina furuköngla. Heim komin náði ég fræjum úr þessum könglum og þeim sáði ég svo á síðasta vori. Tvær litlar furur komu upp og lifðu til hausts. Ég bjó svo um þær sem best ég gat fyrir veturinn og í gær leit ég eftir þeim greyjunum. Þær eru fullfrískar og biða þess eins að hlýni örlítið meira, þá fara þær að vaxa og verða á endanum vonandi eins flottar og mömmurnar í Kanada. Þá verða þær komnar í framtíðarlandið sitt í Mýrinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2007 | 22:32
Allt sem hægt er að gera
Ég get lofað því að þegar ég mæti í vinnu eftir helgina verð ég dauðuppgefin eftir "blessað fríið". Hvað hef ég gert? Nær væri að spyrja hvað ég hafi komið mér hjá að gera.
Ég fór í heimsókn í sveitina til mömmu og tók með mér tvær yndislegar borgarstúlkur.Á mánudag fórum við mæðgur til Rvk. með Júlíu í aðgerð,sem tókst vel en það var ósköp sárt á meðan á því stóð. Ég keypti inn fyrir helgina, eins og reyndar allir gera. Ég keypti fermingar og afmælisgjafir. Ég bakaði kleinur og pakkaði fyrir kökubasar og ég bjó til þrjár brauðtertur og bakaði eina súkkulaðiköku með kremi. Allt fyrir þennan sama basar sem ég svo undirbjó og hélt með samherjum mínum. Ég hélt fund í kvennaklúbbnum, það var bara eitt kvöld.
Ég fór í fermingarveislu á skírdag. Dýrleif Nanna átti þá líka eins árs afmæli. Ég fór uppí Hvalfjörð á föstudag, með nesti. Við vorum komin þangað kl.10.00 og gengum í hring í tvo tíma. Ég fann ekki marga baggalúta núna. Það er búið að rífa gamla Hamrafell í Mosó og byggja þar nýtt hús. Ég sá gæsir á beit við Borgarholtsskóla. Ég fór í tvær heimsóknir í Vogum á Vatnsleysuströnd og svo fór ég að skoða Wilson á strandstað fyrir utan Sandgerði. Ég tók mynd af Njarðvíkurkirkju. Við fundum mömmu í Vogunum og tókum hana með heim. Hún gisti svo hér og var í afmælisveislu.
Ég fór aðeins í búðir á laugardag og svo var afmælisveisla Dýrleifar seinni partinn. Ég fór snemma dags á Páskadag í ferð uppí Tungur, að Úthlíð þar sem afkomendur eru í bústað. Þar fengum við grillveislu. það var þungskýjað á leiðinni uppeftir en létti svo til á leiðinni heim. Svo fór ég í eina heimsókn innanbæjar seinni partinn. Dýrleif og fjölskylda komu svo aðeins hingað. Ég skrifaði upp nokkra texta fyrir karlakórsmann.Ég er nú enga stund að því. Á morgun er ein fermingarveisla í Rvk. Þvottavélin er að þvo, hún gerir það sjálf. Nú fer ég að hekla teppi sem ég er með á "prjónunum" og horfa á sjónv. með hinu auganu. Annars er víst ekkert í því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.4.2007 | 21:46
Þegar vorið er að koma
Þá breytist svo margt. Og þegar við bætist að maður er í fríi marga daga er hægt að staldra við og taka eftir öllum þessum breytingum.
Fyrir það fyrsta er orðið albjart löngu fyrir fótaferð frídaga, svo engin leið er að sofa út.En það er allt í lagi, ég get ekki heldur sofð út í blindbyl og svartamyrkri á miðjum þorra.
Þess vegna vakna ég, í þessu fríi, til að fara á fætur þegar ég hef legið smá stund og hlustað eftir þröstunum í trjánum fyrir utan. Í eldhúsinu helli ég á könnuna og lít í leiðinni eftir tjaldaparinu sem spígsporar úti á róló og reynir að pota goggunum niður í grassvörðinn. En það gengur ekki vel, enn er dálítið frost í jörðinni. Undir húsveggjunum eru krókusarnir blómstrandi og aðrir fjölæringar farnir að sýna sig undir ruslahrúgunni sem var blómstrandi planta á síðasta sumri. Í beðunum á bakvið húsið þar sem ég á potta með trjáplöntum í uppeldi er brumið farið að tútna á mörgum tegundum, eins gott að ekki komi slæmt kuldakast. Úti á götunni er fullt af holum í malbikinu. Svoleiðis holur verða helst til á vorin og svo er það undir duttlungum bæjarmáttarvalda komið hvað langt er liðið á sumarið þegar þær eru látnar hverfa. Tveir fullir kallar staulast niður götuna, eins gott að þeir lendi ekki í einhverri holunni. Þeir tala saman hástöfum, á máli sem ég ekki skil. Það er snemma morguns á páskadegi og þeir vita víst ekki að þá er allt lokað í sjoppum og búðum á Slfossi. Kannski eru þeir bara í göngutúr, hvað vitum við um venjur útlendinganna á páskum. Rabbarbarinn er farinn að vaxa á bakvið bílskúrinn, hann lætur sér ekki bregða þó komi smá hret.
Og í gær var mér gefin glæný línuýsa spikfeit úr Þorlákshöfn. Ég man þegar við sveitakrakkarnir gátum gert okkur það eitt til skemmtunar á föstudaginn langa að fara í Þorlákshöfn að sækja krakkana sem voru á vertíðinni í höfninni. Eftir að hafa gengið frá þeim afla sem kom að landi á skirdagskvöldi fengu þau páskafrí, stundum ekki fyrr en seint á föstudegi. Þetta var spennandi ferðalag, við fengum stundum að koma inní verbúðir og það fannst sveitafólki ævintýri. þetta var á árum amerískra glæsibíla og hreint ekki leiðinlegt að rúnta um lágsveitirnar fram á nætur. "Við sveitamenn" vorum margir betur akandi en almennt gerðist í sýslunni. Þá var vor.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2007 | 10:08
Ég nennti ekki að vakna fyrir formúluna
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.4.2007 | 21:52
Langur og vel nýttur föstudagur
Einu sinni fyrir langa löngu voru löngu föstudagarnir alveg ótrúlega leiðinlegir. Ekkert mátti gera , ekkert var hægt að fara og vonlaust var að kaupa nokkurn sakpaðan hlut. Þessi dagur var svo einn af þremur dögum ársins sem ég gat verið viss um að eiga frí. Hinir voru Jóladagur og Nýársdagur. En sem sagt, á þessum frídegi var ekkert hægt að gera annað en vera heima og segja börnunum sögur eða lesa fyrir þau.
Þá, eitt árið, kom okkur það snjallræði í hug að nýta daginn til heimsókna. Ég á tvo bræður sem búa suður í Vogum og þangað áttum við aldrei leið. Ekki var farið í þá átt nema á leið í flug og þá var aldrei ráðrúm til heimsókna. Föstudaginn langa fórum við upp frá því alltaf í heimsókn í Vogana. Með börnin á meðan þau fylgdu okkur en síðan bara við tvö.
Eftir að krakkarnir fóru að heiman brá svo við að við fórum að vakna mun fyrr á morgnana, á þessum langa föstudegi ekki síður en öðrum dögum. Þá datt okkur annað snjallræði í hug. Við fórum eldsnemma á fætur, tókum til nesti, og keyrðum á fullri ferð upp í Hvalfjörð. Þar, rétt á móti álveri og járnblendi er vegarslóði niður að sjónum, niður á Hvaleyrina. Við förum þar niður, leggjum bílnum, klæðumst útifötum og gönguskóm og göngum svo hringinn í kringum eyrina. Fyrst yfir að ánni við brekkurætur og svo þaðan út á enda þar sem áð er og hlustað eftir fuglum. Misjafnt er hversu snemma páskar eru og þá eins hvað mikið er af fuglum í flæðarmálinu og á sjónum. Í morgun voru þar skvaldrandi tjaldar og úandi æðarfugl, og veðrið var bara frábært, sólskin og logn. Dettifoss lá við bryggju handan fjarðar. Svo göngum við til baka og förum nú hina fjöruna, sunnanvert á eyrinni. Þarna í flæðarmálinu eru eðalsteinar af ýmsum gerðum og sígur stundum í þegar nálgast bílinn.
Þessi ganga á eyrinni hefur semsagt udanfarin ca. tíu ár verið undanfari vogaheimsóknarinnar og var það í dag líka. Í dag tók gangan tvo tíma, en það ræðst af veðri hvað maður gefur sér af tíma. Ekkert mál að æða á klukkutíma í hífandi roki og kulda. Eftir nesti er svo haldið til byggða. Við komum aðeins við í Grafarvogi, en þar voru fáir heima og svo á Hraunteignum. Þaðan var slegið í suður í Voga. þegar krakkarnir voru með var það eitt af því sem gert var, til að leiða hugann frá þessu "hundleiðinlega landslagi á Reykjanesinu", að telja hurðirnar á hliðinni á álverinu. Nú eru þar engar hurðir, en ég reyndi í dag að telja rendurnar á rörinu langa sem er utaná endilangri byggingunni, en varð að gefast upp einhversstaðar nærri 70.
Svona hafa nú allir langir föstudagar verið hér á bæ í fjöldamörg ár. Líklega alveg 30 og eitthvað frá fyrstu vogaferð. Í dag var svo smá viðbót á. Við fórum með Hadda bróður mínum að skoða Wilson Muga, þar sem hann stendur á grunni skammt fyrir utan kirkjugarðinn í Hvalsnesi.
Gott ef ekki Hallgrímur Pétursson var þar prestur einhvern tíma og var þar víst ekkert "sældarbrauð". Gott ef ekki Passíusálmarnir flugu honum í hug á þeim árum. Þess vegna sé ég ekki betur en þessi óralangi og árangursríki föstudagur hafi verið með ágætlega kristilegu ívafi þar sem ég stóð á hólnum við Halsneskirkju og horfði til sjávar, eins og prestar liðinna ára hafa örugglega gert þar flesta langa föstudaga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.4.2007 | 18:22
Merkilegt er það
Ég sáa á síðu sonar míns í gær að hann hafði hannað barmmerki fyrir frambjóðandann Bjarna. Mér fannst merkið skemmtilegt og bauðst til að kaupa eitt á fimmhundruðkall. Ég fékk það svar að ég gæti fengið það gefins. Það er nú ekki til að afsaka neitt, en mér finnst samt hæfa að segja frá því að ég safna svona merkjum, eins og svo mörgu öðru. Ég á merki um ólíklegustu uppákomur, framboð og viðburði . Má til dæamis nefna S. merki Eggerts Haukdal og Garbage Kids eitthvað sem ég held að hafi verið eitthvert söfnunaræði barna í morgunkorni. En sem sagt, ég er ekkert að afsaka það að ég bauðst til að kaupa merkið hans Bjarna og jafnframt sagðist ég alveg vera til í að bera það á barminum.
Eftir vel heppnaðan kökubasar í Nóatúni fórum við í fermingarveislu Maríu í hótelinu. Það var auðvitað rosa flott veisla og fullt af góðu fólki. þar kom líka ritstjórinn og merkishönnuðurinn sonur minn með konu sína og dótturina Dýrleifu Nönnu sem er eins árs í dag. Þetta er semsagt mikill hátíðisdagur. Sonurinn laumaði að mér barmmerkinu góða sem hann hafði lofað mér. Og ekki vildi ég klikka á mínum fyrirheitum og ætlaði að festa það umsvifalaust í barminn. En þá fórnaði sonurinn höndum og sagði það ekki hæfa að bera Bjarna á barmi sparifatanna í fermingarveislu. Ekki að tala um þó þar hefði hann félagsskap af nælunni góðu perluskreyttu, sem ég erfði eftir hana tengdamóður mína, og heiðursmerki Karlakórs Selfoss sem ég fékk fyrir að skrifa sögu kórsins. Jahjerna. En ég vildi nú ekki alveg una þessum höftum og nældi karlinn innaná barminn. þar hafði ég hann í friði og hann gat reyndar vel við unað, þar var hann kominn nær hjarta mér en sjálfur Karlakórinn sem ég hef borið fyrir brjósti í fjörutíu ár.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.4.2007 | 19:11
Hver var að tala um "hvíldardaga"?
Alveg merkilegt hvað allt verður alltaf snargalið í þessari viku. Allt fullt af bílum á götum og bílastæðum, allar búðir fullar af fólki. Alveg sama hvaða búðir, ekki bara þær sem selja matvörur og gjafavörur. Apótekið er fullt, það undirbúa víst allir veikindi líka, það er vissara. Ég snaraðist í búð fyrir hádegi og dró að mér það sem mig vantaði og á að duga næstu daga. Ég veit að það er opið á morgun svo ekki er hætta á neyðarástandi þó eitthvað hafi orðið eftir.
Á morgun er ein fermingarveisla og áður en hún byrjar þarf ég að starta tertubasar kvennaklúbbsins í Nóatúni. Og útaf þessum kökubasar er ég í dag búin að baka og búa ýmislegt til. Það er langt í frá að páskahelgin verði rólegur hvíldartími hér á bæ. Það er líka allt í lagi, svoleiðis "tímar" eru ekki beint mitt uppáhalds. Nú fer ég að hræra salat í brauðtertur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.4.2007 | 22:13
Mín fyrsta útborgun
Færslan um kálhausana dró upp á yfirborðið fleiri minningar frá þeim tíma.
Ég vann í garðyrkjunni hjá pabba öll sumur frá því ég gat staðið upprétt og þar til ég flutti að heiman um tvítugt. Það má segja að af þessu búi ég alla ævi, líklega nærri jafn fróð um ræktun og margur fræðingurinn. Ég var svo í skólum um veturna, fyrst barnaskóla svo Skógaskóla, eitt ár í Noregi í lýðháskóla og svo var ég komin í barnaskólann aftur, en nú sem ráðskona.
Á meðan ég vann hjá pabba þurfti ég aldrei að hafa áhyggjur af peningum. Ég fékk fæði og húsnæði og svo allt sem ég þurfti af fötum og öðru. (Þó það nú væri ég var tólf ára) En svo kom að því eitt haustið, ætli ég hafi ekki verið svona fjórtán eða fimmtán ára, þá þurfti ég að takast á við þetta mikla vandamál, peninga.
Mummi fór til Reykjavíkur með grænmetið tvisvar í viku og eitt sinn sagði pabbi að hann ætlaði að senda mig með honum til að fara í Sölufélagið fyrir sig að sækja svolítinn pening. Ég var komin fram að Akurgerði fyrir 7.00 en þá fór Mummi af stað. Svo fórum við eins og leiðin lá alla leið til Rvk. og vorum komin fyrir hádegi. Þá var ekkert malbik og kambarnir lágu í mörgum hlykkjum utan í fjallinu.
Þegar komið var í Sölufélagið hafði ég þau fyrirmæli að fara innum ákveðnar dyr og svo leiðarvísir áfram að skrifstofunni hans Kristjáns, sem var gjaldkeri Sölufélagsins. Hjá honum átti ég að fá ávísun uppá 75.000 krónur. Kristján tók mér vinsamlega, ég þekkti hann alveg, henn hafði oft komið heim með öllu hinu fólkinu í Sölufélaginu, en það kom alltaf við í ferðalaginu sem það fór síðsumars. Kristján vissi hvað ég var að gera, ég hafði búið mig undir að þurfa að stynja erindinu upp úr mér, en það var alveg óþarfi. Pabbi hafði víst hringt til hans. Hann rétti mér bara ávísunina og spurði hvort ekki væri allt gott að frétta? Ég hélt það og fór svo út. Næsti liður í áætluninni var að fara í banka til að skipta ávísuninni. Sjötíu og fimmþúsund krónur voru meiri peningar en ég hafði nokkurntíman látið mig dreyma um að komast í tæri við, svo mér leið hreint ekki vel með þennan seðil ofaní töskunni, sem ég hafði með mér til flutninga á verðmætunum.
Á götunni fyrir ofan Sölufélagið hafði mér verið sagt að væri staur með leigubílum í kringum. Þangað átti ég að fara, banka á gluggann á einum bílnum og biðja bílstjórann að flytja mig í Landsbankann á Laugavegi. Þetta tókst mér alveg slysalaust. Bílstjórinn stoppaði svo við bankann og ég borgað honum og kvaddi. Einhverjar krónur hafði ég með til þessa. Í bankanum var svo ávísuninni skipt og nú var ég komin með fulla tösku af peningum.
Ekki var það betra. Ég var alveg viss um að ég myndi týna þessu eða glopra því frá mér á annan hátt. Þetta var skelfileg líðan. Pabbi hafði sagt að ég mætti kaupa eitthvað sem mig langaði til og ég átti alla vega að fá mér að borða. Ég mátti semsagt nota það sem ég vildi eða þurfti. En ég var svo viss um að peningarnir fykju út í veðrið ef ég opnaði töskuna að ég tók enga áhættu. Best að láta þá vera þar sem þeir voru komnir, á botninum í töskunni. Og ég labbaði til baka niður í Sölufélag.
Ég var ágætlega kunnug í Reykjavík, systi mömmu bjó þar og við höfðum oft verið þar í heimsókn. Reykjavík var eiginlega okkar kaupstaður miklu frekar en Selfoss, sem var nú reyndar á þessum tíma eiginlega hreint ekki neitt.
Ég átti að fara með Mumma heim aftur síðdegis, en fram að því hafði víst verið gert ráð fyrir að ég rölti um búðirnar á Laugaveginum og eyddi peningum. En ég tók enga sénsa. Fljótlega uppúr hádeginu var ég sest á bekk fyrir utan Sölufélagið og þar sat ég þangað til Mummi kom úr sínum útréttinum síðdegis. Svo fórum við bara heim og ég var guðsfegin þegar ég var komin í bílinn og vissi að peningarnir voru allir á sínum stað.
Ennþá fegnari var ég þegar heim var komið og ég gat losað mig við þennan þungbæra flutning og svo fengið að borða. Ég var orðin nokkuð svöng. Ég man að pabbi varð svolítið kyndugur á svipinn þegar ég rétti honum alla peningana óhreyfða. Hann spurði hvort ég hefði ekkert keypt og svo sagði hann sem svo "að hann skyldi þá geyma þetta fyrir mig" og það fannst mér ágætt. Það rann ekki upp fyrir mér fyrr en löngu seinna að ég hafði verið að sækja sumarkaupið mitt og hefði getað eytt því að vild. Svona var ég nú vitlaus.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hér slettir Helga skyrinu...
Tenglar
Barnabörnin
Dritarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.8.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 197639
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar