Vorverkin í menningunni

Nú er að koma sumar. Karlakór Selfoss hefur haldið sína fyrstu vortónleika á sumardaginn fyrsta í áratugi. Ég kannski fullyrði ekki fjóra, en örugglega þrjá. Við sem að þessum kór stöndum þurfum sitthvað að snúast vegna þessa. Söngskráin er alltaf borin í hús, næst síðasta dag vetrar eða svo.  Ég var að bera út áðan, í hverfið mitt, sem hefur nú verið mitt nokkuð lengi.

Við skiptum bænum niður í bita og eignum okkur svo hvert sinn. Síðustu ár hefur þetta verið að þyngjast nokkuð fyrir "útburðina". Bærinn flæðir út um alla móa og mýrar og yfirferðin er orðin slík að best væri líklega að fara þetta ríðandi. Bekkjarfélagi minn góður komst svo vel að orði um daginn og sagði að það væri allt orðið hundleiðinlegt hérna. Hvergi hægt að vera, búið að eyðileggja alla móana í bænum. Ussussuss. Þetta er sjónarmið sem vert er að taka eftir.

Mitt hverfi er gamalt og gróið. Sama fólkið sem þar byggði í upphafi býr flest enn í húsunum sínum, sumt komið á efri ár, en heldur öllu vel við og er nú margt búið að fara fyrstu hreinsunarferðina í garðinum. Einstaka hús hafa fengið nýja eigendur. Ungt fólk sem hefur flutt hingað úr einhverjum öðrum bæ, sveit, eða bara úr borginni sjálfri "af því hér eru húsin svo miklu ódýrari en þar".  Þessi hús hafa ekki öll verið jafn heppin.  Garðarnir kannski í mestu órækt, húsin sjálf hafa ekki séð málningarpensil í einhver ár og grindverk og stéttar eru í algeru rusli. Svona getur farið fyrir húsum þegar þau eru keypt eingöngu vegna þess að þau eru ódýrari en húsin í borginni. Önnur hús hafa verið heppin og fengið fólk sem vill gera allt sem hægt er til að hafa húsið sitt fínt og garðinn til sóma. En svona gömul hverfi  geta víst átt von á ýmsu.

Eftir konsertinn á fimmtudagskvöld gerum við okkur dagamun og höldum fína kaffiveislu í kórhúsinu okkar. Af því ég er formaður kvennaklúbbsins núna, hef ég verið, og verð eitthvað áfram á kvöldin, í símanum að redda hinu og þessu. Pönnsum hjá nokkrum, og öðrum til að hjálpa til við undirbúning og framkvæmd veislunnar. Einhverjar þurfa líka að selja miða á konsertum. Það er vissara að punkta hjá sér hvað er klárt og hvað ekki. En allt er þetta ósköp auðvelt. Við erum góður félagsskapur og allar segja já við öllu sem beðið er um. Það verður allt löngu tilbúið þegar við mætum á konsertinn í kirkjunni á sumardaginn fyrsta.


Flatey á Mýrum og fimmhundruð kýr

Ég er reyndar ekki alveg viss hvort ég á að segja Á eða Í Flatey.                                En 500 mjólkandi kýr, það er ekkert smá. Það verður vandi að finna nöfn á þær allar. Ég bara vona svo innilega að ekki verði látið duga að klessa númeraskilti á hverja og eina. Ópersónulegur búskapur er held ég leiðinlegur búskapur. Það kannski gengur með hænur, sem hafa "hænuhaus", en alls ekki beljur, þó talað sé um að "nautheimsku".

Þær hafa sál og heila, þær hugsa. Alla vega hafa þær misjafna hegðun. Það var örugglega úthugsað þegar hún Snotra elti allan  grenjandi krakkaskarann upp í ás til þess eins að drepa okkur. Einstakt lán að okkur tókst að klifra upp á klettinn þar sem við húktum langt fram á kvöld þegar við loksins vorum sótt. Ekki höfðum við grun um að það væri hann Snati sem hún var á eftir. Það vildi bara svo til að hann var með okkur.

En þessi árás sýndi sem sagt að hún var eitthvað að hugsa, þó heimskulegt væri.       Ég vildi gjarnan leggja lið við búskapinn í á Flatey með því að rifja upp nokkur góð kúanöfn, ef ég væri viss um að þau yrðu notuð.  Það eru ekki allar beljur bara Búkollur.


Ég læt það bara flakka

Ég var að ráfast hér um síðurnar og lesa eitt og annað. Ég sé ekki fram á að þetta sjónverpsefni haldi í mig tvö sunnudagskvöld svo ég sleppi því bara alveg. Á einni síðunni kom ég auga á skoðanakönnun - hvernig gemsa átt þú? Það varð til þess að ég hugsaði - líklega í hundraðasta sinn - á ég að segja frá því? 

Ég hef heyrt að fólki líði oft betur þegar það hefur "komið útúr skápnum", þar sem það hefur kúldrast eitt með sínar byrðar, oft langtímun saman. Byrðar sem væru svo miklu léttari ef aðrir hjálpuðu til að bera þær. Jú nú tók ég loksins ákvörðun og segi það bara umsvifalaust. Ég á engan gemsa. Ekki var þetta nú erfitt. Ég á ekki farsíma og líður samt alveg ljómandi vel. Haahh.

Og ég held líka að það sé til fleira fólk sem eins er ástatt um, en þorir ekki að láta vita af sér. Ekki þennan aumingjaskap lengur, það er allt í lagi. 


Aftur í dag og málið er dautt

Það er allur vandinn. Ég dreif mig strax í morgun aftur út á blett og rakaði og hreinsaði það sem eftir var með tilheyrandi beygjum og teygjum. Harðsperrurnar létu undan síga og nú er ég eins og fimleikastúlka á norðurlandamóti - ég sá hana í sjónvarpinu áðan.

Júlía kom með pabba sínum fyrir hádegið, hún var orðin svo áhugasöm um heilsufar og klæðnað Siggu að hún bara varð. Það varð úr að Sigga fór með þeim heim. Alklædd.

Við fórum svo í sveitina í dag, í afmæli til mömmu. Það eru engin smámenni sem eiga afmæli á þessum degi: Vigdís Finnboga, Tóti á Reykjarbakka (til hamingju), Páfinn og mamma. 


Dagur mikilla afreka

Ég gerði meira en að kyssa þennan kall í búðinni í morgun. Fyrir löngu síðan ákvað ég að gera tilraunir með ræktun eplatrjáa, en það lá við að ég gleymdi því. Þarna í kælinum í morgun mundi ég það allt í einu. Mér dvaldist líka óvenju lengi í kælinum útaf þessum skemmtilega "hittingi". Já það flaug mér í hug að ég ætti eftir að sá eplatrjánum. Þess vegna tíndi ég þarna í körfuna fáein epli af öllum sortum sem boðið var uppá í Bónus í dag.  Ég ætla að reyna hver þeirra verður til  að gefa af sér stærsta og hraustasta eplatréð í Mýrinni.  Ég var meira að segja með svo skýra hugsun þarna í kælinum að ég mundi líka eftir að kaupa sætar kartöflur sem ég ætla að láta spíra og prófa að setja niður í vor.

 Það verður semsagt ákaflega fjölbreytt og tilraunakennd ræktun í gangi þetta árið. Eftir hádegið fórum við svo út í framkvæmdir.  Vetrardekkin tekin undan og önnur sett í staðinn. Limgerðin klippt, nokkuð mikið þetta árið, og bíllinn þveginn. Öllum afklippunum rakað saman og öðru rusli af lóðinni líka. Stakir runnar og tré klippt og snyrt. Draslið í hjólbörur og flutt í haug á baklóðinni. Kerran verður svo margfyllt á næstu vikum og allt saman flutt á haugana.  Dagurinn var að vísu liðinn áður en allt ruslið var komið í hrúguna, en eitthvað verður nú að hafa fyrir stafni næstu daga.

Ég var nú að hugsa um að sleppa því, en læt það bara fljóta með. Ég er strax komin með harðsperrur um allan skrokk. 


Það kyssti mig karl á kælinum í Bónus

Svona er vorið - allir fara á stjá.  Þeir sem hafa legið í vetrardvala í skjóli borgar og bæja eru allt í einu dreifðir um holt og hóla í sveitunum. En jafnvel þar þurfa menn að borða og þess vegna brá hann Broddi sér í Bónus í morgun. Einmitt þegar við vorum þar í vikulegum innkaupum. Það var gaman að sjá hann.

Ég stunda lýtalækningar

Ég var búin að ákveða að gera þetta, en gerði mér varla grein fyrir hvernig ég ætti að fara að því. Eina leiðin var að hella sér bara í aðgerðina um leið og ég kom heim úr vinnunni. Hún var átakanlega mjóslegin,og svo var kroppurinn litli einhvernveginn allur í ósamræmi. Innfallin hægra megin að ofan og svo annað lærið, það var varla á því nokkurt hold. Vinstri rasskinn var hins vegar allnokkuð bústin og af þessu leit hún út eins og illa fötluð eftir umferðarslys.

Ég byrjaði á að sauma annan handlegginn betur á, tróð þar fyrst inn alveg glás af fyllingu svo allt leit vel út eftir að saumað var. Svo gerði ég stóran skurð á bakið og tróð þar inn nærri því úr fullum poka, alveg ótrúlegt hvað miklu ég kom fyrir. Ég þjappaði þessu ofaní fæturna og í handleggi og reyndi svo að gera búkinn eins kvenlegan og sexý og mögulegt var. Mér fannst óþægilegast á meðan á öllu þessu stóð, hvað hún var tilfinningalaus í svipnum. Hún starði á mig hálfopnum augum og brá ekki svip, hvort sem ég gerði stórar skurðaðgerðir eða sumaði. Nálin sem ég notaði var samt ekkert smáræði, engin venjuleg saumnál. Nálgaðist frekar pokanálarnar sem við notuðum til að sauma fyrir kálpokana í sveitinni hér áður fyrr. Það hefði mátt ætla að hún hefði fengið magnaða mænudeyfingu. Hún fann ekkert til, en var samt að horfa á mig.

Ég endaði svo á að sauma saman baksauminn og var nú nokkuð ánægð með aðgerðina. Það er reyndar örlítill herðakistill vinstra megin, en ég trúi ekki öðru en það jafni sig.  En nú varð enn meira áberandi hvað hún var óhrein í framan, og reyndar líka á höndum og fótum. Ég fór í vaskskápinn. Þar fann ég eitthvað sem á stóð: "ENJO - ekta sápa". Eitthvað sem ég lét plata inná mig á kynningu fyrir langa löngu. Rándýrt. Ég setti skvettu á svamp og byrjaði að nudda á henni andlitið, og viti menn það varð árangur. Ég hélt svo áfram og nuddaði höfuð háls og útlimi með þessari dýrindis sápu. Hún varð alveg tandurhrein. Ég get bætt því við kynningartexta þessarar "EKTA SÁPU" að hún batnar með árunum ef eitthvað er.

Nú er Sigga að hvíla sig inní stofu, endursköpuð og hrein og fín. Deyfingin að hverfa.  En hún er  ennþá  alsber. Þó að kroppurinn sé nú hreint ekki til að skammast sín fyrir verð ég víst að gefa henni einhver föt.


Aumingja Sigga

Ég kom of seint heim úr vinnunni í dag. Þegar ég loksins kom hékk greyið hún Sigga litla við útidyrnar, fáklædd og mjóslegin. Hún var nú víst ekki búin að bíða lengi, en þó alveg nóg, í vestangjólunni sem var hér síðdegis.  Ég opnaði í skyndi og tók hana með inn. Mikið dæmalaust var hún kviðdregin  og vesaldarleg.

Ég byrjaði á að reyna að þvo henni, það var líkast því að hún hefði ekki komist í tæri við vatn og sápu svo vikum skipti. Mikið getur fólk verið kærulaust þegar svona litlar Siggur eiga í hlut. Verst gekk mér að ná skítnum af hælunum á henni. Þeir voru eiginlega svartir og eru enn ekki nógu hreinir þó ég sé búin að reyna bæði leisi geisla og pottasvamp. Nú læt ég hana hvíla sig eftir þvottinn. Ekki veitir hanni af að vera vel úthvíld þegar ég fer að vinna í því að koma henni í sæmileg hold. Þá verð ég að klippa gat á magann á henni og troða svo í nýrri fyllingu. Ég hlakka til þess, ég fæ þá alveg að ráða því hvernig holdafarið verður.  Og ekki verður síður gaman að klæða hana uppá nýtt, ég held hún hafi ekki fengið nýja flík í mörg ár. Ég ætla að hekla henni kjól og sokka, húfu og kannski peysu líka. Hún Sigga er nefnilega einskonar langömmubarnið mitt, dúkkan sem hún Helga Guðrún eignaðist þegar hún var á fyrsta ári og nú eru þær að verða átján ára.


Byggingarreitur í miðju vegarstæði?

Það er eins gott að fara að drífa í þessum blessuðum Suðurlandsvegi. Ef það dregst lengi gæti þurft að rífa hús eða finna annað vegarstæði.  Á Norðlingaholti er nú verið að byrja á húsi sunnan við veginn sem þrengir allmikið að, og þau gætu orðið fleiri og nær veginum áður en við er litið. Kannski þarf að fella skóg við Rauðavatn til að koma veginum fyrir. En ekki er það nú "náttúruvænt" að fella svona stór og falleg tré. Það væri líka hægt að byggja brú yfir Rauðavatn? Svo eru aspirnar við Hólmsá sem plantað var fyrir nokkrum árum. Þær eru nú orðnar bærilega stórar og flestar í miðjum tvíbreiðum veginum. Þetta stefnir í eintómt vesen. Tvöfaldur vegur á kannski ekki að byrja fyrr en í Lögbergsbrekkunni, eða ætti bara færa hann á einhvern allt annan stað? Einu sinni lá kaupstaðarleiðin frá Kolviðarhóli með hlíðunum og ofan vatna niður að Grafarholti. Æ- þar er allt orðið fullt af húsum og enga smugu að finna. Hvað með Krýsuvíkurleiðina? 

Fóelluvötnin

Bráðum getum við séð hvernig sumarið verður. Hann afi minn Hreiðar, sem var bóndi í Mosfellssveitinni í mörg ár, sagði mér allt um það.

Þjóðhátíðarárið 1974 fórum við á 17. júni og sóttum afa í Hliðartúnið þar sem hann bjó sín síðustu ár. Hann kom með okkur austur til að vera við hátíðarhöldin hér á Selfossi.

það var rjómablíða þennan dag eins og reyndar allt sumarið. Þegar við ókum hjá Sandskeiðinu, þar sem Fóelluvötnin eru hinumegin við veginn, sagði afi okkur að þetta myndi verða gott sumar.  Hann sá það af því að vötnin voru öll yfirfull af vatni.  Þó að þarna heiti alla tíð "vötn" er það ekkert algilt að í þeim sé vatn. Stundum er allt þurrt og skrælnað. En ef vatn er í vötnunum, (eins kjánalegt og það hljómar), á vorin og fyrri hluta sumars, má treysta því að sumarið verður gott á því veðursvæði sem vötnin tilheyra. "Gott sumar" er svo kannski álitamál hvað hverjum finnst, en ég hef fylgst með þessu og "gott"  hefur næstum undantekningalaust fylgt miklu vatni. Og "gott" er þá hlýtt og  bjart hér sunnanlands.  Ég get svariða!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hér slettir Helga skyrinu...

Höfundur

Helga R. Einarsdóttir
Helga R. Einarsdóttir
Netfang: hresk@mi.is

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • DSCF2187
  • DSCF2186
  • DSCF2180
  • DSCF2214
  • DSCF2208

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband